Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað.


HSA/FSN

HSA – Heilbrigðisstofnun Austurlands Varð til við sameiningu allra heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa á Austurlandi, 1. janúar 1999, og varð stofnunin því 10 ára um nýliðin áramót. Stofnunin þjónar íbúum á öllu Austurlandi, þ.e. frá Djúpavogi í suðri að Bakkafirði í norðri, með fjölmörgum starfsstöðvum. Þar af eru 3 sjúkrahús, 2 hjúkrunarheimili, 8 heilsugæslustöðvar og 4 heilsugæslusel. Stöðugildi við stofnunina eru u.þ.b. 220, starfsmenn u.þ.b. 330, og stofnunin þjónar um 14.000 íbúum á öllu Austurlandi auk fjölda ferðamanna sem fara um landshlutann á sumrin. 

FSN – Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað Er bráðasjúkrahús fyrir allan landsfjórðunginn (nú umdæmissjúkrahús) og eru þar starfandi m.a., lyf- og handlæknisdeildir, fæðingadeild, skurðdeild, hjúkrunardeild, rannsóknadeild, ný- endurgerð og öflug endurhæfingardeild, auk heilsugæslu og öflugrar röntgendeildar.

Röntgen og CT
Þegar virkjana og stóriðjuframkvæmdir höfðu verið ákveðnar á Austurlandi í upphafi þessarar aldar var m.a. ráðist í að endurnýja tækjabúnað hjá heilbrigðisstofnunum á Austurlandi. Á árinu 2005 var röntgendeild FSN endurbyggð frá grunni og öll tæki þar endurnýjuð, þ.e. keypt nýtt röntgentæki á röntgendeildina, ásamt færanlegu tæki, frá General Electric (GE) auk þess sem keypt var nýtt tveggja sneiða tölvusneiðmyndatæki frá GE. Allur búnaður til úrlestrar var gerður stafrænn. og beintengdur við myndgreiningardeild FSA, þar sem röntgenlæknar lesa úr (eða senda áfram til Röntgen Domus í Reykjavík) til úrlausnar, sem gengur fljótt og vel.

Starfsfólk og aðbúnaður
Eins og að framan greinir er öll vinnuaðstaða á röntgendeild FSN til fyrirmyndar, eins og önnur starfsaðstaða á heilsugæslu og á öðrum deildum FSN. Við röntgendeild starfar nú einn geislafræðingur, Vala Frímannsdóttir, en hún mun verða í barnseignarfríi mestan hluta þessa árs (2009) en eftir mitt árið mun annar geislafræðingur einnig koma til starfa.
Röntgendeildinni er nú sinnt með afleysingum, af geislafræðingum sem koma frá Rvík. og Akureyri en það hefur gengið nokkuð vel þó það sé nú á stundum all mikið púsluspil.
Áhugasamir Geislafræðingar eru því boðnir velkomnir til afleysingastarfa til HSA/FSN, til langs eða skamms tíma í senn, fram eftir árinu 2009, eftir nánara samkomulagi.

Með bestu kveðjum frá FSN,
Lilja Aðalsteinsdóttir, lilja@hsa.is  
Hjúkrunarframkvæmdasjóri HSA
Sjá einnig: www.hsa.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *