Fleiri framleiðsluaðferðir á Tc-99m til ísótóparannsókna

Ótryggt framboð á Technetium, sem er algengasti ísótópurinn í myndgreiningu, hefur valdið vandræðum um allan heim síðustu misseri. Yfir 90% af heimsframleiðslu á þessu nauðsynlega efni byggir á aðeins fimm, öldruðum kjarnakljúfum sem allir hafa þurft á löngum viðgerðastoppum að halda. Af þessum ástæðum er víða lögð mikil vinna og umtalsverðir fjármunir í að þróa aðrar aðferðir til framleiðslunnar.

Kanadamenn framarlega í þróunarvinnu
Bæði er verið að athuga aðferðir sem byggja á notkun línuhraðals (linear accelerator) og hringhraðals (cyclotron). Í nýlegri grein á Medical Physics Web er sagt frá því að Kanada hafi nýlega veitt 35 milljónum dollara í slík þróunarverkefni. Eitt þeirra snýst um framleiðslu Tc-99m í hringhraðli.

Eitt hringhraðlaverkefni
Aðferðin sem slík er ekki ný af nálinni, grundvallaratriðin hafa verið þekkt í rúm 40 ár, en þróunarvinnan snýst um að auka hagkvæmnina með því að finna aðferðir sem skila meiri framleiðslu á skemmri tíma og með minni kostnaði en nú er, auk þess sem vinnslan þarf að uppfylla strangar öryggisreglur. 

Nýta á búnað sem er fyrir hendi
Hugmyndin er að nota hringhraðla sem þegar eru til á sjúkrahúsum þar sem PET rannsóknir eru gerðar. Þá á að vera mögulegt að uppfæra þannig að þeir geti skotið prótónugeisla á þunnar flögur af auðguðu Molybden-100. Við það klofnar hluti af Mo-100 í Tc-99m en til að ná því úr flögunum þarf svo að leysa þær upp og vinna áfram á rannsóknastofu. Kanadísku vísindamennirnir sjá fyrir sér að næturnar yrðu nýttar til að láta hringhraðalinn skjóta á Molybdenið sem síðan færi á rannsóknastofur að morgni, þar sem unnið væri Technetium fyrir rannsóknir dagsins og sent þangað sem þörf er á.
Verið er að gera athuganir á mögulegum uppfærslum á hinum ýmsu gerðum hringhraðla sem í notkun eru og kostnaði við þær. 

Tvö línuhraðlaverkefni
Í viðbót við ofangreint verkefni eru Kandamenn með tvö verkefni í gangi sem snúast um notkun línuhraðals til að framleiða Mo-99, sem er móðurefni Tc-99m. Þar er það gríðarsterkur röntgengeisli sem sér um að rífa eina nifteind frá Mo-100.
Kosturinn við þá aðferð er að Mo-99 hefur helmingunartíma upp á 66 klukkustundir og þess vegna er hægt að senda það um mun lengri veg en Tc-99, sem hefur helmingunartímann 6 klukkustundir. 

Nauðsynlegt að margnota hráefnið
Hvort sem notaður er hringhraðall eða línuhraðall heldur verðið á Mo-100 kostnaðinum óæskilega háum. Efnið er afar sjaldgæft og kostar eins og er í kringum 1000 dollara grammið! Í framleiðsluferlinu umbreytist aðeins lítll hluti efnisins og einn af úrslitahlutum þróunarvinnunnar er að finna aðferðir til að endurnýta það. 

Niðurstöður í apríl 2012
Kanadísku vísindamennirnir hafa nú 15 mánuði til að sýna árangur af vinnu sinni og vonast er til að þá verði kominn grunnur að raunhæfum aðferðum til framleiðslunnar sem hægt verði að hrinda í framkvæmd, fyrst innan Kanada og síðan á heimsvísu. Þetta er sannarlega metnaðarfullt verkefni en ef vel tekst til gæti það bæði orðið til að útrýma skorti á Tc-99m og einnig þörfinni fyrir að nota Uranium í gríðarlega kostnaðarsömum og mögulega hættulegum kjarnakljúfum til að framleiða það. 

Technetium framleitt á Íslandi?
Velta má upp þeirri spurningu hvort hafa ætti þetta í huga við undirbúningsvinnu fyrir tilkomu PET rannsókna hérlendis. Ef til vill verður hægt að nota sama hringhraðal til að framleiða ísótópa fyrir þær rannsóknir og einnig Technetium til að fullnægja eftirspurn vegna hefðbundinna ísótóparannsókna. 

21.02.11 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *