Fjargreining er orðin stór þáttur í myndgreiningu hérlendis og vex sífellt. Smærri sjúkrastofnanir á landsbyggðinni eiga nú margar stafrænan röntgenbúnað og með honum opnast leið til að senda myndir nær samstundis til röntgenlækna á stærri stofnunum sem sjá um að lesa úr myndunum. Þetta er mikið framfaraskref og sama tækni er notuð um allan heim til að senda myndir landa og heimsálfa á milli. Jafnvel eru myndir teknar í mönnuðum geimstöðvum og sendar til röntgenlækna með báða fætur á jörðinni!
Auðveldara að fá tæki en starfsfólk
Fyrir um hálfu ári var tekið í notkun tölvusneiðmyndatæki á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað og líklegt er að fleiri sjúkrastofnanir úti um land hugsi sér að festa kaup á CT-tækjum. Stjórnendur FSN hafa hinsvegar rekið sig á að ekki er nóg að eiga tækin það
#img 1 #þarf starfsfólk með menntun og reynslu til að framkvæma rannsóknirnar, og þetta starfsfólk liggur ekkert á lausu. Framboð á geislafræðingum er minna en nemur eftirspurn og eins og hjá mörgum öðrum stéttum er framboðið mest á höfuðborgarsvæðinu. Aðrir staðir, sem ekki njóta þeirrar heppni að einhver framsýnn heimamaður hafi farið til höfuðborgarinnar, menntað sig í geislafræði og sé tilbúinn að flytja “heim” aftur, eiga erfitt með að manna stöðu geislafræðings.
Möguleiki á fjar-myndgerð
Eðlilegt er að fólk fari þá að leita nýrra möguleika til að nýta tæknina. Fyrst það er hægt að
#img 2 #fjar-greina er þá ekki hægt að fjar-mynda? Sem dæmi mætti ímynda sér að yfirtaka stjórnborð CT-tækisins á Neskaupstað þannig að geislafræðingur á Akureyri stjórnaði tækinu þaðan. Aðstoðarmaður á staðnum sæi um að taka á móti sjúklingnum, koma honum fyrir á bekknum og sinna honum eftir þörfum. Myndavélar mundu gera geislafræðingnum kleift að sjá skjá tækisins á FSN, sjúklinginn, skuggaefnissprautuna, “gantryið” og dyrnar að CT-stofunni. Einnig yrði beint talsamband við sjúklinginn og ef gefa þyrfti skuggaefni væri sá læknir sem biður um rannsóknina skyldugur til að vera hjá sjúklingnum og hafa umsjón með inndælingunni. Jú, sennilega væri þetta mögulegt.
Framkvæmanlegt í raunveruleikanum?
Síðan kemur þetta margfræga EN: Eru geislafræðingar tilbúnir að taka ábyrgð á
#img 5 #rannsókn án þess að vera á staðnum, og þurfa að treysta á aðra við marga mikilvæga þætti? Er hægt að bjóða sjúklingum upp á að leggja öryggi sitt í hendur ókunnugrar manneskju í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð? Samþykkja Geislavarnir ríkisins svona vinnu? Og fleira og fleira…
GR útilokar ekkert
Það mundi kosta mikla vinnu að finna svör við öllum þeim spurningum sem upp koma og aldrei yrðu allir sammála um hvort fjar-myndgerð ætti að vera inni í myndinni. Hvað
#img 3 #geislavarnaþáttinn varðar þá eru CT-tæki búnaður sem getur valdið miklu geislaálagi á sjúkling og að sögn Guðlaugs Einarssonar, hjá Geislavörnum ríkisins, eru jafnvel til dæmi um vísa skaða af þeirra völdum (augnskaðar við ítrekaðar geislanir). “Grundvallaratriðið í geislavörnum sjúklinga er að þeir sem eru á staðnum þar sem geislunin er framkvæmd, bera ábyrgð á öllum geislavörnum. Rekstur geislatækis byggist á því að til staðar séu starsmenn með viðeigandi menntun og reynslu til þess að stjórna honum og bera ábyrgð á notkun hans. Fjarstýringar mundu flækja ábyrgðarþáttinn,” segir Guðlaugur. Hann tekur þó fram að Geislavarnir útiloki ekkert í þessu efni, ef framtíðin leiði í ljós aðferð til fjar-myndgerðar með nægjanlegu öryggi.
Spennandi hugmynd
Þróun í faginu okkar er ör, það vita allir, en enginn veit hver næsta stóra breyting verður. Á síðum Minnu frænku var sagt frá því 13. janúar sl. að farið væri að beita fjar-myndgerð í
#img 4 #Bandaríkjunum á þann hátt að geislafræðingar sérmenntaðir í flóknum MR-rannsóknum framkvæmdu þær fjarstýrt með hjálp geislafræðinga á viðkomandi stað. Þar er reiknað með að aðstoðarmaðurinn sé menntaður geislafræðingur með nokkra reynslu af MR-vinnu og að á staðnum sé röntgenlæknir sem ber höfuðábyrgð á rannsókninni. Já, það er margt hægt og vissulega er áhugavert að nota til hins ýtrasta tæknina sem í boði er, til að þjóna sjúklingunum sem best. Ýmiskonar samvinna í gegnum snúrur, ljósleiðara og loftið tómt hljómar alltaf spennandi. Hvað finnst ykkur?
16.01.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is