Er ekki kominn tími til að tengja?



Það er í tísku hjá stjórnmálaflokkum þessa dagana að ræða heilbrigðisrekstur, enda ekki vanþörf á. Eftir áratuga óstjórn sem byggir að mestu á ríkisrekstri og föstum fjárveitingum er kerfið komið að falli. Samtök atvinnulífsins (sa.is) láta málið til sín taka, þar sem hér er um mjög stórt samfélagslegt hagsmunamál að ræða.  Áhrif þess að reka einn stærsta atvinnuveg þjóðarinnar með aðferðum sem dæmdar voru óhæfar fyrir áratugum hafa slæm áhrif á okkar hagsæld í bráð og lengd.

Ég reyndi að kynna mér afstöðu stjórnmálaflokkanna til málsins:

Afstaða Vinstri grænna (vg.is) er illskiljanleg. Þeir segjast vilja verja hagsmuni litla mannsins, ekki síst í heilbrigðismálum. Það telja þeir best gert með því að nota dýrasta og óskilvirkasta rekstrarfyrirkomulag sem þekkist, “ríkisrekstur”. Það er undarlegur hornsteinn réttlætis. Varðandi aðganginn er aðalatriðið að hann sé jafnslæmur fyrir alla. Veruleg komugjöld sem sett hafa verið á undanfarin ár gagnrýna Vinstri grænir ekki af neinum krafti, þannig að þetta með réttlætið og aðganginn er bara í plati. Vinstri grænir vísa til Ögmundar Jónassonar varðandi “skítlegt eðli” einkarekstrar (ogmundur.is).

Framsóknarmenn (framsokn.is) hræðast mjög breytingar og telja í besta falli vafasamt að einkarekstur geti skilað börnum heilum til foreldara sinna, svo vitnað sé í sérkennilega ræðu formannsins um heilbrigðisrekstur. Þar á bæ eru menn stoltir af að geta veitt sem hæstum upphæðum í heilbrigðisrekstur, en nýtingin er ekki áhyggjuefni. Biðlistar eftir sjálfsögðum hjálparbúnaði eins og heyrnartækjum eða staðalaðgerðum kemst ekki á blað sem vandamál hjá Framsókn sem hefur stjórnað heilbrigðisráðuneytinu lengi.

Samfylkingin reynir að vekja á sér athygli með því að leggja til að menn skoði frekari einkarekstur með opnu hugarfari (samfylkingin.is). Hversu djúpt þetta ristir er óljóst. Má t.d. á næstu mánuðum búast við frumvörpum um hlutafélagavæðingu allra heilbrigðisstofnanna, sem fyrsta skrefi í að setja þær á opinn markað? Margrét Frímannsdóttir virðist þó opin fyrir breytingum ef marka má ummæli hennar upp á síðkastið.

Sjálfstæðisflokkurinn (xd.is) rúmar allar skoðanir í málinu. Hann hefur hingað til oft lýst sig reiðubúinn til frekari einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu en stigið varlega til jarðar í reynd, þótt landsfundarályktanir séu nokkuð skarpar. Þannig er í ályktun 35. flokksþings talað um nauðsyn þess að greiða eftir einingaverðum í heilbrigðisrekstri en ekki föstum fjárlögum. Ekki er ljóst hvert sjálfstæðisfylgi við einkarekstrarhugmyndir er en það kæmi í ljóst ef Samfylkingin flytti tillögur um málið í þinginu, eins og búast verður við ef athafnir fylgja orðum.

Stjórnmál eða hagsmunagæsla?
Lausnirnar hingað til hafa líka oftar en ekki verið að setja á fót nýja ríkissstofnun og kalla til steypubíl til að leysa heilbrigðismál.
Hvað af þessu telst til stjórnmála og hvað er hagsmunagæsla? Það er augljóst að hagsmunagæsla og einhverskonar ímyndarsköpun er það sem flokkarnir fókusera á, en miklu síður að setja okkur almennar reglur og lög.
Þess vegna ala þeir á óljósum ótta almennings við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki, því allir blanda þeir saman að einhverju leyti tryggingar- og rekstrarþætti heilbrigðismála sem eru alls óskyld mál.
Biðlistar, léleg þjónusta, há komugjöd og hindranir af ýmsu tagi er eitthvað sem menn deila minna  um í pólitíkinni enda þar komið að pólitískum kjarna málsins sem sagt er að full eining sé um.


Sumir eru jafnari en aðrir
Kostnaðarskipting í “besta heilbrigðiskerfi í heimi” er líka undarleg og um hana virðist all gott pólitískt samkomulag. Komugjöld sem koma einkum við þá tekjulægstu geta numið allt að 18 þús. kr. Hér er um beina neyslustýringu að ræða sem hlýtur að halda „húsgangsliði“ frá dyrum heilbrigðisþjónustu í einhverjum mæli, enda hlýtur það að vera markmiðið.
Bætur vegna heilsutjóns og dauða sem menn verða fyrir í “besta heilbrigðiskerfi í heimi” hafa lengst af verið litlar eða engar. Gildir þar einu hvort um hefur verið að ræða gróf mannréttindabrot eins og fjöldavananir á minnimáttar eða mislukkuð læknisverk. Þolendur hafa orðið að bera þau bótalaust ef frá eru taldar táknrænar bætur. Þannig hafa okkar “minnstu” bræður og systur þurft að bera mistök kerfisins. Þetta heitir hjá stjórnmálamönnum að við viljum ekki „amerískt“ kerfi, en í Bandaríkjunum fá menn töluverðar bætur fyrir heilsutjón af völdum heilbrigðisrekstrar og telst til mannréttinda.

Slagurinn við spítalarekstur í umboði Guðs
Það er athyglisvert að á árum áður sáu kaþólskar nunnur, í umboði Guðs, um stóran hluta spítalarekstrar í landinu. Þá var lengi vel greitt eftir kostnaðareiningu sem hét daggjald. Þessi rekstur Guðs og hans liðs var ekki vel séður af embættis- og stjórnmálamönnum sem ætíð greiddu rekstri Guðs minna en sínum eigin. Þannig var daggjald til stofnanna Guðs um 11 þús þegar ríkið greiddi sjálfu sér 16 þús. í daggjald, en árlegi einingafjöldinn t.d. á Landakoti var um 65 þús. Með þessu hafði ríkið af Guði þann auð sem nunnurnar höfðu skapað með því að gefa sjúkum lífsstarf sitt og stunda hagsýni í rekstri. Með þessum aðgerðum ríkisins uppfylltu menn þarfir margra. Ríkiskirkjan hafði illan bifur á umsvifum kaþólskra því fátt hefur verið með ríkiskirkju og kaþólskum síðan ríkskirkjan lét höggva Jón Arason og syni. Henni var ekki um aukin áhrif kaþólskra. Embættismenn og stjórnmálamenn vörðu sín völd til að deila og drottna, sem er þeim flestum mikil nauðsyn. Aldrei var spurt um hagsmuni sjúkra eða skattgreiðenda í þessu tafli.
Ef ekki hefði komið til þessara markvissu björgunaraðgerða ríkisins gegn rekstri Guðs kaþólskra væri einkaspítalinn St Jósefsspítali að Landakoti sennilega stærsti og best búni spítali landsins í dag og deilur um kosti og galla ríkis- og einkarekstrar í heilbrigðismálum háðar á öðrum og mun heiðarlegri og skýrari grundvelli.

Nú þarf að taka til hendinni
Hvernig væri nú að allir flokkar legðu af hefðbundi karp og tækju alvarlega þá skyldu sína að tryggja okkur góða heilbrigðisþjónusu á ásættanlegu verði. Til þess að svo megi verða þarf m.a að skapa gott  rekstarumhverfi fyrir einkarekna heilbrigðisstarfsemi og losa eins hratt og verða má um heltök ríkisins á þessum atvinnurekstri ?

17.11.03 Smári Kristinsson.


        

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *