European Congress of Radiology 2008

Myndgreiningarfólk sem ætlar að halda færni í starfi þarf að fylgjast vel með í faginu og nýta hvert tækifæri til símenntunar. Daglega dags er það veraldarvefurinn sem gildir, bækur standa líka alltaf fyrir sínu og mörg góð námskeið eru í boði innanlands. Ferð á ráðstefnu erlendis gefur stóran skammt af aukinni kunnáttu og nú hugum við að ECR.

European Congress of Radiology er haldin í Vínarborg ár hvert og næst stendur hún dagana 7. – 11. mars 2008. Netskráning er í fullum gangi og nýjar upplýsingar bætast sífellt inn á vefsíðu ráðstefnunnar. Drög að dagskrá sýna að skipuleggjendur ráðstefnunnar halda ótrauðir áfram að auka framboð á góðu efni. 

Undanfarin ár hefur margt tengt ECR birst hér á raforninn.is og sem dæmi um það má líta á kynningu frá árinu 2006
Íslendingar sem sækja ráðstefnuna hafa látið birta fókusgreinar og annað efni um það sem þeim finnst athyglisverðast. Sem dæmi má nefna grein eftir Halldór Benediktsson, röntgenlækni, frá árinu 2006.
Nokkrir Íslendingar á ECR 2007 sendu Arnartíðindum skemmtilega punkta frá ráðstefnunni og að henni lokinni birtust svipmyndir frá Vínarborg.

Nokkur hópur Íslendinga er þegar búinn að skrá sig á ECR 2008 og listi yfir íslenska þátttakendur verður að vanda birtur á raforninn.is. Þeir sem hugsa sér að fara til Vínarborgar í mars, eða vita um einhverja á leið á ECR, eru beðnir að láta ritstjóra Arnartíðinda vita, annað hvort með tölvupósti eða í síma 860 3748.

Það er full ástæða til að hvetja myndgreiningarfólk til að sækja European Congress of Radiology, þar kemur saman allt færasta fólk Evrópu í faginu og Íslendingar hafa átt glæsilegt innlegg á ráðstefnuna undanfarin ár. Nánar verður fjallað um Íslendinga og ECR hér á raforninn.is innan tíðar.

17.12.07 Edda G. Aradóttir  edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *