Fræðsluskylda myndgreiningarfólks

Undirrituð leitaði upplýsinga um menntun þriggja heilbrigðisstétta varðandi geislun og geislavarnir, þ.e. sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og lækna. Svörin voru mjög athyglisverð.

Hjúkrunarfræði- og sjúkraliðanemar fá enga kennslu
Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofustjóra námsbrautar í hjúkrunarfræði við HÍ hafði
#img 1 #hún borið spurningu mína upp við kennara brautarinnar og engan þeirra sem hún talaði við rak minni til þess að hjúkrunarfræðinemar fengju nokkra uppfræðslu um þetta efni.
Kennslustjóri sjúkraliðabrautar við Heilbrigðisskólann, Fjölbraut í Ármúla, kannaðist heldur ekki við að sjúkraliðanemar fengju neina kynningu á geislun og geislavörnum.

Læknanemar fá einn fyrirlestur
Hvað læknanema varðar virtist staðan ögn betri því hjá Ásbirni Jónssyni, dósent í myndgreiningu, fengust þær upplýsingar að starfsmenn
#img 2 #Geislavarna ríkisins sæju um kennslu þeirra varðandi geislun og geislavarnir. Þar er um að ræða einn fyrirlestur, fyrir fjórða árs læknanema, sem skiptist í 2 x 35 mínútur, að sögn Guðlaugs Einarssonar, hjá GR.
Það gefur auga leið að rúmur klukkutími dugir skammt til að útskýra eðli geislunar og umgengni við hana fyrir fólki sem ekki hefur neina þekkingu á efninu fyrir. Á síðastliðnu ári brugðu Guðlaugur og Sigurður Emil Pálsson á það ráð að setja góðar upplýsingar og fjölda slóða að áhugaverðum síðum sem tengjast efninu, inn á netið og veita læknanemum aðgang að þessu efni.
#img 3 #

Gott vef-námsefni fyrir læknanema
Ég fékk að líta á vef-námsefnið og þykist geta fullyrt að verðandi læknar hafi með því góða möguleika á að afla sér þekkingar um geislun og geislavarnir. Hins vegar get ég ekki ímyndað mér að efni eins fyrirlestrar vegi þungt á lokaprófi og þar sem læknanemar eru í krefjandi og tímafreku námi tel ég hættu á að efni um geislun og geislavarnir falli í skuggann af ýmsu öðru sem líklegra er að þeir þurfi að standa skil á á prófi.
Reikna má með að þeir sem þegar hafa augastað á myndgreiningu sem sérgrein skoði
#img 4 #þetta efni betur en hinir en það eru einmitt þeir sem ekki verða röntgenlæknar sem ég hafði í huga í þessari óformlegu könnun minni. 

Grunnþekkingin er lítil
Það sem ég er að velta fyrir mér er: Hvað veit samstarfsfólk okkar í öðrum greinum heilbrigðisþjónustunnar um geislun og geislavarnir? Samkvæmt ofangreindu – heldur lítið.

Við þurfum að fræða fólkið
Þess vegna langar mig að leggja áherslu á ábyrgð okkar, myndgreiningarfólks, á því að uppfræða aðra heilbrigðisstarfsmenn um grunnþætti fagsins okkar og örugga notkun jónandi geislunar. Við þurfum að vera óþreytandi að grípa nema og unglækna, messa
#img 5 #svolítið yfir þeim, draga úr ótta þeirra við geislun, reyna að vekja áhuga þeirra á efninu og benda þeim á leiðir til að læra meira. Fullnuma starfsfólk má heldur ekki vanrækja, gott er að nota sem flest tækifæri til að minna á vinnureglur varðandi geislavarnir en beita um leið öllum tiltækum ráðum til að kveða niður geislahræðslu.

Ef við sinnum þessu ekki þá gerir það enginn!

30.04.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *