Eins og fram kemur í Arnartíðindum tókst starfsfólki Hjartaverndar mjög vel upp með opna húsið og myndgreiningarfólk mætti þar í stórhópum. Í framhaldi af því héldum við hjá Raferninum áfram að velta fyrir okkur fyrrnefndri hugmynd um árlega viðburði af svipuðum toga.
Þar sem við erum stödd í ferlinu er einhverskonar röntgenhelgi efst á blaði. Þá í þeirri mynd að ein af stóru myndgreiningareiningunum (þetta orð nota ég yfir bæði sjálfstæðar stöðvar og deildir í stærri stofnunum) væri í forsvari á hverju ári. Gæti þar til dæmis verið um að ræða Hjartavernd, LSH Hringbraut, LSH Fossvogi, Domus, Krabbameinsfélagið og FSA.
Arnartíðindi gætu tekið að sér aðstoð við skipulagningu og undirbúning. Varðandi framkvæmdina mætti til dæmis hugsa sér að á þeim föstudegi sem næstur væri 8. nóvember hefði myndgreiningarstöð ársins opið hús, sem á deildum sjúkrahúsa yrði að sjálfsögðu útfært á annan hátt en var hjá Hjartavernd núna, þar sem þær þurfa að sinna sjúklingum allan sólarhringinn. Kynning og jafnvel fyrirlestrar gæti verið í tiltækri kennslustofu eða einhverju þessháttar og síðan skoðunarferð um myndgreiningardeildina.
Á laugardegi væri hægt að skipuleggja góða fyrirlestra sem væru á áhugasviði sem flestra í myndgreiningunni, ramma þá inn í „ráðstefnuform“ með tilheyrandi spjall- og matarhléum, og hóa svo fólki saman í kvöldverð og/eða aðra skemmtun um kvöldið.
Á þeim stöðum sem ekki eru í forsvari fyrir Röntgendeginum það árið mætti í staðinn leggja vinnu í kynningar fyrir almenning og annað sem vakið gæti athygli á okkar fagi. Myndgreining er furðulega lítið áberandi ef tekið er tillit til þess hve margir þjóðfélagsþegnar þurfa á okkar þjónustu að halda árlega. Það er líklega ein af stærstu ástæðum þess hve nýliðun er lítil, bæði hjá röntgensérfræðingum og geislafræðingum. Hver velur sér, nú til dags, fag sem er hreinlega ósýnilegt?
Vísir að svona kynningum er þegar farinn að láta á sér kræla. Síðastliðinn föstudag, 8. nóv., gerði fólk sér dagamun á mörgum myndgreiningarstöðvum og á þrem stöðum sem undirrituð heimsótti var starfsemin sérstaklega kynnt fyrir þeim sem sóttu þjónustu þangað þann daginn.
#img 1 #Starfsfólk röntgendeildar LSH við Hringbraut bauð
#img 2 #upp á kaffi og meðlæti í biðstofunni, ásamt því að setja upp veggspjöld með upplýsingum. Á kaffistofu starfsfólks var svo heilt veisluborð.
#img 3 #
#img 4 #Á röntgendeild Krabbameinsfélagsins var mjög skemmtileg kynning sett upp fyrir þær konur sem þangað komu og starfsfólkið gæddi sér á ýmsu bragðgóðu.
#img 6 #
#img 5 #
#img 7 #
#img 8 #Sjúkrahúsið á Akranesi fagnar 50 ára afmæli á árinu og af því tilefni er ýmislegt skemmtilegt þar til sýnis. Starfsfólk röntgendeildarinnar á sinn þátt í því og á Röntgendaginn bættu þau við veggspjöldum sem gerðu deildina meira áberandi.
Starfsfólk röntgendeildar LSH í Fossvogi, Röntgen Domus og myndgreiningardeildar FSA lét nægja að hafa gott með kaffinu og skemmta sjálfu sér… sem út af fyrir sig er alveg bráðnauðsynlegt!
Geislafræðibraut THÍ hefur lagt áherslu á kynningu undanfarið og vonandi að
#img 9 #það skili sér í fleiri nýjum geislafræðingum á næstu árum. Sennilega er það tilviljun en geislafræðinemar gátu skemmt sér á Bjórkvöldi 8. nóv.!
Þetta er því allt á réttri leið og alveg upplagt að hamra járnið á meðan það er heitt svo hugmyndir verði að veruleika.
Edda Aradóttir. 11.11.02.