Endalok ísótóparannsókna?


Undanfarin ár hafa orðið sífellt tíðari truflanir á framleiðslu geislavirka efnisins Molybden 99 sem er móðurefni Technetium 99m. Geislalindir sem notaðar eru við ísótóparannsóknir, t.d. Technekow DTE frá Covidien/Mallinckrodt, innihalda Molybden og Technetium sem úr þeim fæst er grundvöllur þess að hægt sé að gera slíkar rannsóknir.
Ástæða framleiðslutruflananna er sú að kjarnorkuverin sem framleiða geislavirk efni eru orðin gömul og oft þarf að stöðva þau vegna viðhalds eða viðgerða. Eins og myndgreiningarfólk gerir sér grein fyrir taka slík inngrip langan tíma, oftast líða nokkrir mánuðir frá því að framleiðslu er hætt og þar til hún hefst aftur.

Engin framleiðsla næstu mánuði.
Molybden framleiðsla hefur farið fram í fimm kjarnakljúfum í heiminum en aðeins einn þeirra er í gangi eins og er, The High Flux Reactor í Petten í Hollandi. Eftir fjórar vikur, um mánaðamótin febrúar-mars, verður hann stöðvaður til viðhalds og verður ekki kominn aftur í notkun fyrr en eftir hálft ár þaðan í frá, í byrjun september á þessu ári.
Eini kjarnakljúfurinn sem mögulega gæti komist í gang með vorinu er í Chalk River í Ontario í Kanada en hann var stöðvaður í maí 2009 vegna bilunar. Kjarnakljúfurinn er að nálgast sextugt, viðgerðir hafa gengið hægar en búist var við og fyrirhugaðri endurræsingu verið frestað í samræmi við það. Núna er stefnt á að hún verði í apríl næstkomandi en af fréttum frá AECL (Atomic Energy of Canada Limited) að dæma gæti það dregist enn lengur.
Að auki hefur ríkisstjórn Kanada tilkynnt að allri framleiðslu geislavirkra efna í landinu verði hætt og á það að verða komið til framkvæmda í ársbyrjun 2016.
Myndgreiningarfólk sem vinnur við ísótóparannsóknir um víða veröld má því búast við áframhaldandi truflunum á starfsemi, sem þýðir verri þjónustu við sjúklinga og mögulega seinkun á sjúkdómsgreiningu og meðferð. 

Eðlilegt að PET taki við.
Notkun hefðbundinna ísótóparannsókna hefur minnkað mikið undanfarin 15 ár eða svo og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Tölvusneiðmyndatækni (CT) og segulómun (MR) hafa í mörgum tilvikum tekið yfir en PET (Positron Emission Tomography) er hinn sanni arftaki, enn háþróaðri grein af sama meiði. Við PET rannsóknir eru notuð mjög skammlíf geislavirk efni sem þarf að framleiða á staðnum og sú tækni er ekki fyrir hendi hérlendis. Bæði reynsla erlendis og vísindarannsóknir hafa leitt í ljós að við greiningu og meðferð margra sjúkdóma, ekki síst krabbameina, er engin önnur rannsóknategund nálægt því jafn gagnleg og PET. Nýr Landspítali getur ekki talist fullbúinn fyrr en þar er komin upp starfhæf PET stofa með menntuðu starfsfólki.
Því miður hafa vonir okkar myndgreiningarfólks um að fá jáeindaskanna (PET-scanner) til landsins dofnað all verulega vegna efnahagshrunsins. Í óformlegum samræðum orðaði Birna Jónsdóttir, formaður læknafélags Íslands, það svo að núverandi niðurskurður í heilbrigðiskerfinu hefði lagt jökulís yfir allar slíkar fyrirætlanir.

Margþættur vandi ísótóparannsókna.
Við sitjum því eftir með rannsóknaaðferðir sem í ýmsum tilvikum henta alls ekki. Læknar standa frammi fyrir því að geta ekki gert það sem best er fyrir sjúklingana sína og næstbesti kosturinn er oft tvær eða fleiri rannsóknir í stað einnar, t.d. CT og ísótóparannsókn.
Ísótóparannsóknirnar standa höllum fæti vegna ótryggs framboðs á Technetium og síaukins kostnaðar. Þar sem framboðið er lítið og framleiðslukostnaðurinn eykst hækka geislalindir hröðum skrefum í verði. Society of Nuclear Medicine (SNM) bindur vonir við nýja framleiðsluaðferð sem verið er að þróa í Bandaríkjunum en að svo stöddu hafa fyrirtækin sem standa að því verkefni einungis hug á að framleiða efni fyrir Bandaríkjamarkað og byggja upp lager til að tryggja framboð á heimaslóðum.
Hvergi hérlendis hafa tæki til ísótóparannsókna verið endurnýjuð á síðustu árum og nú væri ákaflega óhagkvæmt að kaupa dýr tæki sem verða illa nýtt og þurfa mjög dýrar rekstrarvörur. Það verður líka sífellt vandasamara fyrir starfsfólk að halda sér í þjálfun, eftir því sem rannsóknafjöldinn minnkar, og til að fólk tapi ekki hæfninni er gripið til þess ráðs að láta ísótópastarfsemi ganga á sem fæstum einstaklingum.

Nauðsynlegt að leita lausna.
Ef ekki verða einhverjar ófyrirséðar breytingar sýnast mér vera raunverulegar líkur á að innan örfárra ára verði rekstrarumhverfi ísótóparannsókna orðið vonlaust og þær leggist af. Hvaða þjónustu á þá að bjóða t.d. krabbameinssjúklingum? Undanfarin ár hafa fáeinir sjúklingar á ári verið sendir til Danmerkur í PET rannsóknir. Kostnaður við slíkar ferðir er mikill, svo ekki sé minnst á óþægindin fyrir sjúklingana. Sá kostur að senda fjölda manns í rannsóknir erlendis ár hvert hljómar ekki vel í mínum eyrum.
Hér má til gamans nefna að undanfarið er búið að vera nokkurt fréttafár á vefnum vegna nokkurra mánaða tafar sem hefur orðið á að PET rannsóknir hefjist á sjúkrahúsi nokkru í Cork á Írlandi. Talið er mikið hneyksli að krabbameinssjúklingar þurfi að ferðast þaðan til höfuðborgarinnar Dublin til að komast í PET rannsókn. Á milli Cork og Dublin eru innan við 300 km, um 100 km. styttra en Akureyringar þurfa að fara til að sækja heilbrigðisþjónustu til Reykjavíkur, en á það ber að líta að írsku sjúklingarnir þurfa sjálfir að bera ferðakostnað. 

Miklir hagsmunir í húfi.
Þessi litla hugvekja er eingöngu byggð á netflakki og reynslu minni sem ísótópastarfsmaður á Sjúkrahúsinu á Akureyri til margra ára. Ég er þó sannfærð um að málið þarf að rannsaka með vísindalegri aðferðum og ákveða sem allra fyrst hvaða stefnu á að taka. Þarna er hætta á mjög alvarlegum bresti í heilbrigðisþjónustu landsins.

01.02.10 Edda Aradóttir ea@ro.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *