ECR 2008

Evrópuráðstefna myndgreiningarfólks, European Congress of Radiology, verður haldin í Vínarborg dagana 7. – 11 mars næstkomandi. ECR er í stöðugri sókn, bæði hvað varðar fagmennsku og umgjörð.  Þátttakendalisti Arnartíðinda hefur verið settur upp, eins og undanfarin ár, og stöðugt bætast nöfn á hann.

Nærst stærsta röntgenráðstefna í heimi.
ECR hefur fest sig i sessi sem annar af tveim stærstu viðburðum ársins hjá myndgreiningarfólki, með RSNA ráðstefnunni í Chicago. Um tíma lá það orð á ECR að ekki væri nógu vel gætt að gæðum fyrirlesara, menn kæmu t.d. í pontu án þess að geta skilað efni sínu frá sér á skiljanlegri ensku, hvað þá svarað spurningum. Einnig var umgjörð tæknisýningarinnar lengi léleg, húsnæði þröngt og óhentugt og fátt spennandi að sjá.

Sífellt breytt og bætt.
Undanfarin ár hafa skipuleggjendur ECR lagt mikla vinnu í að bæta ráðstefnuna á allan hátt og virðist það hafa tekist mjög vel. Sífellt bætist við húsnæði sem lagt er undir ráðstefnuna, t.d. verður tæknisýningin nú á 26 000 fermetra svæði og sýnendur eru 270 talsins. Á síðasta ári var aukið við húsnæði fyrir læknisfræðihlutann og skipulagi breytt, til að nýta rýmið betur og einfalda aðgengi fyrir ráðstefnugesti.
Skýrar kröfur eru gerðar um enskukunnáttu fyrirlesara sem á að tryggja að allir fái skiljanlegar upplýsingar um það sem þeir hafa áhuga fyrir.

Mjög metnaðarfull dagskrá.
Dagskrá ráðstefnunnar er enn metnaðarfyllri en síðustu ár og strax þegar litið er á tölulegar upplýsingar sést að úr nógu er að velja. Til gamans má telja upp fáein atriði sem vekja athygli:

Dual source og Dual energy CT – Í umfjöllun sjálfs Willi Kalender.
Fituröntgen (Fat radiology) – Hvernig getum við best rannsakað fólk ofþyngd?
NSF – Nephrogenic systemic fibrosis – Hvernig komum við í veg fyrir það?
Hjartarannsóknir og aftur hjartarannsóknir.
Blönduð tækni (hybrid) – PET/CT, SPECT/CT, PET/MRI, o.s.fr.
HeilkroppsMR – Fyrir sjúkdómshrædda ríkisbubba?
CT og MR urografiur – Dánarvottorð IV Urografiu?
Geislaálag og geislavarnir í hátækni-myndgreiningu.
Gæðavinna/-stjórnun í myndgreiningu.
Kvenkyns röntgenlæknar – Að sameina frama og foreldrishlutverk. Er það enn einkamál kvenna?!
Bráðir kviðverkir (acute abdomen) – Á að nota einhverja aðra tækni á undan CT?
Brjóstarannsóknir – Allar tegundir.
RIS / HIS / PACS.
Inngripsrannsóknir (intervention).
Stoðkerfisrannsóknir (musculosceletal) – Þ.á.m. beinþéttnimælingar
MR – starfsemisrannsóknir (functional).
Námstefna – Stjórnun í heilbrigðiskerfinu.
… og fleira og fleira og fleira.

Einfalt að skipuleggja sig.
Mjög gagnleg nýung, sem vert er að benda á, er Scientific Program Planner, sem gerir þátttakendum kleift að skrá allt það sem þeir vilja sækja á ráðstefnunni og búa þannig til sína eigin dagskrá, eða stundatöflu. Forritið er þægilegt í notkun, einfalt að sjá nánari upplýsingar um fyrirlestra og þessháttar, og fljótlegt að skrá inn og eyða út. 

Ekkert íslenskt innlegg þetta árið.
Engir Íslendingar verða með framlag á ECR þetta árið en undanfarin ár hefur framlag Íslendinga verið til mikils sóma. Stöðugt bætist á þátttakendalista Arnartíðinda og þeir sem vita af fleirum eru beðnir að koma nöfnum til ritstjóra. 

11.02.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *