Ferðasaga geislafræðings í Íran

 
Ferðasaga geislafræðings FSA til Íran

FYRSTI HLUTI
Aðdragandinn:

#img 1 #Það var ósköp venjulegan dag í lok Janúar síðastliðinn þegar ég, Elvar Örn Birgisson, opnaði tölvupóstinn minn og sá auglýsingu frá Rauða Krossi Íslands þar sem auglýst var eftir geislafræðing til starfa á jarðskjálftasvæði í borginni Bam í Íran. Einhverra hluta vegna svaraði ég tölvupóstinum og 2 dögum síðar var það komið á hreint að ég var á leiðinni til Íran. 5 dögum eftir þennan afdrifaríka tölvupóst var ég lagður af stað, þó með viðkomu í Reykjavík til að byrja með. Ég hafði enga fyrri reynslu af störfum fyrir Rauða Krossinn og mjög óvenjulegt af þeirra hálfu að senda út einstaklinga sem ekki hafi gengið í gegnum ýmis námskeið á þeirra vegum. Geislafræðingar á Íslandi með reynslu af Rauða Kross störfum eða sem farið hafa á námskeið hjá þeim liggja ekki á lausu og var því ákveðið að ég færi eftir að hafa fundað með starfsmönnum Rauða Krossins.
Fara þarf einnig í gegnum ýmsar læknisskoðanir og fá hinar ýmsu sprautur sem nauðsynlegar eru áður en farið er af stað.

Á hvers vegum:
Raunin var reyndar sú að Finnska Rauða Krossinn vantaði starfsfólk fyrir ferðasjúkrahús sem þeir ásamt Norska Rauða Krossinum sáu um í Bam. Ég var því “lánaður” ásamt tveimur íslenskum hjúkrunarfræðingum til Finnska Rauða Krossins.
Fara þurfti yfir það hvert hlutverk okkar yrði í Bam og reynt var eftir fremsta megni að undirbúa okkur undir það sem við áttum í vændum.
Við héldum næst til Finnlands, með viðkomu í kaupmannahöfn, og vorum þar í 2 daga þar sem við vorum undirbúin enn frekar áður en lagt var af stað.

Lagt af stað til Íran:
Næst var ferðinni heitið til Tehran í Íran með viðkomu í Frankfurt í þýskalandi. Komið var til Tehran um miðja nótt og í undirbúningi þeim sem við fengum var mikið lagt upp úr því að vera andlega undirbúinn þegar komið væri til Tehran. Tehran myndi ég lýsa sem borg sem eingöngu er til í vísindaskáldsögu, já alveg hreint ótrúlega furðuleg borg og við komum þarna í myrkri en samt voru stórar ljósaseríur með rauðar, gular, bláar og grænar perur út um allt. Já þessar ljósaseríur voru hreinlega um allt og alveg er það mér hulið enn þann dag í dag, hvaða tilgangi þær þjónuðu. Ef ég ætti að lýsa borginni með einu orði þá þyrfti ég að snúa mér til enskunnar og nota orðið “creepy”.
Við gistum eina nótt í Tehran og var hótelið eins og borgin, furðulegt og algerlega eins og sögustaður í “óvæntum endalokum” fyrir þá sem muna eftir þeim þáttum sem sýndir voru á stöð eitt hér í denn.

Lagt af stað til Bam:
Eftir eina nótt í Tehran var farið í flug til Kerman sem er borg um 200km frá Bam, en hér var mitt sjötta flug á leið minni frá Akureyri til Bam. Í Kerman gistum við eina nótt einnig og á mjög svo venjulegu hóteli sem mér fannst afskaplega notalegt. Morgunin eftir var lagt af stað til Bam í einkennandi Toyota Landcruiser bifreið merktri Rauða Krosinum og Rauða Hálfmánanum og tók ferðin um 3klst.

Komið til Bam:
Við komum til Bam rétt uppúr hádegi og keyrðum við beint inní sjúkrahús-tjaldbúðirnar en
#img 2 #sáum þó tjöld hér og þar sem fjölskyldur bjuggu í og einnig mikið af húsarústum. Tjaldbúðirnar voru fremur stórar, líklega með um 70 tjöldum fyrir alla starfsemina. Búðirnar voru einnig vel afgirtar og hermenn með skotvopn vöktuðu þær. Hitinn var nálægt 30 gráðum og sól. Það sem eftir lifði dags fór í að koma sér fyrir og átta sig á aðstæðum. 

Myndasíða 1

ANNAR HLUTI

Vinnan hefst í Bam:
Ég vakna um kl 6.00 fyrsta morguninn minn í Bam, en nóttin var köld eða rétt yfir frostmark. Ég sá ekki eftir því að hafa verslað mér inn hlýjan svefnfatnað fyrir ferðina, já þið vitið svona hlýjan fallegan nærfatnað. Ég fer í morgunmat og á fund eins og allir morgnar byrjuðu. Á fundinum frétti ég að röntgenmyndirnar hefðu verið herfilegar um nóttina og var ég beðinn kanna það hið fyrsta. Þegar ég skoðaði myndirnar fannst mér þær vanframkallaðar og opnaði framköllunarvélina. Viti menn, framköllunarhólfið var fullt af sandi, hehe, og í því magni sem ég hafði ekki séð áður. Það var því ekkert annað að gera en að þrífa allt saman og setja nýja vökva í. Einhverra hluta vegna voru írönsku geislafræðingarnir ekkert inní í svonalöguðu þó fljótlega hafi komið í ljós að þeir tóku ásættanlegar röntgenmyndir. Greinilegt varð eftir nokkra daga að það þurfti að hreinsa framköllunarvélina tvisvar í viku vegna sandfoks sem er títt á þessum slóðum. Þó að þessi búnaður hafi verið mjög smár og einfaldur í sniðum er það akkúrat búnaðurinn sem hentar við svona aðstæður. Ekki má telja ráðlegt að hafa flókinn tæknibúnað þegar búnaðurinn er í svo erfiðu umhverfi m.a. vegna sandfoks, hita og raka.

Mitt hlutverk:
Strax á fyrsta degi varð ljóst að málin voru í betri horfum hvað varðar mannskap en búist var við. Alls voru komnir 7 Íranskir geislafræðingar sem skiptu vinnunni á milli sín, en
#img 3 #sólarhringnum var skipt í 3 vaktir. Um 40-100 rannsóknir voru gerðar á dag þann tíma sem ég var þarna. Írönsku geislafræðingarnir skildu enskuna ef hún var töluð hægt en áttu erfitt með að tala hana en á spítalanum voru þrír túlkar sem voru algerlega ómissandi. Talað er þarna tungumálið Pharsi og reyndar á flestum stöðum í Íran að mér skilst, en enskan er tungumálið sem starfsmenn spítalans tileinkuðu sér og eru það reyndar óskráðar reglur að svo eigi að vera. Ég fór í það að sjá til þess að þeir tækju alfarið yfir á þessum hluta spítalans og má segja að það hafi gengið framar vonum. Viku áður en ég fór heim höfðu þeir t.a.m. séð um allar röntgenrannsóknir og þeir fengu filmur og framköllunarvökva frá sjúkrahúsi í næsta bæ og tæknimenn Rauðakrossins voru settir inn í hreinsun framköllunarvélar. Einnig lagði ég mikla áherslu á að gerðar væru leiðbeiningar og það gerðu Íranirnir, á Pharsi, sem reyndist ómetanlegt sérstaklega sökum þess að þessir geislafræðingar komu einungis í 2-3 vikur í senn og svo urðu mannaskipti. Ég heimsótti spítala borgarinnar sem var rústir einar, en þó var þar 1 stk röntgentæki úti í skúr fyrir utan sem var nothæft svo og voru filmur og framköllunarvökvar í miklu magni sem við gátum notfært okkur á okkar spítala. Sökum þess hversu ferlið gekk vel fyrir sig var ferð mín stytt um 2 vikur sem verður að teljast góð niðurstaða þar sem takmarkið var að koma öllum einingum spítalans yfir á Írani. Stefnt var að því að Íranir tækju alfarið við spítalanum í lok mars.

Búnaðurinn:
Svo virðist vera að einhver staðlaður pakki af röntgenbúnaði hafi verið sendur frá Finnlandi ásamt öllum öðrum búnaði sem fylgir svona færanlegu sjúkrahúsi og miðaðist búnaðurinn við þær aðstæður sem vinna átti við. Röntgentækið var frá Siemens og var um að ræða móbíl sem var þó ekki notaður sem slíkur heldur sem fast alhliða röntgentæki. Frumlegur lungnastandur var einnig með og svo takmarkað magn af
#img 4 #kasettum, þar af 2 stk. með síu. Framköllunarvélin var hefðbundin lítil AGFA vél sem þarfnaðist dimmuherbergis. Þess ber að geta að dimmuherbergið var útbúið úr tveimur samsettum krossviðskössum, alls um 140 cm á hæð, og vafið nokkrum teppum, sem komu í stað hurðar. Ekki var því unnt að vera standandi í dimmuherberginu. Blývarnir voru til staðar svo og lítill blýveggur með litlu gleri. Eðli sýnu samkvæmt var herbergið ekki blývarið enda buðu aðstæður ekki upp á það. Síðan var lítill ljósaskápur inni í röntgentjaldinu. Búið var að útbúa beiðnir á ensku sem notast var við og gekk Írönum nokkuð vel að aðlagast því enda að mestu stuðst við latnesku líffærafræðiheitin. Allir sjúklingar voru skráðir niður í bók og númeraðir og filmurnar merktar sjúkling og dagsetningu, en þó allt handmerkt. Myndirnar voru sendar með sjúklingi til þess læknis sem óskaði eftir rannsókninni og þurfti viðkomandi að lesa sjálfur úr myndunum. Enginn röntgenlæknir var á staðnum.
Þegar jarðskjálftinn reið yfir eyðilögðust allar vatnslagnir, raflagnir og fráveitukerfi. En svissneski og sænski rauði krossinn sá um að koma á vatnskerfi fyrir spítalann og fráveitu og starfsmenn norska rauða krossins sáu um að útvega rafmagn. Notaðar voru fjölmargar öflugar rafstöðvar, sem eru í fullri notkun í dag, og með rafmagni frá þeim var meðal annars röntgenbúnaðinum haldið gangandi. 

Myndasíða 2

ÞRIÐJI HLUTI
Siðir og reglur Íran:
Við vorum búin undir þær reglur er varða klæðaburð og þá sérstaklega það sem snýr að kvenþjóðinni. Þessar tvær ungu dömur sem ég fór með, þær Hófí og Maríanna, breyttust í
#img 5 #tvo eldri borgara þegar þær höfðu uppfyllt þessi skilyrði. Kvenfólk sem er í Íran þarf að hylja hár sitt að mestu ásamt því að hylja hálsinn. Þær þurftu einnig að hylja handleggi sína og sérstaklega þurfti að passa að hylja olnbogana, ég reyndar hef enn ekki náð því hvað sé erótískt við olnboga kvenmanna, en það er nú margt sem ég skil ekki. Síðan þurfti að taka tillit til þess að eldri borgir eins og Bam, voru enn strangari, hvað klæðaburð varðar, að því leiti að kvenfólk þarf einnig að hylja allar línur og eru því í einskonar skokkum sem þurfa að ná niður fyrir hné.
Síðan þurfti að virða þá reglu að kona og maður mega ekki snertast og ég hafði ekki ímyndað mér hvað maður væri með mikla snertiþörf fyrr en ég kom til Íran. Þetta reyndist sérstaklega erfitt þegar maður var að kveðja kven-samstarfsfélagana þegar haldið var heim til Íslands, því kveðja án snertinga er mjög erfið.
Hugsa má af hverju maður bara gerði ekki eins og manni sýndist, jú en þannig er nú mál með vexti að í Íran, sem og mörgum öðrum þjóðum þarna í kring, er siðalögregla sem fylgist leynt með og voru þeir mikið á vappi í kringum evrópubúa svo taka þurfti tillit til þess.
Hvað varðar reglur fyrir karla var bannað að vera í stuttbuxum og einnig bannað að vera ber að ofan og síðan er einskonar óskráð regla að í borgum í Íran eigi karlmenn að vera í dökkum jakka, já ég skar mig svolítið úr í byrjun, alveg ljóshærður og í Adidas galla, hehe.

Ferðin heim:
Þar sem ferðin hafði verið stytt um tvær vikur var stefnt á það að ég færi heim 22. eða 23. febrúar en fljótlega var því breytt til aðfaranóttar 20. febrúar. Ástæðan var sú að þann 20. febrúar var kosningadagur í Íran og því var ástandið í Tehran frekar óljóst. Við vorum 11 manna hópur sem hafði safnast saman á þessa dagsetningu, sem voru óvenju margir, en það var eingöngu vegna kosninganna. Nokkrum dögum fyrir brottför höfðu Finnar, sem voru að ég held 5 talsins, breytt fluginu til þess 19. því ástandið í Tehran var orðið verra en búist var við. Stefndi þá allt í að ég færi með 5 norðmönnum frá Tehran, en degi áður en ég fór frá Bam breyttu norðmennirnir sínu flugi líka, vegna hugsanlegra óeirða í Tehran, en ég gleymdist. Já, mér var nú ekki alveg sama, þar sem ég stóð einn eftir og til stóð að ég væri í Tehran í 3 nætur því flug frá Bam var bara tvisvar í viku. Samkvæmt yfirmönnum Rauða krossins var okkur ráðlagt að fara ekki útaf hótelinu í Tehran þann tíma sem við vorum þar og þess fannst mér erfitt að hugsa til, að vera einn inni á hóteli í nokkra daga, en ég fór strax í það að reyna að flýta mínu flugi og það bjargaðist hálftíma áður en ég yfirgaf Bam og ég fór því þann 18. febrúar og var samferða tveimur Finnum til Finnlands. Ég hafði tekið 6 flug til þess að komast frá Akureyri til Bam og tók 5 flug heim, þar sem ég keyrði frá Reykjavík til Akureyrar og satt að segja langaði ekki í tólfta flugið í þessari ferð.

Ferðinni lokað:
Þar sem þessi ferð var samstarfsverkefni með Finnska Rauða krossinum stóð til að ég stoppaði í 2 daga í Finnlandi, eins og ég gerði á leiðinni út, en það var ákveðið að allir myndu hittast eftir 2-3 mánuði þar sem gerð yrði samantekt á ferðinni. Ég fór því eingöngu til Rauða kross Íslands og gerði ferð mína upp og sýndi til að mynda ferðina sem ég hafði tekið upp á video fyrir starfsmenn Rauða krossins. Eins og venjan er við svona ferðir þá var einnig haft samband við fjölmiðla sem síðan höfðu samband við mig og tók það nokkurn tíma að loka ferðinni alveg. Reyndar finnst mér ég kannski persónulega eiga eftir að loka henni alveg, ef það verður þá einhvern tímann.

Lokaorð:
Ég get ekki sagt annað en ég sé reynslunni ríkari eftir þessa ferð og fer ég svakalega sáttur frá henni. Ferðin var í senn andlega erfið en ákaflega gefandi. Samstarfið við Rauða kross Íslands reyndist algerlega framúrskarandi og vil ég koma á framfæri þakklæti mínu til þeirra.

Takk fyrir mig
Elvar Örn Birgisson
07.03.04


        

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *