Nú styttist í hina árlegu Evrópuráðstefnu European Congress of Radiology (ECR) sem haldin er árlega í Vínarborg. Þegar þetta er skrifað hefur fríður flokkur kvenna úr hópi íslensks myndgreiningarfólks skráð sig á ráðstefnuna, eins og sjá má á lista sem settur hefur verið upp hér á raforninn.is. Full ástæða er til að hvetja fleiri til að drífa sig af stað því að vanda er margt áhugavert á dagskrá ECR.
Sístækkandi ráðstefna
ECR er lang stærsti viðburður í myndgreiningargeiranum í Evrópu ár hvert og er ráðstefnan núna sú 23. í röðinni. Aðstandendur hennar reikna með a.m.k. 19.000 þáttakendum og það færist í vöxt að fólk frá löndum utan Evrópu komi á ECR.
Bæklingur ráðstefnunnar er aðgengilegur á pdf-formi og allar upplýsingar er að sjálfsögðu að finna á vefsíðu ECR 2011.
Gefið er út dagblað ráðstefnunnar, ECR Today, og er hægt að skoða það rafrænt hvern dag sem hún stendur yfir.
Skemmtileg ljósmyndasamkeppni
Myndgreiningarfólk er, eðli málsins samkvæmt, áhugasamt um myndir af öllum gerðum og innan hóps Íslendinga í faginu eru nokkrir vel liðtækir ljósmyndarar. Öllum sem skrá sig á ECR býðst að taka þátt í ljósmyndasamkeppni og má hver þeirra senda inn tvær myndir sem verða að skila sér áður en ráðstefnan hefst. Nánari upplýsingar um samkeppnina og reglur hennar er að finna á vefsíðu ECR 2011.
Þema samkeppninnar þetta árið er “Four Seasons in Contrast” og vinningsmyndirnar fá veglegan sess á veggjum ráðstefnuhallarinnar.
Gagnvirkni og nútíma kennsluhættir
Aðstandendur ECR eru stoltir af því að vera sífellt að prófa eitthvað nýtt og fá álit frá þátttakendum. Þeir leggja áherslu á að athugasemdir þátttakenda séu raunverulega skoðaðar og tekið mark á þeim. Það sem fær “rautt ljós” er einfaldlega fellt niður en í öðrum tilvikum er innlegg þáttakenda notað til sífelldra endurbóta og þróunar á efni og umgjörð.
Notkun á tölvutækni og gagnvirkni hefur verið aðalsmerki ECR í mörg ár og í ár er fólki lofað því að á ECR muni það upplifa kennsluhætti nútímans.
Gríðarlegt magn af fyrirlestrum og öðru efni er aðgengilegt rafrænt og með því að nota skráningarnúmer sitt hafa þátttakendur áfram aðgang að þessu efni þegar heim er komið.
Það eru 14 gagnvirkar kennslustundir (Interactive Teaching Sessions) á dagskránni, merktar E3, og fyrirlesarar gera í flestum tilvikum ráð fyrir virkri þátttöku áheyrenda. Á ráðstefnunni er líka sérstök miðstöð fyrir nám á vefnum (e-Learning Centre) þar sem færi gefst til að nýta kennslu á vefnum og prófa þekkingu sína.
European School of Radiology (ESOR) heldur síðan kynningu á sér og námsframboði sínu föstudaginn 4. mars: ESOR Session Friday, March 4, 14:00–15:30, Room K.
Álitlegir sérfyrirlestrar
Þrír “New Horizons fyrirlestrar eru á dagskrá ECR og verður þar fjallað um það allra nýjasta og framtíðarsýn í segulómun, tölvusneiðmyndun og brjóstarannsóknum.
Enginn ætti að láta opnunarfyrirlesturinn, þann 3. mars, framhjá sér fara og fyrirlestrar til heiðurs þeim Josef Lissner, Marie og Pierre Curie og sjálfum Wilhelm Konrad Röntgen eru haldnir föstudaginn 4., laugardaginn 5. og sunnudaginn 6. mars. Allir þessir fyrirlestrar eru án efa mjög áhugaverðir.
Auk þessa er vert að benda á að á laugardeginum verður Marc Ghysels með gestafyrirlestur sem ber nafnið “Slicing Through Antiques & Works of Art”.
Þétt og efnismikil dagskrá
Ótal fyrirlestrar, vinnustofur (workshops), o.s.fr. um myndgreiningu hinna ýmsu líkamshluta og sjúkdóma hjá fólki á öllum aldri er í boði á ECR. Það væri til að æra óstöðugan að ætla að telja marga upp hér en ég ætla þó að minnast á örfáa:
Sameindamyndgreining fyrir röntgenfólk: “Molecular imaging made easy.” Monday, March 7, 8:30–10:00 SF 15a
Álitleg fyrirlestraröð um musculosceletal MR: KISS (Keep It Simple and Straightforward): “Musculoskeletal MRI”
Tveir fyrirlestrar um skuggaefni: “Contrast media: always as safe as we wish?” Friday, March 4, 08:30–10:00, Room P, RC 306
og “Contrast media: clinical evidence, news and facts.” Monday, March 7, 10:30–12:00, Room L/M, SS 1606
Myndgreining í slysatilvikum: “The trauma patient.” Thursday, March 3, 16:00–17:30, Room D2, RC 209
Á laugardag og sunnudag eru fyrirlestrar sérstaklega ætlaðir geislafræðingum. Nokkrir líta vel út, t.d. sá sem hefur siðfræði sem þungamiðju “Radiography as an ethical practice” Saturday, March 5, 16:00–17:30, Room L/M RC 1014
og tveir sem fjalla um geislavarnir: “Radiation protection and optimisation of radiological procedures” Sunday, March 6, 08:30–10:00, Room L/M, RC 1114
og “The radiographer‘s role in optimising radiation exposure” Sunday, March 6, 10:30–12:00, Room L/M, SS 1214.
Eins gæti verið ástæða til að kynna sér innihald “Improving productivity and quality: the radiographer‘s area of responsibility” Saturday, March 5, 10:30–12:00, Room L/M, SS 814
Árleg fyrirlestraröð í samvinnu við RSNA í Bandaríkjunum. Þetta árið er þemað myndgreining krabbameina: “Essentials in Oncologic Imaging: What Radiologists Need to Know” Sunday, March 6, 08:30–17:30, MC 25
Vegleg tæknisýning
Ekki má svo gleyma tæknisýningunni sem lítur út fyrir að verða mjög flott þetta árið. Sýnendur verða u.þ.b. 285 og sýningin tekur yfir 26.000 m².
Nokkrir stórir framleiðendur bjóða upp á “Industry Hands-On Workshops”, þar sem fólki býðst að skoða og prófa nýjustu græjur. Þeir sem vilja komast að þurfa að skrá sig með góðum fyrirvara.
Vorið í Vín
Til að hafa orku og athyglina í lagi er nauðsynlegt að líta stöku sinnum upp frá vinnunni og Vínarborg býður upp á ótal margt fallegt og áhugavert. Til dæmis er næstum skylda að tylla sér á huggulegt kaffihús og velta ögn fyrir sér sögu þessarar fornfrægu borgar.
24.01.11 Edda Aradóttir edda@raforninn.is