Ferðasaga geislafræðinema á norðurlandi

Verklegt nám á röntgendeildum

#img 1 #Hluti af námsefni í geislafræði á öðru ári er verklegt nám á röntgendeildum. Þetta verklega nám stendur yfir í átta vikur, fyrir og eftir páska. Þar sem hópurinn á öðru ári er í stærra lagi og til að létta álagi af röntgendeildum LSH og til að fá sem fjölbreyttasta fræðslu var ákeðið að reyna að senda nemendur út á land á deildir á stofnunum þar. Röntgendeildir á Akureyri, Húsavík, Akranesi, Keflavík, Selfossi og Vestmannaeyjum hafa tekið við nemendum, sem og St. Jósefsspítali, Röntgen Dómus og Orkuhúsið. Sjálfur valdi ég að fara til Akureyrar, Húsavíkur og á Selfoss. Nú þegar dvöl minni á Akureyri og Húsavík er lokið er ágætt að líta til baka og rifja upp hvað ég sá og lærði.

Akureyri
Mánudagurinn 4. apríl var fyrsti dagurinn minn af fimm á röntgendeild FSA (Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri) og hófst á rólegum nótum. Þar sem ég hafði aldrei stigið fæti inn á sjúkrahúsið þurfti ég að finna deildina sem tókst ágætlega með hjálp nokkurra snjallra leiðarvísa sem hanga á veggjum um sjúkrahúsið. Þegar komið var á deildina tók Laufey Baldursdóttir vel á móti mér og kynnti mig fyrir starfsfólkinu og sýndi mér starfsemina. Að því loknu var bara að stinga sér í djúpu laugina og starfa á stofum tvö og þrjú.

Þar sem ég hóf verklega námið mitt á LSH í Fossvogi og hafði bara kynnst notkun á CR kerfunum þar var ákveðið basl að komast inn í það að taka myndir á filmur. Það þarf næmt auga fyrir smáatriðum og gott innsæi inn í heim myndgerðar til að ná góðum myndum m.t.t. svertu. Ólíkt því sem stundum kemur fyrir í DR og CR kerfum þegar hægt er að eiga við myndina eftir á. Tækjakosturinn er orðinn gamall eins og á svo mörgum deildum. Það er eitthvað í skoðun skv. því sem ég heyrði og er ekki vanþörf á.
Húsakosturinn á Akureyri er til fyrirmyndar, enda hannaður eins og röntgendeild á að vera hönnuð. Aðgengi frá röntgenstofunum beint að framkallaranum og fixernum.

Starfsfólkið á FSA er það sem gladdi mig einna mest í heimsókninni. Allir voru hressir og starfsandinn með því besta sem ég þekki. Alltaf voru allir tilbúnir að aðstoða mig og voru mér innan handar, sérstaklega geislafræðingarnir. Læknarnir voru einnig alltaf tilbúnir að koma með innlegg á myndirnar og koma með punkta.
Dvölin á FSA er ein sú ánægjulegasta sem ég hef haft í námi mínu hingað til. Ég vona bara að námið verði eins skemmtilegt og skemmtilegra þegar fram líður því það á framtíð fyrir sér.

Húsavík

#img 2 #Helgarfrí og á næsta stað var haldið. Húsavík var einn af stöðunum sem ég valdi til að heimsækja. Hversvegna ég valdi Húsavík er mér hulin ráðgáta, þar sem ég á enga fjölskyldu né þekki ég nokkurn mann á Húsavík. En ætli það sé ekki einn af hlutunum sem heilla mann. Það að fara á ókunnar slóðir þar sem maður þarf að byrja á núlli.

Ég kom á sunnudagseftirmiðdegi og lét Guðrúnu (Gurrý) vita af mér sem tók mér tveim höndum. Hún sýndi mér aðstöðuna og hvar ég gisti. Ég fékk herbergi á Gamla spítala eða Gamla eins og hann er kallaður. Hann er eins og nafnið ber með sér gamli spítalinn á Húsavík og er staðsettur fyrir aftan þann nýja. Ég kom mér fyrir og hafði það rólegt um kvöldið.
Tilviljanir eru eitthvað sem getur verið gaman að upplifa. Ég var svo heppinn að um kvöldið komu tveir nýir gestir á Gamla. Það voru hvorki meira né minna en tveir geislafræðingar úr Reykjavík frá Krabbameinsfélaginu og voru þarna í krabbameinsleit sem gerð er á tveggja ára fresti og átti að standa þessa viku. Þær Bryndís og Guðrún frá Krabbó voru minn félagsskapur þessa vikuna, með draugunum á Gamla. Fara sögur af því að reimt sé í húsinu en sem betur fer bara af góðum sálum.

Á mánudagsmorguninn var svo hafist handa við að kynna sér starfsemina til fulls. Gurrý tók mig í snögga vettvangsferð um húsið og sýndi mér helstu staði. Það kom mér á óvart hve margar konur sem unnu þarna hétu Guðrún. Ég hætti að fylgjast með þegar Gurrý (Guðrún) var búin að minnast á fimm Guðrúnar sem allar höfðu önnur gælunöfn. Mér fannst nóg að muna eftir Gurrý og Guðrúnu frá Krabbó.
Gurrý vinnur með Soffíu á röntgendeildinni á Húsavík. Þær skipta með sér verkum og taka helgarvaktir sitt á hvað. Engar vaktir eru eftir dagvinnu á virkum dögum.
Á Akureyri hafði ég kynnst gamla laginu með filmur. En þar var sjálfvirkur filmuskiptir. Ekki er hann til staðar á Húsavík heldur er þar bara gamla lagið með framköllunarvél og dimmuherbergi. Að upplifa þetta áður en allt er komið í CR og DR er hið besta mál. Maður þarf að vita hvaðan maður kemur til að vita hvert maður fer og er lærdómur um þetta partur af því.

Röntgentækið á staðnum er samt sem áður barn síns tíma. Ef ég skildi Gurrý rétt þá er tækið frá 1988 og komið til ára sinna. Það að þurfa að slökkva á tækinu milli innstillinga svo það brenni ekki yfir getur ekki talist eðlilegt. Það stendur til að fá DR-tæki þangað. En eins og staðan er í dag eru engar dagsetningar komnar á það. Þangað til það berst er slökkt á tækinu milli innstillinga.
Þær Gurrý og Soffía sjá um allt sem snýr að filmum og upplýsingum um myndatökur. Enginn aðstoðarmaður er til að sækja filmur og hengja upp sem gerir það að verkum að allar rannsóknir taka lengri tíma en maður þekkir af LSH og FSA.
Soffía og Gurrý voru duglegar að sýna mér hitt og þetta og koma með punkta um innstillingar. Ekki veitti af fyrir fáfróðan geislafræðinema.

Á sama máta og á FSA tóku allir manni opnum örmum á Húsavík. Þrátt fyrir smæð er sjúkrahúsið uppfullt af hæfileikaríku fólki. Það kom berlega í ljós á þriðjudeginum, þegar haldnir voru hádegistónleikar sem Soffía og Gurrý tóku þátt í ásamt Unnsteini og Pálma sem eru læknar á sjúkrahúsinu.

#img 3 #
Horft til baka
Ég lít ekki á þessar tvær vikur á þessum stofnunum eingöngu sem kennsluferð í geislafræði heldur einnig líkt og heimsókn til náinna vina. Það að geta komið algjörlega ókunnugur á vinnustað og vera tekinn inn í hópinn með þeim hætti sem ég fékk að upplifa er eitthvað sem ég óska að allir fái að gera í sínu námi og/eða lífi.

17.04.05 Eyþór Ívarsson, geislafræðinemi 2. ári   eythori@thi.is    

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *