ECR 2009


European Congress of Radiology sem haldin er í Vínarborg er stærsti viðburður innan myndgreiningar í Evrópu ár hvert. Ráðstefnan er bæði stór og viðburðarík þetta árið, þrátt fyrir heimskreppuna, en efnahagsástandið dregur greinilega úr ferðum Íslendinga á staðinn. Aðeins sjö þátttakendur eru á lista Arnartíðinda og þrír þeirra vinna erlendis.

Sífellt vandaðri viðburður.
Ráðstefnan hófst fimmtudaginn 6. mars og lýkur þann tíunda. Ráðstefnuhaldarar láta greinilega ekki deigan síga heldur halda sig við að gera þennan viðburð vandaðri og gagnlegri ár frá ári, eins og sjá má á metnaðarfullri dagskrá sem sjá má í heild sinni á vefnum.

Fjöldi manns frá ýmsum löndum.
Um 18 þúsund manns sækja ECR og koma frá 100 þjóðlöndum. Tækjasýning þessa árs er á 26 þúsund fermetra svæði og sýnendur 285 talsins.
Að sjálfsögðu ræður tölvutæknin ríkjum og aðstandendur ECR veita aðgang að útdráttum (abstracts) úr öllum vísindaverkefnum sem birt eru á ráðstefnunni 2009. Þar er hægt að gera sér grein fyrir því sem hverjum og einum þykir athyglisverðast og að ráðstefnunni lokinni er í mörgum tilvikum hægt að nálgast ítarlegra efni úr því.

Ýmsar leiðir til að fylgjast með að heiman.
ESR (European Society of Radiology) hefur opnað nýja vefsíðu sem verður rækilega kynnt á ECR ráðstefnunni. Á síðunni verður hægt að fylgjast með því sem gerist á ECR og er það góður kostur fyrir okkur öll sem verðum að sitja heima þetta árið.

Einnig má benda á að Diagnostic Imaging fjallar prýðilega um ráðstefnur og hægt er að nálgast mikinn fróðleik í hlutanum Conference Reports. Umfjöllun um ECR 2009 verður á forsíðu þeirra á meðan ráðstefnan stendur yfir.

Ekki má svo gleyma pistlum i Arnartíðindum þessa vikuna, frá vöskum Íslendingum á staðnum!

09.03.09 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *