Ekki missa af RSNA 2006

Eitt besta tækifæri sem myndgreiningarfólki gefst til símenntunar ár hvert er ráðstefnan stóra í Chicago, RSNA. Þangað streymir fólk úr faginu, tugþúsundum saman frá öllum heimsins hornum, til að sækja fyrirlestra um allt það “heitasta” í rannsóknum og kynnast nýjungum í tækjabúnaði.

Allt það nýjasta kynnt
Það er einfaldlega þannig að hreinlega allir tækjaframleiðendur miða við að geta kynnt nýja framleiðslu á RSNA og ótal margir sem stunda vísindavinnu miða einnig við að geta kynnt niðurstöður sínar þar.
Lítið á fréttir Arnartíðinda af RSNA 2005

Allir finna margt áhugavert

Ráðstefnan er svo stór og tækjasýningin svo umfangsmikil að enginn kemst hjá því að finna fleira áhugavert en hann kemst yfir að hlusta á, kynnast og skoða. Þetta er eins og að setjast að drekkhlöðnu veisluborði og njóta þess að velja það girnilegasta sem í boði er, vitandi að þó réttirnir séu of margir til að bragða á þeim öllum verður líkaminn saddur og sæll þegar upp er staðið.

Veisla fyrir hugann
RSNA er rétti staðurinn til að seðja faglegt hungur og eftir vikuna í Chicago er dásamlegt að fara heim með nýja þekkingu, nýjar hugmyndir, nýjan skilning og ný tengsl við myndgreiningarfólk víða um heim. Setning sem höfð er eftir íslenskum ráðstefnugesti á RSNA fyrir fáum árum lýsir þessu vel: “Þetta er svo frábært! Ég verð að minnsta kosti hálft næsta ár að vinna úr öllum upplýsingunum sem ég er búin að safna”.

Fagmennskan í fyrirrúmi
Þetta árið stendur RSNA frá 26. nóvember til 1. desember og allar upplýsingar má nálgast á vefsíðu ráðstefnunnar. Þema ársins er “Strenghtening Professionalism”, sem hlýtur að höfða sterkt til myndgreiningarfólks sem þarf meira en aðrir heilbrigðisstarfsmenn að leggja áherslu á mikilvægi fagmenntunar sinnar, þ.e. þess að við höfum yfir að ráða þekkingu og færni sem aðrir hafa ekki.

Geislafræðingar!
Í framhaldi af því get ég ekki stillt mig um að hnippa ofurlítið í starfsfélaga mína í geislafræðingastétt. Við leggjum áherslu á að útrýma þeirri ranghugmynd að geislafræðingar geri ekkert annað en að “ýta á takkann” og viljum að litið sé á okkur sem metnaðarfulla fagmenn. Þess vegna verðum við að haga okkur sem slíkir og gæta þess vandlega að láta ekki álag og ýmiskonar streitu í vinnuumhverfi fella okkur niður í hlutverk þess sem gerir ekki annað en að mæta í vinnuna, ýta á viðeigandi takka og fara heim aftur.
Við eigum nokkra einstaklinga sem hika ekki við að axla ábyrgð, taka að sér krefjandi verkefni og vinna metnaðarfulla vísindavinnu. Okkur vantar fleiri!

Röntgenlæknar!
Fyrst ég er byrjuð að hnippa í fólk þá er best að röntgenlæknarnir fái sinn skammt. Of margir þeirra virðast líta á sjálfa sig sem einhverskonar staðreynda-upptalningar-forrit fyrir tilvísandi lækna. Að mínu mati þyrftu röntgenlæknar að vinna meira með tilvísandi læknum við að velja viðeigandi rannsóknategundir, sjúkdómsgreina út frá niðurstöðum og ákveða næstu skref. Röntgenlæknirinn þyrfti að vera sýnilegri sjúklingnum við sjúkdómsgreiningu, meðferð og eftirlit.

Símenntun er hluti af fagmennsku
Til að vera góðir fagmenn þurfum við öll að huga vel að símenntun. Það er kunnara en frá þurfi að segja hversu hröð þróun einkennir myndgreininguna og ferð á RSNA er eitt af því sem fleytir okkur áfram í nútíð og framtíð.

Íslendingar á RSNA 2006
Eins og undanfarin ár munu Arnartíðindi birta lista yfir íslendinga sem fara á RSNA. Listinn er í smíðum og fyrsta útgáfa hefur þegar verið birt. Þeir sem hugsa sér að fara til Chicago þetta árið eru beðnir að senda nöfn sín til ritstjóra ef þeir leyfa birtingu þeirra á listanum.

Allir til Chicago!
28.09.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *