Ferðasaga – ECR 2005

European Congress of Radiology (ECR) 2005

Miðvikudaginn þann 3. mars lögðum við Þórkatla, geislafræðingur á LSH, upp í ferðalag
#img 1 #og var ferðinni heitið til Vínar á ECR ráðstefnu. Við lögðum tímanlega af stað vegna þess að við þurftum að millilenda í London og hafði hvorug okkar komið þangað, þannig að upplagt var að kíkja í verslanir við Oxford stræti. Á fimmtudag var svo haldið áfram og fékk ég smá forskot á röntgen fræðsluna á Heathrow þar sem ég fór í myndatöku eins og hitt krimmalega liðið í röðinni. Þeir kölluðu þetta “surface” skoðun í gegnum föt og allt.

Svalt að vera í Vín
#img 2 #

Á fimmtudagskvöld komum við til Vínarborgar, kalt var í veðri og var átta stigum kaldara í Vín en var í Reykjavík og snjór yfir öllu. Við gistum á hótelinu Mercury Nestroy og fengum þar fínt tveggja hæða herbergi.

#img 3 #Daginn eftir byrjuðu fyrirlestrar á fullu og valdi ég mér fyrirlestra sem tengdust stoðkerfi. Gaman var að heyra um innviði ökkla og hnjáa, mikið fjallað um brjósk og rannsóknir á brjóskskemmdum. Ég varð margs vísari um segulómun á liðum, sérstaklega var skemmtilegur fyrirlestur sem hét “soft tissue structures of the knee with US and MR imaging” þar sem farið var vandlega yfir allar helstu gerðir af liðþófa rifum og krossbandarifum og margar myndir sýndar, og á ég eftir að horfa með öðrum augum á MR sneiðarnar af hnénu eftir þá umfjöllun. Svo kom líka einn fyirlesarinn með þá kenningu að true lateral af C7-T1 með þröngri blendu væri betri en „swimmer“ tæknin, bæði betri mynd og minni geislun, ég á nú eftir að prufa það.
Þarna var einnig ágæt tækjasýning og eyddum við talsverðum tíma þar enda alltaf gaman að skoða tækninýjungar í röntgen því nóg er af þeim.


#img 4 #Lífið utan röntgen
Þegar dagskráin var búin í Austria uno city á kvöldin fórum við út að kíkja á lífið og voru margir góðir veitingastaðir, en okkur var ekki boðið í neitt fyrirtækishóf þannig að enginn reyndi að múta okkur. Við fórum í eina skoðunarferð sem heitir “Vienna by night”. Byrjað var á að rúnta um borgina í myrkrinu, svo var farið upp í útsýnisturn og ljósin skoðuð og endað á að fara á bar og þar var boðið upp á hvítvín. Vegna kuldans var borgin ekki mikið meira skoðuð en þetta. Þannig að við mælum ekki með þessari ferð fyrir næstu Vínarfara.

#img 5 #
Heim með fróðleik í farteskinu
Á þriðjudag var svo haldið heimleiðis, margs fróðari og ánægðar með ferðina en alltaf er gott að koma heim og nú aldrei þessu vant í hlýrra loftslag. Ráðstefnur af þessu tagi eru mikilvægur þáttur í símenntun og eru frábær tækifæri fyrir geislafræðinga að auka við þekkingu sína.

21.03.05 Lára Baldursdóttir, Röntgen Orkuhúsið.   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *