Hvaða hugmyndir hafa börn um geislun? Geislabyssur, geislasverð, geislavirk skrímsli og ofurmenni. Kvikmyndaiðnaðurinn býður upp á nóg af því. Það er ekki nema von að yngstu skjólstæðingar myndgreiningarfólks séu oft skelkaðir.
Ég er geislafræðingur, þokkalega dugleg við að halda mér lifandi í faginu og svo er ég líka móðir. Samt var ég ekki búin að átta mig á hversu hrikaleg mynd af geislun er dregin
#img 3 #upp í afþreyingarefni fyrir börn og unglinga. Nokkuð sem er augljóst þegar búið er að benda manni á það. Sem dæmi má nefna græna mannskrímslið Hulk sem var ósköp venjulegur meðaljón þar til hann varð fyrir ógurlegum geislaskammti en eftir það hakkaði hann niður samborgara sína og heilu hverfin svo bæði Saddam Hussein og George Bush hljóta að horfa á hann öfundaraugum. Kóngulóarmaðurinn (Spiderman) reynir að vísu að bjarga
#img 4 #heiminum frá þokkapiltum eins og þeim stóra græna en hann öðlaðist hæfileika sína eftir að geislavirk köngulló beit hann. Um daginn var mér sögð saga af dreng sem náði í leggjalanga en svifaseina köngulló, stakk henni í örbylgjuofninn og gaf henni, að eigin mati, vænan geislaskammt. Síðan reyndi hann ítrekað að fá kvikindið til að bíta sig svo hann breyttist í ofurmenni. Lítil von til þess að það tækist, jafnvel þótt ræfils áttfætlan hefði verið á lífi!
„Ég vil ekki breytast“
#img 1 #
Fæst börn hafa þó áhuga á að taka stökkbreytingu, allra síst þegar þau eiga alveg eins von á að verða að skrímsli eða furðuveru. Á flakki mínu um netið rakst ég á nokkrar geislavirkar skepnur og þær eru ekki frýnilegar, flestar eitthvað í stíl við gömlu góðu Godzilla sem, eins og elstu menn muna, varð til eftir kjarnorkutilraunir Frakka. Það er auðvelt að ímynda sér hvað gæti farið af stað í litlum kolli sem heyrir talað um röntgengeisla eða geislavirk efni.
„Ekki skjóta mig“
Svo eru það allar geislabyssurnar og geislasverðin. Þó Leikfangasaga (Toy Story) sé ósköp krúttleg mynd og ætluð yngstu börnunum þá er meira að segja Bósi Ljósár vopnaður geislabyssu sem vondu karlarnir eiga að fá að
#img 2 #kenna á. Vandinn er að vísu að hún er ekki „alvöru“ en það eru geislarnir okkar svo sannarlega. Sverðin í Stjörnustríði (Star Wars) eru ægileg „alvöru“ vopn og einhverra hluta vegna miklu eftirminnilegri í krumlunum á Darth Wader heldur en mjúkum hetjuhöndum Luke Skywalker. Við sem stjórnum myndgreiningartækjum erum mun líklegri til að lenda í hlutverki vonda karlsins en hetjunnar og enginn ber á móti því að risastórar vélar í framandi og rökkvuðu umhverfi eru ógnvekjandi, ekki síst í augum lítillar manneskju sem á von á að úr þeim skjótist logandi bjart, grænleitt ljós sem brennir hana til ösku!
Hugsun og samvinna
Það er full ástæða til að hafa þetta í huga þegar börn þurfa í myndgreiningarrannsóknir. Stundum er ef til vill hægt að forðast að nefna geisla en ég hef persónulega ekki mikla trú á þeirri aðferð. Hún getur gengið upp þegar aðeins þarf að smella mynd af klemmdum fingri eða einhverju slíku en ef um stærri rannsóknir er að ræða eru klárir krakkar fljótir að ná samhenginu. Þau eru alltaf með eyrun opin og helmingi fljótari að hugsa en við fullorðna fólkið (okkur byrjar að fara aftur um 17 ára aldurinn!).
Þar sem samvinna er við barnadeildir varðandi myndgreiningu mætti jafnvel fá starfsfólk þeirra til að ræða þetta við bæði foreldrana og barnið en ábyrgðin er samt fyrst og fremst í höndum myndgreiningarfólksins.
Lokaverkefni?
Ég get ekki stillt mig um að nefna hversu skemmtilegt lokaverkefni fyrir geislafræðinema ég held að væri hægt að vinna úr þessu. Til dæmis með því að gera alvöru könnun á „ímynd“ geislunar í barnaefni, hugmyndum t.d. fjögurra til átta ára barna um geislun, hvernig tekið er á þessu í sérnámi um barnaröntgen, o.s.fr. Úr öllu saman mætti svo vinna leiðbeiningar fyrir myndgreiningarfólk til að minnka ótta hjá börnum.
Verum vakandi
Þessu greinarkorni er ætlað að vekja myndgreiningarfólk til umhugsunar, ég fann á eigin skinni að þess er þörf. Mig langar að biðja þá sem geta bent á upplýsingar tengdar þessu efni, til dæmis fólk sem sérmenntað er í barnaröntgen, að senda mér ábendingar, á netfang ritstjóra Arnartíðinda, og mun ég birta þær strax og kostur er.
10.11.03 Edda Aradóttir.