Fagmenn í forystu.


Fyrir nokkuð löngu var ákveðið á vettvangi Evrópusambandsins (EU) að öll aðildarríki þess skyldu koma upp kerfi til að endurskoða reglulega aðferðir þar sem geislun er notuð í læknisfræðilegum tilgangi. Þetta nefnist clinical audit (CA) eða, í beinni þýðingu: klínísk endurskoðun. Nýlega kom út skýrslan Radiation Protection nr 159: European Commission Guidelines on Clinical Audit þar sem fram kemur að slíku kerfi hefur aðeins verið komið á í fáum löndum, og með misjöfnum hætti. Ætla má að EU muni á næstunni leggja aukna áherslu á innleiðingu CA.

European Association of Nuclear Medicine (EANM) og Section of Nuclear Medicine of the European Union of Medical Specialists (UEMS) og European Board of Nuclear Medicine (EBNM) gengu fram fyrir skjöldu nýverið og buðu til námskeiðs um CA. Þar var lögð áhersla á að samtök fagfólks geti að öllum líkindum haft umtalsverð áhrif á hvernig CA kerfi verða útfærð í hverju landi fyrir sig. Það byggist þó á því að fagfólkið sé búið að kynna sér hvaða leiðir gætu verið færar og setji fram raunhæfar tillögur, helst áður en stjórnvöld hefja innleiðingu CA fyrir alvöru.

CA felur yfirlett í sér sambland innri og ytri úttekta. Á námskeiðinu var fjallað ítarlega um hvernig innri og ytri úttektir á starfsaðferðum geta stuðlað að stöðugum framförum, og mönnum var tíðrætt um Plan-Do-Check-Act hringinn sem kenndur er við Deming. Umfjöllun um efni áðurnefndrar skýrslu EU var fyrirferðarmikil eins og við var að búast, en í henni er meðal annars fjallað um skilgreiningu og tilgang CA, hvernig koma megi CA á, samspil CA við eftirlit löggjafans og við önnur kerfi sem notuð eru til að skoða og bæta rannsóknaraðferðir.

Nokkur mikilvæg atriði um CA
• Tilskipun EU kveður á um skyldu til að framkvæma CA, en ekki eru nein skilyrði um niðurstöðuna. Með öðrum orðum þá er lagaskyldan uppfyllt með því að framkvæma CA, janvel þó niðurstaðan leiði í ljós alvarlega vankanta.
• CA kemur ekki í stað úttekta eftirlitsstofnana.
• CA stendur til hliðar við vottun og faggildinu.
• CA nær yfir ferli myndgreiningar eða meðferðar í heild, allt frá réttlætingu á vali aðferðar til gagnsemi lokaniðurstöðu.
• Markmið CA er fyrst of fremst að finna hvað má betur fara til að stuðla að umbótum.
• Flestir telja nauðsynlegt að CA sé að hluta framkvæmt af óháðum aðilum (ytri endur¬skoðun/úttekt), einfaldlega vegna þess að glöggt er gests augað. Innri úttektir ætti að framkvæma oftar og má hugsa sér að deila atriðum sem þarf að skoða niður á allt árið
Augljóst er að þarna er ekki um einfalt verk að ræða. Sem dæmi má nefna að oft er ógerningur að sannreyna hvort niðurstaða myndgreiningar var í raun rétt.

Skýrslu EU um Clinical Audit má nálgast á vefnum. Hún er gagnleg lesning öllum sem áhuga hafa á gæðastarfi á sviði læknisfræðilegar geislunar. Einnig var kynntur á námskeiðinu hugbúnaður sem UEMS/EBNM hafa hannað til að halda utan um skjöl vegna ISO vottunar.

Annað sem var til umfjöllunar tilheyrir notkun geislavirkra efna, svo sem spurningalistar, frá British Nuclear Medicine Society og kver frá Alþjóða karnorkumálastofnuninni (IAEA) um:
Quality management Audits in Nuclear Medicine
Quality assurance for SPECT systems
Quality Control Atlas for Scintillation Camera Systems
Quality Assurance for PET and PET/CT Systems
Strategies for Clinical Implementation and Quality Management of PET Tracers
Operational Guidance on Hospital Radiopharmacies

Til viðbótar má minna á önnur rit EU, og vefi ICRP, IAEA og EANM.

Almennt telja menn að þrátt fyrir að ekki hafi gengið mjög vel að koma CA kerfum á í löndum Evrópu muni þau vera komin til að vera. Kunnugir telja líklegt að í næstu tilskipun EU um notkun læknisfræðilegrar geislunar verði mun strangari skilyrði um CA og því ekki eftir neinu að bíða að hefjast handa. Hvernig málin munu þróast á Íslandi skal ósagt látið, en vel hönnuð kerfi sem stuðla að umbótum í faginu okkar munu alltaf borga sig þegar til lengri tíma er litið. 

12.04.10 Jónína Guðjónsdóttir, geislafræðingur. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *