Það er orðið langt síðan ritstjóri Arnartíðinda leyfði sér síðast að nota fókusrammann fyrir efni sem aðeins er ætlað til skemmtunar. Misbeiting valds er víst í mannlegu eðli og því ætti enginn að verða hissa þó ég blandi hér saman tveim af mínum eigin áhugamálum, læknisfræðilegri myndgreiningu og fornleifafræði.
W.K Röntgen og faraóarnir.
Margir kannast við sögu Tutankamuns faraós sem í raun missti spón úr askinum sínum (eða öllu heldur dreitil úr gullbikarnum) þegar CT-rannsókn afsannaði vinsæla og spennandi kenningu um að hann hefði verið myrtur.
Feita konan úr ómerktu gröfinni í Dal konunganna, sem ómerkilegur drengstauli hafði svipt allri reisn, endurheimti hinsvegar virðingarstöðu sína úr jarðlífinu þegar CT-rannsókn sannaði að um var að ræða hina miklu Hatshepsut, eina kvenkyns faraóinn sem stjórnaði Egyptalandi farsællega í áraraðir.
Múmíur eru erfiðir sjúklingar.
Það er alls ekki einfalt að rannsaka múmíur með CT. Jú, þær liggja kyrrar, þurfa ekki að halda niðri í sér andanum og EKG tenging er óþörf. Ekki þarf heldur að hafa áhyggjur af geislaskammtinum, a.m.k. hefur ekki komið í ljós að geislunin hafi á nokkurn hátt skemmt þær fjölmörgu múmíur sem rennt hefur verið í gegnum CT-tæki víðsvegar um heim. Vandinn liggur í litlum mun mismunandi vefja, sem allir eru skrælþurrir, og einnig getur verið erfitt að greina á milli líkamsvefja og ýmissa hluta eða efna sem notuð voru við smurninguna.
Tökugildi skipta höfuðmáli (allir þurfa múmíuprógram í CT-ið sitt!) og myndvinnslan eftirá er gríðarleg nákvæmnisvinna.
Nýjustu framfarir þjóna elstu „sjúklingunum“.
Við tölum oft um örar framfarir í myndgreiningunni, og ekki að ástæðulausu, en erum þá með hagsmuni lifandi sjúklinga í huga og gleðjumst yfir nýjum aðferðum við að bæta og lengja jarðvist þeirra. Framfarirnar snerta þó einnig „sjúklinga“ sem kvöddu jarðlífið fyrir þúsundum ára.
Í veftímaritinu Diagnostic Imaging birtist einmitt nýlega grein um samanburð á rannsóknum sama einstaklings, hofgyðjunnar Meresamun, árið 1991 og 2008. Einnig voru bornar saman rannsóknir með 64 sneiða CT og 256 sneiða.
Myndir úr nýjustu rannsóknunum eru hluti glæsilegrar sýningar hjá austurlandastofnun Chicago háskóla (University of Chicago Oriental Institute). Sýningin opnaði í febrúar síðastliðnum og stendur til 6. desember nk. Myndgreiningarfólk sem fer á RSNA 2009 gæti notað tækifærið og gefið sér tíma frá önnum ráðstefnunnar til að líta á undur fornaldar með augum nýjustu tækni í faginu.
The Oriental Institute er á 1155 East 58th Street Chicago.
18.05.09 Edda Aradóttir edda@raforninn.is