Ferðatækni

#img 3 #Tækni sem auðveldar ferðalög hefur þróast ört síðustu 5 til 10 árin. Hæst ber þar vefsíður ferðaskrifstofa á netinu, þar sem hægt er að skipuleggja ferðir, panta allskonar þjónustu og gera verðsamanburð.  Þá er líka hægt að setja in vöktun á ákveðnum ferðum, þannig að maður fái  tölvupóst þegar verðið verður manni þóknanlegt. Meðal þekktustu fyrirtækja af þessu tagi eru: travelocity.com, expedia.com, cheaptickets.com og lastminute.com. Mér hefur oftast reynst best að nota Travelocity, jafnvel þegar hluti miðanna er frá Flugleiðum.  Ég nota rafræna miða og sjálfsafgreiðslu á flugvöllum ef þess er nokkur kostur því Það styttir oft biðtíma..

#img 4 #
Veðrið er mikilvægt á ferðalögum. Veðurþjónusta er nokkuð útbreidd á netinu og þar má nefna wunderground.com. Þeir gefa upp veður, veðurspá tímasvæði, veðursögu og síðan er að mestu á íslensku. Tilvalið er að prenta út 10 daga veðurspá fyrir þá staði sem menn ætla að ferðat til.  Önnur góð veðursíða er weather.com þar sem auðvelt er að skoða ýmiskonar veðurtölfræði.

Peningamálin eru stundum flókin á ferðalögum. Til að bera saman verð og breyta milli gjaldmiðla er gott að nota xe.com sem er líka með íslenskar krónur, sem okkur er tamast að hugsa í.

Til að rata nota menn síðan GPS tæknina sem hefur þróast mjög hratt síðustu 10 árin. Bílaleigan Hertz býður bíla með GPS tæki frá Magellan, kallað “Never lost”. Þessi tæki vísa veginn með mynd á skjá og tali og virka vel hvort sem er í þéttri borgarumferð eða á hraðbrautum. Miklar upplýsingar um hótel og allskonar ferðaþjónustu eru í tækjunum. Þannig eru t.d. ráðleggingar frá AAA sem er FBI þeirra í Bandaríkjunum í tækinu. Þessi ráð og símaskráin, sem er innbyggði í tækið, ná til ráðgjafar um akstursleiðir, gististaði, veitingastaði, stórmarkaði, bensínstöðvar og afþreyingu af ýmsum toga (tækið gefur upp akstursleið og símanr). Hertz og Magellan hafa þróað þennan búnað í sameiningu. Ég hef notað Never Lost frá því hann kom á markað, sem eru sennilega 5 til 6 ár.


#img 1 #Síðastliðið sumar komu GPS tæki fyrir bíla sem ætluð eru almenningi, bæði frá Magellan (RoadMate serian) og Garmin (street pilot serian). Þessi tæki eru álíka öflug og Never lost kerfið og fara fram úr því á sumum sviðum. Galli á þessum kerfum er að erfitt er að fá búnað með kortum af bæði Bandaríkjunum og Evrópu þar sem flestir ferðast, þótt yfirleitt sé hægt að hlaða inn ákveðnum landsvæðum. Í austur Evrópu eru einungs stofnbrautir inni í kerfinu, þannig að takmarkað gagn er að tækjunum í borgum Austur Evrópu. Þau koma þó algerlega í veg fyrir að menn geti villst. Í sumum tækjunum er hægt að setja inn flóknar ferðaáætlanir fyrirfram en annars geta menn yfirleitt valið um stystu leið, fljótförnustu leið, mikla eða litla hraðbrautanotkun. Ýmis ódýrari tæki geta líka nýst vel, bæði ódýrari gps og handtölvur með gps, en þá þurfa menn að hlaða inn þeim landsvæðum sem menn ætla að ferðast um í tækin áður en haldið er af stað.

Mapquest.com er mjög öflug kortasíða, sem gefur upp akstursleiðir og fjarlægðir milli staða. Þetta er síða sem er mjög öflug við ferðaskipulagningu, bæði heima og svo á meðan á ferðalaginu stendur.

#img 2 #
Dagur og tíma vilja stundum ruglast á ferðalögum. Til að átta sig á degi og tíma er gott að nota timeanddate.com 

Að vera tengdur á ferðalagi getur verið mikilvægt. Æ algengara er að hótel bjóði góðar tengingar. HolidayInn Express hótelin bjóða t.d. öll upp á ókeypis háhraðatengingar

Kostirnir við alla þessa tækni eru að mun minni tími fer í skipulagningu. Engu máli skiptir þótt menn kúvendi sínum áætlunum hvenær sem er því GPS tækin gefa strax allar helstu upplýsingar um nýja akstursleið. Enginn tími fer í að villast. Ég fer t.d á nóttu sem degi inn á hvaða flugvöll sem er í Bandaríkjunum og keyri þaðan á áfangastað í bílaleigubíl án þess svo mikið sem að líta á kort af því svæði sem ég þarf að keyra um. Eftir að búið er að stimpla heimilsfangið á ákvörðunarstað inn í tækið, gefur það raddskipanir um hvernig komast skal þangað.

Ókostir eru til staðar. Menn eru illa staddir ef tækin bila. Þess vegna er gott að eiga tvö tæki eða leigja bíl með GPS og hafa sitt til vara. Annað hjóna er vant að “vera á kortunum” þegar ferðast er og missir því mikilvægt hlutverk ef skipt er yfir í GPS. Hjá flestum er það konan sem kann á kortin og vélarnar tala allar með kvenrödd sem fer mjög í taugarnar á þrautþjálfuðum leiðsögukonum.

Myndirnar eru úr páskaferð okkar Kolbrúnar til Miklagljúfurs og nágrennis.

Góða ferð

11.04.05 Smári Kristinsson  smari@raforninn.is     

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *