Árlegur fundur samtaka geislafræðinga var haldinn nýlega á Möltu í boði þarlends félags geislafræðinga og í fyrsta skipti undir skammstöfunum ECRRT (European Committee of Radiographers and Radiological Technologists). Á fundi samtakanna í fyrra (eftir ISRRT ráðstefnuna í Amsterdam) var samþykkt nýtt stjórnunarfyrirkomulag fyrir samtökin og valið í stjórn og nefndir. Fyrsti óformlegi fundur samtakanna var síðan haldinn í tengslum við ECR í Vín, í mars 2003, og er stefnt að því að vera ávallt með formlega fundi þar framvegis.
Fundurinn á Möltu var árlegur vinnufundur þar sem þátttaka er takmörkuð við 2 fulltrúa frá hverju aðildarlandi og er tilgangur fundarins að fara yfir verkefni og árangur fyrra árs, um leið og lagðar eru línur fyrir verkefni næsta og næstu ára. Kosið er í nefndir og settir á fót hópar til þess að vinna að einstökum málefnum. Helstu verkefni snúa að því meginmarkmiði að samhæfa og samræma, menntun, hlutverk og ábyrgð geislafræðinga í Evrópu, til þess að stuðla að virkari opnum vinnumarkaði í Evrópu. Unnið er að málum er tengjast Evrópusambandinu og stofnunum þess en einnig að innri málum alþjóðasamtaka geislafræðinga (ISRRT). Á þessum fundi skilaði undirritaður af sér skýrslu um könnun sem gerð var í Evrópu í lok árs 2002 um það hvernig svokölluð sjúklingatilskipun Evrópusambandsins hafi verið færð yfir í löggjöf einstakra landa sambandsins og hvaða áhrif það hafi haft á stöðu geislafræðinga. Þetta er mjög heitt mál þar sem geislavarna löggjöf landanna er misjöfn hvað þetta varðar og hefur áhrif á hlutverk geislafræðinga m.t.t. réttlætingar geislunar og bestun. Einnig hefur verið gerð ítarleg könnun á menntun geislafræðinga í öllum löndum Evrópu og augljóst að mikið verk er fyrir höndum við að samræma menntun.
Á fundinn mættu fulltrúar frá 24 löndum í Evrópu, þar á meðal fulltrúar frá nýjum aðildarlöndum samtakanna, þ.e. Slóvakíu og Serbíu-Svartfjallalands. Aðrir þátttakendur voru frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Bretlandi, Írlandi, Þýskalandi, Belgíu, Hollandi, Frakklandi, Portúgal, Ítalíu, Sviss, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Ungverjalandi, Króatíu, Slóveníu, Grikklandi, Tyrklandi og auðvitað Möltu. Frá Íslandi mætti auk undirritaðs Þuríður Halldórsdóttir, nefndarmaður í Alþjóðanefnd FG. Undirritaður var þar fyrst og fremst sem stjórnarmaður í ECRRT.
#img 1 #
Félag geislafræðinga á Möltu er að mörgu leyti líkt FG og var undirritaður beðinn um að mæta á aðalfund félagsins, sem haldinn var daginn fyrir ECRRT fundinn, vegna umræðna um nýja geislavarna löggjöf sem er í farvatninu hjá þeim. Þetta er lítið huggulegt fagfélag eins og FG (!) þar sem umræður urðu ansi heitar. Menntun geislafræðinga er í nánum tengslum við breska kerfið, enda var eyjan nýlenda Breta í 160 ár, til 1964 þegar eyjan fékk sjálfstjórn og fullt sjálfstæði árið 1974. Í félaginu, sem er fagfélag, eru núna um 100 geislafræðingar. Á eyjunni starfa einnig um 20 röntgenlæknar. Heimasíða félags geislafræðinga á Möltu: http://www.e-radiography.org/
#img 2 #Fleiri staðreyndir um Möltu: Heildarflatarmál eyjaklasans er 315,6 km². Höfuðborgin er Valletta. Íbúafjöldi er u.þ.b. 370 þúsund (þrefaldast yfir aðalferðamannatímabilið). Eyjan skiptist í 6 stjórnsýslusvæði. Rómversk-katólskir eru 98% íbúanna. Tungumálið er maltneska. Enska og ítalska eru víðast töluð. Vinstri handar akstur. Aðaleyjan, Malta, er 246 km² að flatarmáli, Gozo er 67 km² og Comino er 2,6 km². Nokkrir aðrir óbyggðir klettar og sker rísa úr hafi. Eyjaklasinn er við austurenda Sikileyjarsunds í miðju Miðjarðarhafi, 93 km frá suðurenda Sikileyjar og 288 km frá ströndum Túnis. Lengdaröxull eyjaklasans, sem rís hæst í 253 m, er 44 km langur frá suðaustri til norðvesturs. Möltueyjar eru taldar vera leifar landbrúar, sem tengdi Sikiley við Norður-Afríku á tertíer og kuldaskeiðum ísaldar, og skipti Miðjarðarhafinu í tvennt. Miðað við fjölda fornra hofrústa á eyjunni hefur þeirri kenningu verið hampað að eyjarnar séu leifar Atlantis.
#img 3 #
Maltneska félag geislafræðinga stóð sig með mikilli prýði við að skipuleggja og undirbúa þennan fund og var það mál manna að erfitt yrði fyrir næsta land að gera eins vel við gesti fundarins og gert var á Möltu. Fundurinn var haldinn á 5 stjörnu hóteli, enda fundartími fyrir utan hefðbundinn ferðamannatíma og hótelpláss því tiltölulega ódýr.
Nóvember, 2003.
Guðlaugur Einarsson, ge@gr.is