Fólkið á bak við tækin

Spaugstofan sýndi iðulega fólkið á bak við tjöldin, fólkið sem sinnir verkum sem enginn sér. Myndgreiningarfólk er fólkið á bak við tækin og stundum er það hreint ekkert spaug.
Vinnustaðir okkar eru misjafnir og viðfangsefni mitt í dag snýr ef til vill mest að þeim sem sinna slysamóttöku. Við getum þó öll lent í erfiðum aðstæðum, jafnvel eru dæmi þess að sjúklingar hafi látist af völdum skuggaefnisviðbragða, svo eitthvað sé nefnt.

Allir geta orðið fyrir áfalli

#img 1 #Áfallahjálp hefur verið mikið í sviðsljósinu síðustu árin og ekkert nema gott um það að segja. Fólk sem verður fyrir mjög slæmri reynslu þarf oft aðstoð við að vinna úr áfallinu svo áhrif þess verði ekki langvarandi og jafnvel afdrifarík ævilangt.
Þetta á ekkert síður við heilbrigðisstarfsfólk en aðra. Að sjálfsögðu búum við að menntun okkar og reynslu sem gerir okkur færari en almenning um að fást við aðstæður tengdar slysum og veikindum. Þó koma upp tilvik sem eru svo slæm að jafnvel reyndustu heilbrigðisstarfsmönnum líður verulega illa og eiga þá stundum erfiðara en aðrir með að leita hjálpar og nýta sér hana. Við erum orðin vön að bíta bara á jaxlinn og láta tímann um að lækna sárin. 

Ótal verk undir miklu álagi
Tökum dæmi: Myndgreiningarfólk fær útkall um miðja nótt. Það þarf að gera CT-rannsókn af illa leiknum, alblóðugum sjúklingi, í óstöðugu ástandi. Þarf að koma honum í ákveðna stöðu á bekknum, tryggja leið til að gefa honum skuggaefni í æð, sjá um að sog og
#img 2 #súrefni sé tiltækt, gæta þess að allar slöngur og leiðslur liggi þannig að ekkert fari úr skorðum þegar bekkurinn færist, tryggja geislavarnir sjúklings og starfsfólks, velja rétt “prógram” og sníða það að viðkomandi sjúklingi, ljúka verkinu á sem allra stystum tíma og skila óvéfengjanlegri niðurstöðu STRAX og rannsókninni lýkur.
Gleymum því heldur ekki að allt þetta, og oft miklu fleira, þarf að vinna með u.þ.b. tíu manns frá ýmsum deildum sjúkrahússins “á öxlinni”. Þar að auki getur verið að enginn viti hver sjúklingurinn er og þá tekur hann oft á sig mynd einhvers nákomins. Fyrir utan það að á stöðum utan höfuðborgarinnar, t.d. á Akureyri eða Ísafirði, eru þó nokkrar líkur á að starfsfólkið þekki viðkomandi.
Einnig hef ég heyrt myndgreiningarfólk tala um að iðulega ásaki það sig eftirá fyrir að hafa ekki getað framkvæmt rannsóknina hraðar, eða fengið betri myndir, eða verið yfirvegaðri, eða fljótari að greina hvert smáatriði, eða…

Endir án málaloka

#img 3 #Svo lýkur rannsókninni, röntgensérfræðingurinn skilar svari og… allt í einu er CT-stofan auð og tóm, blóð, uppköst og allskyns rusl um allt. Myndgreiningarfólkið flýtir sér að ganga frá, oft hver í sínu lagi, og síðan heldur hver til síns heima. Án þess að vita hvernig sjúklingnum reiðir af, án þess að fá vitneskju um hvort öðrum sem að málinu komu fundust vinnubrögð þeirra fullnægjandi, án þess að fá í rauninni nokkur málalok. Skyndilega er starfsmaðurinn kominn heim þar sem fjölskyldan sefur vært. Hann er enn í uppnámi, hefur engan til að tala við og má þar að auki ekki, þagnarskyldunnar vegna, tjá sig að nokkru marki um þessa lífsreynslu. 

Tæki og fólk ekki aðgreint
Sjúkraflutningamenn og slysadeildarfólk, sérstaklega þeir sem fóru á slysstað, fá umhyggju og samúð. Þetta fólk fær yfirleitt að vita hvernig sjúklingnum reiðir af, það fær jafnvel hrós fyrir rétt viðbrögð og í sumum tilvikum er því boðið upp á aðstoð fagfólks við að vinna úr lífsreynslunni. Enginn leiðir hugann að hlutverki eða líðan
#img 4 #myndgreiningarfólksins. Sjúklingurinn fór í CT. Punktur.
Við erum ósýnileg á bak við tækin og okkur er ætlað að leita sjálf eftir hjálp fagfólks, t.d. áfallateymis sjúkrahúsa, ef við teljum þörf á. Það er ærið erfitt fyrir marga, sérstaklega þegar mest þörf er á hjálp. Þá eru viðbrögðin yfirleitt þau að “gleyma þessu bara”. Horfast ekki í augu við það, loka það inni. Loka vanlíðanina inni þar sem hún grefur um sig og gerir sár á sálina.

Hjálpum sjálfum okkur og vinnufélögunum

#img 5 #Við þurfum að gæta að sjálfum okkur og hvert að öðru. Sem betur fer eiga flestir einhvern á vinnustaðnum sem nær betur til þeirra en aðrir. Verum vakandi yfir líðan vinnufélaga okkar eftir erfið verkefni og hvetjum þá til að leita aðstoðar. Gætum þess líka að leyfa öðrum að hjálpa okkur, það er styrkleikamerki ekki veikleika. 

13.02.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *