Flugvallaskannar


Skömmu fyrir síðustu áramót var gerð tilraun til að sprengja bandaríska flugvél og í framhaldi af því hafa öryggisráðstafanir á flugvöllum verið hertar enn meir. Búast má við að á einhverjum þeirra verði tekin í notkun tæki sem nota geislun til að leita að hlutum sem flugfarþegar gætu hafa falið innan klæða.

Spurningar til myndgreiningarfólks.
Talsverður fréttaflutningur hefur verið af þessum tækjum, kostum þeirra en þó fyrst og fremst göllum. Mikið hefur verið fjallað um hvort myndin sem þau ná af líkama ferðamanna sé svo skýr að það ógni friðhelgi einkalífs en einnig hafa komið upp spurningar um áhrif geislunarinnar sem þau nota.
Myndgreiningarfólk má búast við að fá spurningar um þessa tækni og þarf að vera tilbúið að svara þeim.

Tvenns konar tæki.
Í notkun eru tvenns konar tæki: Lágorku röntgenskannar (soft x-ray scanners, backscatter x-ray scanners) og skannar sem nýta örbylgjur með sérlega stuttri bylgjulengd, minna en 1 mm (terahertz scanners). Fyrrnefnda tegundin notar jónandi geislun en sú síðarnefnda ekki. Í báðum tilvikum tekur hátækni myndvinnsla við eftir skönnunina og skapar þrívíddarmynd af yfirborði líkama ferðamanns og lögun þeirra hluta sem kunna að vera á líkamanum.

Mjög lítið geislaálag.
Lágorku röntgenskannarnir nota mjög orkulitla geislun, sem kemst ákaflega stutt inn í líkamann, og tæknin byggir á að nema endurkast hennar frá yfirborði líkamans. Þetta er önnur tækni en við venjulega röntgenmyndatöku þar sem myndirnar verða til vegna þeirrar geislunar sem kemst í gegnum líkamann.
Geislaálagið er því ákaflega lítið og í frétt frá Geislavörnum ríkisins segir að ferðamaður þyrfti að fara 50 þúsund sinnum í gegnum leit í lágorku röntgenskanna til að geislunin jafngilti árlegri náttúrulegri geislun hérlendis.

The American College of Radiology, í Bandaríkjunum, nefnir sem dæmi að til að geislaálag jafngildi því sem algengt er að fá við lungnamyndatöku þyrfti ferðamaður að fara 1000 sinnum í gegnum slíka leit.

Health Protection Agency í Bretlandi bendir á að vegna geimgeislunar hljótist jafn mikil geislun af 15 sekúndna flugi í 35 þúsund feta hæð og einni líkamsleit.

Til gamans má að lokum nefna að árið 2005 voru lágorku röntgenskannarnir að koma fram og þá birtist lítil grein hér á raforninn.is um þessa tækni.

26.01.10 Edda Aradóttir  ea@ro.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *