Erum við á netinu?

Hvað gerist ef leitarvélar eru fóðraðar á orðum eins og “röntgen” og “myndgreining”? Eru myndgreiningarstaðir sýnilegir á netinu? Hvaða upplýsingar gefa vefsíðurnar?

Röntgen
Niðurstöður mjög óvísindalegrar tilraunar sem undirrituð framkvæmdi leiddu í ljós að orðið “röntgen” beindi netnotendum strax á tvær góðar heimasíður:
Vefsetur Íslenskrar myndgreiningar í Orkuhúsinu. Nýuppgerð og glæsileg heimasíða með mjög góðum og aðgengilegum upplýsingum.  
Röntgen Domus þar sem hægt er að finna prýðilegar upplýsingar um starfsemi fyrirtækisins, framkvæmd og undirbúning rannsókna, ásamt ýmsu fleiru.

Röntgendeild Reykjalundar birtist einnig fljótt en upplýsingar þar eru af verulega skornum skammti.

Sama máli gegnir um St. Fransiscusspítala í Stykkishólmi, hluti röntgendeildar á vefsetri sjúkrahússins er óttalegt núll.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík, Sjúkrahúsið á Akranesi og Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði eiga það sammerkt að vefsíður myndgreiningareininga eru mjög góðar, með vel fram settum upplýsingum og góðum leiðbeiningum fyrir sjúklinga.

Röntgendeild Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi á að eiga sinn hluta á vefsetri stofnunarinnar en hann er í vinnslu og búinn að vera það óásættanlega lengi. Fólk er leitt í blindgötu með því að hafa tengilinn virkan en engar upplýsingar.

Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupstað hefur orðið “röntgen” víða á vefsetri sínu en þar er um að ræða fréttir, flestar farnar að eldast, en ekki sérstaka síðu með efni um röntgendeildina. Ef til vill mætti nota eitthvað af peningunum sem FSN hefur áskotnast til að hressa upp á ásýnd röntgendeildarinnar á netinu?

Myndgreining
Þegar slegið er inn orðið “myndgreining” birtist vefsetur Íslenskrar myndgreiningar í Orkuhúsinu snarlega aftur. Þau hafa greinilega gengið tryggilega frá því að allir sem leita að upplýsingum um fyrirtækið og starfsemina finni þær auðveldlega. 

Einnig leiðir orðið netnotanda að hinum glæsilegu klínísku leiðbeiningum um myndgreiningu, á vefsetri Landspítala – Háskólasjúkrahúss sem eru nákvæmar og fræðilegar, ætlaðar tilvísandi læknum. Leit að almennum upplýsingum um myndgreiningarþjónustu leiðir í ljós þurran texta úr ársskýrslu og fólk hlýtur að vanta einfaldar og lifandi upplýsingar um starfsemina.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri lætur nægja stutta upptalningu staðreynda um myndgreiningardeildina á sínu vefsetri. Ekkert sem heillar.

Myndgreiningardeild Hjartaverndar er prýðilega sýnileg á vefnum, góðar grunnupplýsingar um tæki, starfsemi og þátt deildarinnar í Öldrunarrannsókninni. 

Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki gefur þokkalegar upplýsingar um röntgendeildina á vefsetri sínu en svosem ekkert meira en það.

Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Selfossi, er frekar fátt um upplýsingar sem tengjast röntgendeild. 

Það vekur nokkra undrun hversu lítið er gert úr röntgendeild Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins á vefnum. Einungis eru gefnar upplýsingar um hvenær brjóstamyndatökubíllinn verður staddur á ýmsum stöðum úti um land. 

Hvernig sem leitað er finnst ekkert á netinu sem hægt er að kalla upplýsingar um röntgendeild sjúkrahússins í Vestmannaeyjum. Ef slíkar upplýsingar eru til eru þær vel faldar.

Auk þessa má nefna að vefsetur Rafarnarins ehf., Geislavarna ríkisins og Doktor.is koma fljótt upp hvort sem leitað er að „röntgen“ eða „myndgreining“.

Á nokkrum stöðum hefur verið lögð talsverð vinna í vefsíðurnar og er það vel. Í flestum tilvikum ætti að vera hægt að setja inn upplýsingar sem ekki þarf að breyta ört, þannig að ekki þurfi að leggja mikla vinnu í viðhald síðu. Það má þó aldrei gleymast að netið er tæki þeirra sem vilja fá nýjustu upplýsingar strax, úrelt efni þarf að fjarlægja hið snarasta. Á netinu gefst okkur tækifæri til að kynna fagið og bæta ímynd þess í augum almennings – notum það.
24.10.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *