Fjölmiðill myndgreiningarfólks.

Arnartíðindi í sex ár. 
Árið 2008 er sjötta árið sem ég ritstýri Arnartíðindum. Ótrúlegt en satt! Starfið er frábært og ég uppgötva eitthvað nýtt á hverjum degi. Í dag komst ég að því að heimsóknir á síðuna okkar eru orðnar 300 á dag, að meðaltali. Segi og skrifa þrjú hundruð. 

Mikil umferð.
Jafnvel þótt við tökum með í reikninginn að leitarvélar taka reglulegar gönguferðir yfir www.raforninn.is eins og aðrar vefsíður þá fer ekki milli mála að „alvöru“ umferð er ótrúlega mikil miðað við hversu lítill myndgreiningarheimurinn á Íslandi er. Ekki má þó gleyma því að þó enska „útgáfan“ okkar sé ekki umfangsmikil þá á fólk í öðrum löndum sinn þátt í umferðinni. 

Mikið vill meira.
Ég er innilega ánægð með þessa sönnun á því að myndgreiningarfólki líkar það sem við bjóðum upp á. Það er nefnilega aðeins eitt sem vantar hjá Arnartíðindum og það eru meiri viðbrögð frá lesendum, það sem á enskunni heitir „feedback“. Það mundi hjálpa mér mikið í starfi að fá oftar að vita hvað fólki líkar og hvað ekki og hvað það langar að sjá og vita.  

Daglegt munstur.
Auk fjöldans sem slíks sé ég ákveðið munstur á daglegri umferð og það er mjög reglulegt yfir vetrarmánuðina. Fólk kíkir inn á morgnana, einhversstaðar milli átta og níu, þegar það er búið að skipuleggja daginn. Næsti toppur kemur um það bil sem vinnudegi lýkur, þá er mesti erillinn búinn og hægt að kasta mæðinni áður en haldið er heim. Síðasti toppurinn er svo um tíuleytið á kvöldin og þar sé ég fyrir mér fólkið sem notar tölvuna til vinnu eða afþreyingar á kvöldin og lítur í Arnartíðindi í rólegheitum. 
 


#img 1 #
Viljum gera enn betur.
Heildarmyndin er þessi: Arnartíðindi eru hluti af daglegu lífi myndgreiningarfólks, rétt eins og við höfum alltaf stefnt að og við komum til með að leggja metnað okkar í að halda þeim sessi. 
Ég vitna í orð Smára Kristinssonar í fyrstu fókusgrein Arnartíðinda haustið 2002: „Frjó og uppbyggileg umræða er undirstaða allra framfara því orð eru til alls fyrst.“
Mig langar að þakka lesendum Arnartíðinda fyrir áhugann og bið alla að hafa samband til að láta vita hvað þeim líkar vel og hvað má betur fara.

08.04.08 Edda Aradóttir  edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *