ECR 2010


Jæja, nú styttist í ECR, European Congress of Radiology, stærsta viðburð í myndgreiningunni í Evrópu ár hvert. Þegar hefur frést af nokkrum Íslendingum sem ætla til Vínarborgar þetta árið og eins og undanfarin ár verður þátttakendalisti hér á raforninn.is. Það eru aðeins 3 vikur til stefnu, síðustu forvöð að skrá sig! 

Útdrættir úr fyrirlestrum aðgengilegir öllum.
Eitt af því sem er sérstakt við vefsíðu ECR er að fólk getur skoðað dagskrána í smáatriðum, alveg niður í útdrætti (abstract) úr einstökum fyrirlestrum, án þess að vera búið að skrá sig á ráðstefnuna. Þeir sem farið hafa á RSNA í Chicago kannast við svipað fyrirkomulag en aðeins fyrir þá sem eru búnir að skrá sig og fá þátttakendanúmer (badge number).
Svona aðgengileg dagskrá gerir hverjum og einum auðveldara að ákveða hvort það er peninganna virði fyrir hann að drífa sig á ECR.
Fyrir þá sem þegar eru búnir að skrá sig má hiklaust mæla með möguleikanum Itinerary, þar sem hver þátttakandi getur haldið utan um sína eigin dagskrá, hvaða dagskrárliði hann er skráður á og hvenær, ásamt ýmsum gagnlegum upplýsingum. 

Frítt fyrir nema og möguleikar á happdrættisvinningi.
Þeir sem skráðu sig snemma græddu með því lægra skráningargjald en skráning á vefnum er enn galopin og þátttökugjaldið er sanngjarnt jafnvel þótt það sé umreiknað í okkar óstöðugu, íslensku krónu.
Nemar, hvort sem þeir koma úr læknisfræði, tölvugeiranum, geislafræði, verkfræði eða hverju öðru sem tengist myndgreiningu greiða ekki þátttökugjald, ef þeir eru þrítugir eða yngri og láta fylgja skráningunni afrit af skólaskírteini, sem reyndar þarf að vera á ensku.
Þeir sem eldri eru og/eða lengra komnir á menntabrautinni, röntgensérfræðingar og unglæknar, geta reynt að vinna fría þátttöku, ferðir og gistingu með því að senda inn umsókn um styrk frá Covidien (áður Tyco Healthcare), ásamt tilheyrandi upplýsingum. 

Tæknisýning á uppleið.
Tæknisýningin á ECR leið vegna plássleysis í mörg ár en nú er talsvert búið að bæta úr því og í ár er rýmið orðið 26.000 fermetrar og fjöldi sýnenda kominn mjög nálægt 300.
Læknisfræðilegi hlutinn er þó alltaf meira áberandi á ECR, sem er eitt af því sem gerir Evrópuráðstefnuna frábrugðna RSNA í Chicago. Fjölbreytni í áherslum er ótvíræður kostur, ekki síst í myndgreiningunni þar sem þróunin er ógnarhröð bæði í tæknihlutanum og læknisfræðihlutanum. 

Leiðsögn um reglugerðafrumskóg EU.
Eitt af því sem er sérstök ástæða til að benda á í sambandi við ECR 2010 er tækifærið til að kynna sér upplýsingaveitu ESR (European Society of Radiology) um Evrópusambandsmál sem snerta myndgreiningu. Reglur EU eiga að gilda hérlendis en það er bæði erfitt að rata um reglugerðafrumskóginn og fylgjast með hvar og hvenær vaxa þar nýjar greinar sem snerta myndgreiningu á einhvern hátt. ESR sér nú um að benda á þessar reglugerðir, sem dæmi má nefna reglugerð um vef-heilbrigðisþjónustu (telemedicine / e-health), og við hverja þeirra birtist upplýsingasíða um opinbera afstöðu ESR til viðkomandi reglugerðar. 
Á hverju ECR þingi býður ESR upp á margar, góðar kynningar á starfsemi sinni og ég hvet íslenskt myndgreiningarfólk til að láta þær ekki framhjá sér fara.

Dagskrá ráðstefnunnar er metnaðarfull og áhugaverð. Full ástæða til að skoða hana vel. Yfirskriftin er “Virtuosity in Radiology” og orðið “virtuosity” getur þýtt hvort heldur sem er “snilld” eða “yfirburðatækni”. Hvort tveggja ætti að höfða til íslensks myndgreiningarfólks.

15.02.10 Edda Aradóttir ea@ro.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *