Fréttaskeyti frá Vilberg í Lundi


Nú eru næstum liðin 7 ár síðan ég flutti hingað til Lundar. Tíminn er fljótur að líða. Mig
#img 1 #langar að skrifa nokkrar línur og segja frá því hvernig er hérna hjá mér í Lundi.
Fyrstu 9 mánuðina eftir að ég flutti hingað vann ég á röntgendeildinni hér á Háskólasjúkrahúsinu í Lundi. Síðan fékk ég stöðu við tölvusneiðmyndatæki á Geislameðferðardeildinni og hef unnið þar síðan. Ég hef tekið sérnám í Geislameðferð sem er 20 eininga nám sem stjórnað er héðan frá Lundi. Í undirbúningi er að byrja í mastersnámi síðar á þessu ári.

Þegar ég kom til starfa á geislameðferðinni var gamalt Philips CT tæki notað við undirbúning fyrir geislameðferð en einnig voru gerðar einfaldar greiningarannsóknir á krabbameinsjúklingum. Fljótlega eftir að ég hóf störf hér, síðla árs 2001, var Philips tækinu skipt úr fyrir nýtt GE HiSpeed 2 sneiða CT tæki. Fyrir um einu ári síðan var bætt við öðru tölvusneiðmyndatæki, Siemens Sensation Open, 24 sneiða tæki með 83 sm gantry opi með 80 sm ”field of view”. Ný tegund af röntgenröri, ”Straton” er í tækinu, og fást því
#img 2 #sömu myndgæði með 83 sm gantry eins og með 70 sm gantry. Tækið hentar því vel fyrir geislameðferðarundirbúning þar sem meiri möguleikar opnast á legu sjúklinga með svona stórt gantry. Einnig hentar svona tæki vel við bráðasjúklinga þar sem mikið er um tæki og tól sem fylgir með sjúklingunum eða fyrir stóra sjúklinga sem ekki komast fyrir í venjulegu 70 sm tæki. Á deildinni hefur líka verið tekið í notkun tölvukerfi þannig að við getum notað CT tækin sem CT-simulator eða CT-hermi. Þannig að nú gerum við nær allan undirbúning sjúklinganna fyrir geislameðferð á CT tækjunum, í staðinn fyrir að áður þurftu sjúklingarnir fyrst að koma í CT rannsókn og síðan nokkrum dögum síðar koma í simulator eða hermi.

Eins gerum við allar CT greiningarannsóknir fyrir Krabbameinslækningadeildina og sendum rannsóknirnar til röntgendeildarinnar til úrlestrar. Ég hef gert kerfi með röntgenlæknunum þannig að CT-beiðnarnar eru ekki sendar til röntgenlæknis til yfirlestrar, heldur fer það eftir sjúkdómnum sem sjúklingurinn hefur hvernig rannsóknin skal gerast. Þetta gerir það að verkum að rannsóknirnar eru gerðar á sama hátt fyrir sama sjúkling í hvert skipti, í staðin fyrir að það fer eftir þeim röntgenlækni sem les yfir beiðnina hvernig rannsóknin skal gerast. Eins og við vitum hafa þeir ólíkar skoðanir á hlutunum og verða rannsóknirnar því stundum ólíkar. Krabbameinsjúklingar koma reglulega í rannsóknir til að fylgjast með meðferðaráhrifum og er því sérstaklega mikilvægt að hafa rannsóknirnar vel sambærilegar.

Það hefur verið lærdómsríkt að taka þátt í þessari þróun sem orðið hefur á undirbúningi geislameðferðarsjúklinga. Ég hef séð um CT hluta geislameðferðardeildarinnar frá því ég byrjaði hér, fyrst einn á gamla Philips tækinu en nú erum við orðin 11 sem vinnum við tölvusneiðmyndatækin, legumótagerð og á gamla simulatornum, herminum, sem fljótlega verður skipt út fyrir MR. Munum við þá gera undirbúninginn fyrir geislameðferðina á MR tækinu í staðinn fyrir á CT í vissum tilfellum.

#img 3 #
Geislameðferðin í Lundi er ein af stærstu geislameðferðardeildunum í Svíþjóð. Deildin er útbúin 7 línuhröðlum og einu röntgenmeðferðartæki. Tveir af línuhröðlunum eru útbúnir einföldu tölvusneiðmyndatæki til að geta staðsett stjúklingan nákvæmar við geislameðferðina og þannig minnka meðferðarsvæðið. Möguleiki er að gefa geislameðferð með IMRT tækni (Intensity Modulate Radiation Therapy) á þremur af línuhröðlunum. Hér er einnig skurðstofa þar sem hægt er að opna inn á einn línuhraðalinn og gefa geislameðferð beint í aðgerðaropið. Eftirhleðslu-geislameðferðartæki og ísótópadeild tilheyrir einnig geislameðferðinni.

Byggt var við geislameðferðina 1992 og eru 4 af línuhröðlunum í nýja hlutanum. Hann er ofanjarðar og var þetta með fyrstu stöðunum í heiminum sem byggði geislameðferð ofanjarðar. Landslagsarkitekt hannaði garðskála sem stendur fyrir miðju í aðalbyggingu
#img 4 #meðferdardeildarinnar og garð með tjörn fyrir framan húsið. Hún kallar verkið “Húsið í skóginum og skógurinn í húsinu” og skapaði dvalarsvæði þar sem að gróður, vatn og dýralíf skipar aðalhlutverkið. Hefur þetta umhverfi mjög jákvæð áhrif bæði á sjúklinga og starfsfólk. Nú er hafinn undirbúningur þess að byggja aftur við geislameðferðina og er þá gert ráð fyrir 4 nýjum línuhröðlum og nýrri aðstöðu fyrir eftirhleðslu-geislameðferð.

Nú í desember var tekið í notkun CT-PET tæki hér á sjúkrahúsinu, Philips GEMINI TF. Fyrst var ætlunin að tækið yrði staðsett hér á geislameðferðinni þar sem 90% af sjúklingunum sem hafa not af CT-PET rannsóknum eru krabbameinsjúklingar. En sú varð ekki raunin og var tækið sett á röntgendeildina, eða þeim hluta hennar sem gerir
#img 5 #ísótóprannsóknir. Cýklotrónn er staðsettur hér á krabbameinslækninga-deildinni sem þjónar Lundi, Malmö og að hluta til Kaupmannahöfn. CT-PET erum við þegar farin að nota til undirbúnings fyrir geislameðferðina. Farið er þá með sjúklingana til röntgendeildarinnar og gerð CT-PET rannsókn með sjúklinginn í sínu legumóti, en keypt var sérstakt rannsóknarborð og staðsetningarbúnaður svo hægt væri að nota tækið fyrir geislmeðferðarundirbúning.

Á Háskólasjúkrahúsinu í Lundi er mikið um að vera og mikil þróun í meðferð krabbameinssjúklinga – bæði hvað varðar geislameðferð og krabbameinslyfjameðferð. Þróun sem gaman er að taka þátt í.

Kær kveðja
Vilberg Jóhannesson, geislafræðingur   vilberg.johannesson@skane.se 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *