ECR 2004

 
ECR 2004- www.ecr.org

#img 1 #ECR hófst eins og ár hvert snemma á föstudagsmorgni (5/3) og lauk ekki fyrr en um hádegi á þriðjudegi (9/3). Á ráðstefnunni voru um 16 þúsund manns, röntgenlæknar í meirihluta, en þó voru um 4000 geislafræðingar og fjölgar stöðugt ár frá ári. Þess má geta að milli 4 og 500 geislafræðingar voru þarna frá norðurlöndunum.

Dagskráin var þétt og fór stundum tími í að nota útilokunaraðferðina því stundum langaði okkur að vera á tveimur stöðum í einu. En af nógu var að taka og má þar helst nefna fyrirlestra, glæsilega tækjasýningu og vísinda sýningu þar sem tölvuskjáir og sýningartjöld eru notuð til að leysa af hólmi “gömlu” hefðbundnu veggspjöldin (“postera”).


Nýjasta nýtt
Fjölsneiða tölvusneiðmyndatæki, MSCT, 16, 32, 40 sneiða eða þaðan af fleiri, voru mjög áberandi á ECR. Gildi MSCT við kransæðarannsóknir virðist ekki lengur umdeilt og MSCT er að festa sig í sessi við rannsónir af útlimaæðum og ristli svo dæmi séu tekin. Kynntar voru niðurstöður margra rannsókna þar sem fram kom að sértæki og næmni MSCT kransæðamyndatöku jafnaðist fyllilega á við hjartaþræðingu til að meta þrengsli í kransæðum, nema e.t.v í smæstu greinum kransæðanna.

Bæði segulómun og MSCT eru í örri þróun við ristilrannsóknir, þar sem næmni og
#img 2 #sértæki eru orðin viðunandi. Menn eru greinilega enn að prófa sig áfram með hvaða skuggaefni sé best að nota til að fylla ristilinn, hvort úthreinsun þurfi o.s.frv.

Hraðvirkari tækjum fylgir breytt notkun skuggaefnis, meira magn er gefið á styttri tíma. Joðmagn er aukið bæði með því að fjölga millilítrum og auka styrk (380-400 mgI/ml). Rætt var um inngjafarhraða allt að 8 ml/s. Með þessu verður skuggaefnistoppurinn hærri og skarpari, sem er í takt við þróunina í myndatökuhraða, en jafnframt verður mikilvægara að stilla inngjöf og myndatöku rétt saman. Almennt eru nú skilgreindir þrír fasar í efri hluta kviðar, arterial phase, portal venous inflow, og venous phase of pharenchymal enhancement.

Flestir voru greinilega meðvitaðir um þau áhrif sem margra fasa rannsóknir og sífellt þynnri sneiðar, geta haft á geislaskammta. Veruleg áhersla var lögð á nauðsyn þess að skilgreina fyrirfram hvernig myndatöku skuli háttað, t.d. m.t.t. þess hvaða fasa á að velja, hve þunnar sneiðar og hve mikil myndgæði séu nauðsynleg. Einnig var bent á að óraunhæft getur verið að gera sömu kröfur til myndgæða í þunnum sneiðum og þykkum, en oft hafa menn tilhneygingu til að auka geislun til að gera myndir fallegri, án þess að það hafi áhrif á greiningargildi myndanna. Í þessu samhengi má minna á að til að minnka suð um helming þarf fjórum sinnum meiri geislun. Hvatt var til þess að menn notuðu þann búnað sem tölvusneiðmyndatæki bjóða upp á til að minnka geislun, hann virkaði yfirleitt vel og skilaði sínu.

Af öðrum áberandi málum má nefna neuroimaging, MRI flæðisrannsóknir, molecular imaging, HRCT af lungum og PET CT.

Poster frá Íslandi

#img 3 #Í fyrsta sinni í sögu ECR var kynning frá Íslandi (vonum að við séum ekki að gleyma neinum). Hægt var að fara á EPOS (Electronic poster session) þar sem tölvur fylltu mörg herbergi og skoða “postera” sem voru mjög fjölbreyttir. Gyða Karlsdóttir geislafræðingur hjá Hjartavernd kom með poster um kalkmælingar (calcium scoring) í ósæð í brjóstholi. Meðhöfundar hennar eru Sigurður Sigurðsson geislafræðingur, Thor Aspelund, Vilmundur Gylfason, Guðný Eiríksdóttir og fl.

Í stuttu máli sagt:
Eitthvað fyrir alla í fyrirlestrasölunum, dagskráin mjög aðgengileg og úr nógu að velja. Langflestir fyrirlestrar mjög frambærilegir og geislafræðingahlutinn ekki síðri.
Það var enginn svikinn af tækjasýningunni sem tók um 8000 m2 .

Margar nýjungar eru á leiðinni og tækninni fleygir fram og finnst manni eins og það sé að koma sú staða að sjúklingurinn fer að verða takmarkandi þáttur frekar en möguleikar hraðvirkustu tækjanna. Sem dæmi má nefna að það kemur að því að ekki er hægt að auka meira inngjafahraðann á skuggaefni í æð (þó þær séu góðar).



#img 4 #Þó ekki hafi gefist mikill tími til að skoða hina fögru Vínarborg þá er ljóst að hún svíkur heldur engan.

Jónína Guðjónsdóttir
Gyða S. Karlsdóttir
15.03.04

  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *