Fyrir skömmu birtum við grein þar sem geislaálag af völdum CT rannsókna var í fókus og minntumst meðal annars á frumvarp til laga sem þá lá fyrir í Kaliforníuríki Bandaríkjanna. Þetta frumvarp er nú orðið að lögum og má reikna með að það hafi mikið fordæmisgildi við lagasetningu í öðrum ríkjum og jafnvel utan Bandaríkjanna.
Koma til framkvæmda 1. júlí 2012
Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, undirritaði lögin sl. miðvikudag en þau taka til geislunar af völdum tölvusneiðmyndatækja og geislameðferðar.
Þrátt fyrir að hafa nú tekið gildi koma lögin ekki til framkvæmda fyrr en 1. júlí 2012. Það segir framkvæmdastjóri California Radiolocical Society, Robert Achermann, að hafi úrslitaþýðingu fyrir framgang þeirra því nú fái myndgreiningarsamfélagið, löggjafinn, eftirlitsstofnanir og FDA (Food and Drug Administration) tíma til að skoða málin betur og finna heppilegustu aðferðir til að uppfylla kröfur laganna.
Tölvusneiðmyndir og geislameðferð
Samkvæmt því sem stendur í grein hjá Minnu frænku (AuntMinnie.com) krefjast nýju lögin þess, meðal annars, að geislaskammtur (radiation dose) af hverri CT-rannsókn verði skráður á myndirnar sem úr henni koma og í röntgensvarið, sem fer í sjúkraskrá sjúklings. Ofskömmtun skal tilkynna sjúklingi, tilvísandi lækni og Department of Public Health (DPH) hjá Kaliforníuríki. Krafist er skýrslu til DPH ef geislaskammtur við rannsókn verður 20% hærri en eðlilegur (prescribed) skammtur og einnig ef rannsókn er gerð á röngum líkamshluta. Ekki kemur fram í greininni hvar “eðlilegur skammtur” er skilgreindur.
Einnig er gerð krafa um að allir staðir þar sem tölvusneiðmyndir eru teknar séu vottaðir í samræmi við alríkisstaðla og sýna þarf fram á að öll CT tæki séu kvörðuð árlega. Þessir liðir koma til framkvæmda sex mánuðum á eftir öðrum, eða 1. janúar 2013.
Fyrir þá sem hafa áhuga er hægt að nálgast lagafrumvarpið (SB 1237) á pdf-formi.
Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu þessara mála í Kaliforníu og hvaða áhrif lagasetningin hefur í öðrum ríkjum Bandaríkjanna en ekki síst hvernig tekið verður á sömu hlutum í Evrópu.
04.10.10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is