Fartölvur

Fólk í myndgreiningargeiranum er, þó furðulegt megi virðast, ekki eintómir tölvugúrúar. Margir gætu haft mikil not af fartölvu og langar að eignast eina slíka en vex í augum að ákveða hvers konar tæki hentar þeim best. Hægt er að fara í gegnum þá hluta sem oftast eru nefndir í auglýsingum um fartölvur, líkt og gert var í DV í síðustu viku en þar var Gunnar Smith hjá Margmiðlun fenginn til að sundurliða ákveðið tilboð. 

Skjár: Það helsta sem aðgreinir skjái er stærð (mæld í tommum), birta og upplausn. Flestir nefna 1024×768 punkta sem lágmarksupplausn. Hvað fartölvur varðar skiptir líka máli hversu vel sést á skjáinn þegar horft er ofan frá, neðan frá eða frá hlið. Skjárinn er nokkuð sem fólk á auðvelt með að skoða sjálft og getur látið augað ráða valinu. 

Skjákort: Þarna er hugsað í megabætum og fer eftir notkun hvers og eins hvað hann þarf að hugsa stórt. Til að keyra flotta leiki og horfa á DVD myndir þarf víst 64 MB kort en meðaljónar og -gunnur komast vel af með 32 MB.


#img 1 #Örgjörvi: Skjár og örgjörvi eru það dýrasta í hverri tölvu. Örgjörvinn ræður mestu um vinnsluhraðann og 1 gígahertz er ágætis lágmarksviðmiðun. Í DV greininni er bent á að stundum séu í fartölvum örgjörvar sem ekki eru sérstaklega hannaðir fyrir þær og hitni svo mikið að tölvurnar geti orðið leiðinlegar í vinnslu.

Vinnsluminni: Í fartölvu þarf vinnsluminni að vera nokkuð mikið því í flestum er harði diskurinn frekar hægvirkur. Það þýðir að fljótt hægir verulega á vinnslunni ef vinnsluminnið er ekki nóg. Það mun ekki vera skynsamlegt að hafa vinnsluminnið minna en 256 megabæti.

Geymslurými: Hér ræður, eins og annarsstaðar, hvers konar notkun er um að ræða og hvað fólk er tilbúið að borga. Fyrir flesta ætti 40 megabæta diskur að henta ágætlega og í nokkrum greinum sem undirrituð hefur skoðað er fólki ráðlagt að hugsa sig um áður en það fer upp í 60 eða 80 MB því verðmunurinn er nokkuð mikill. Snúningshraðinn, þ.e.a.s. hversu hratt tölvan les af diskinum, skiptir líka máli. Það er talið borga sig að hafa hann ekki of lítinn, minnst 5400 snúninga, þó það gangi hraðar á rafhleðsluna í tölvunni.

Geisladrif: Fátt sérstakt virðist þurfa að hugsa um þar, CD / DVD er málið en ef einnig stendur RW þýðir það Re-writeable, þ.e. að tölvan getur brennt gögn á geisladiska. Það getur komið sér vel fyrir alla og bætir svo litlu við verð tölvunnar að ekki borgar sig að sleppa því. 

Módem og netkort: Innbyggt, venjulegt módem þarf að vera til staðar og netkort (ethernetkort) til að stinga í samband og tengjast tölvukerfi.

Rafhlaða: Örgjörvar nýta orkuna misvel og fer nokkuð eftir því hversu lengi hægt er að vinna án þess að setja í samband. Lithtíum rafhlöður eru orðnar nánast allsráðandi og fjögurra til sex klukkustunda hleðsla að verða algeng stærð. Varla eru margir sem þurfa að vera lengur en það fjarri öllum rafmagnsinnstungum. 

Stýrikerfi: Windows XP stýrikerfin eru mjög ráðandi og það er alltaf þægilegt að nota það
#img 2 #sem algengast er. Samkvæmt nefndri grein í DV er betra að nota útgáfuna sem heitir „Professional“ vegna þess að þeir sem nota „Home“ útgáfuna hafa lent í vandræðum með að tengjast Netinu. 

Þráðlaust netkort: Til að tengjast Netinu þráðlaust þarf sendir að vera í nágrenninu, eins og víða er á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er áhugaverður möguleiki og bætir yfirleitt ekki nema á milli fimm og átta þúsund krónum við verð tölvunnar.

Nánari upplýsingar: Þeir sem vilja fara dýpra í málið geta litið á vefsetur PC-Magazine en þar má finna nákvæman leiðarvísi um kaup á fartölvum. 

22.09.03 Edda Aradóttir. 

          

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *