Enn um geislafræðinám


Áfram verður fjallað um málefni námsbrautar í geislafræði og sagðar fréttir af fundi hjá Félagi geislafræðinga. Nafn dr. Brynjars Karlssonar sést oft í þessari umfjöllun og af því tilefni þótti tilvalið að fá nánari upplýsingar um hann.


 


Hver er maðurinn?



#img 1 #Brynjar er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og lauk B.Sc. prófi í eðlisfræði  frá Háskóla Íslands 1990, DEA prófi í hljóðeðlisfræði frá Parísaháskóla 1992 og doktorsprófi frá Háskólanum í Tours í Frakklandi árið 1996. Hann hlaut rannsóknarstöðustyrk frá Rannís 1996-1998. Hann hefur starfaði við kennslu og rannsóknir og þróun við Háskóla Íslands og á Landspítala Háskólasjúkrahúsi frá 1998. Helstu rannsóknir Brynjars hafa verið á sviði hagnýtingar úthljóðs í læknisfræði. Hann hefur setið í vísindaráði LSH frá 2001. Brynjar er dósent í læknisfræðilegri eðlisfræði (37%) í læknadeild HÍ  og mun sinna þeirri stöðu jafnframt starfi deildarforseta í THÍ.


Nákvæmari greinargerð um menntun og störf Brynjars er hægt að lesa hér á vefsetrinu.


 


FG og námsbraut í geislafræði


Fjölmennur félagsfundur var haldinn hjá Félagi geislafræðinga síðastliðinn miðvikudag. Til hans var boðað vegna óánægju sumra félagsmanna með stefnu stjórnar í málefnum námsbrautar í geislafræði. Töluverð gagnrýni kom fram á bréf sem stjórn FG sendi Brynjari Karlssyni 14.04.03.
Snörp skoðanaskipti urðu um hver afstaða FG til námsbrautarinnar við THÍ ætti að vera. Einnig var rætt hvort eðlilegt væri að geislafræðingar sæktu um auglýstar kennslustöður þar.
Að tillögu Guðlaugs Einarssonar gengu fundarmenn til atkvæða um svohljóðandi tilkynningu:



Fundur FG 07.05.03 beinir því til stjórnar FG að hafa samband við nefnd læknadeildar um geislafræðinám í HÍ og fara fram á svör sem fyrst um það hvort og þá hvenær slíkt nám verði hafið. Þangað til svar fæst verði afstaða FG til námsbrautarinnar hlutlaus. 

Þetta var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum en sex fundarmenn sátu hjá. Það virðist því ljóst að meirihluti félagsmanna telur námsbraut í geislafræði betur borgið í Háskóla Íslands. 

Hverju svarar THÍ?
Þann 28. mars síðastliðinn sendu fjórir geislafræðingar deildarforseta Heilbrigðisdeildar THÍ bréf sem lýsti megnri óánægju með vinnubrögð sem viðhöfð voru við breytingar í Heilbrigðisdeild. Þetta voru viðbrögð við bréfi sem Brynjar Karlsson sendi formanni FG. 
Brynjar tjáði ritstjóra Arnartíðinda að svars til geislafræðinganna fjögurra væri að vænta fljótlega og verður það birt hér á vefsetrinu. 

Fylgist með
Greinilegt er að myndgreiningarfólk lætur sig þetta mál miklu varða og þeir sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri eru hvattir til að hafa samband við ritstjóra Arnartíðinda.

12.05.03 Edda Aradóttir.


       

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *