ECR 2003 Jónína G og Guðrún F

 


 #img 4 #ECR hófst af fullum krafti snemma á föstudagsmorgni (7/3) og stóð þangað til á hádegi þriðjudags (11/3).  Á ráðstefnunni voru milli 12 og 13 þúsund manns, röntgenlæknar í meirihluta, en þó voru yfir  3000 geislafræðingar og fer þeim fjölgandi frá ári til árs.


Fyrirlestrar voru í 15 sölum samhliða, þannig að úr nógu var að velja og ekki gekk annað en að mæta undirbúinn til leiks, vita hvert maður ætlaði og hafa tíma til að finna rétta salinn.  Fyrirlestrablokkir voru flokkaðar eftir efni, en auk þes tileinkaðar ákveðnu tema, t.d. ,,special focus session”, ,,state of the art symposium”, ,,scientific session” eða ,,refresher courses”.  Nokkrar fyrirlestrablokkir voru tileinkaðar geislafræðingum sérstaklega, og er þeim stjórnað af geislafræðingum.  Efni fyrirlestranna þar var sniðið að þörfum geislafræðinga en miðað við annað sem við sóttum var munurinn ekki mikill og stéttaskipting áheyrenda ekki markvert frábrugðin öðrum fyrirlestrum.Ráðstefnan gaf allt að 28 CME einingar, en eftir hvern fyrirlestur þurfti að skila matsblaði sem merkt var hverjum einstakling með strikamerki.  Upplýsingar um mætingu voru skráðar jafn óðum og hver þátttakandi fyrir sig gat prentað út
#img 2 #vottorð um mætingu.


Almennt voru fyrirlestrar mjög góðir, vel unnir og fróðlegir.  Ráðstefnan var algerlega stafræn, og það sem vakti mesta athygli í því sambandi var vísinda-sýningin þar sem tölvuskjáir og sýningartjöld höfðu tekið við af hefðbundnum veggspjöldum.Á tæknisýningunni sýndu um 200 framleiðendur tæki og búnað á 8000 m2.  Áberandi var hve mikil áhersla var á hugbúnað (PACS) og hvers kyns kynningar sýndar á skjám, stórir skjáir, stærri skjáir og sýningartjöld voru hvert sem litið var.  Innan um skjáina var svo heilmikið af tækjum, en þar voru mest áberandi stafræn röntgentæki bæði “direct ray” og myndplötukerfi.  Fjölsneiða tölvusneiðmyndatæki og sambyggð PET-CT voru líka í fremstu víglínu bæði á tæknisýningunni og í fyrirlestrarsölum.  Framleiðendur skuggaefna mættu að vanda sterkir til leiks.


Skemmst er frá því að segja að undirritaðar sóttu fyrirlestra af kappi en gættu þess þó líka að gera sýningunni góð skil enda breytingar í vændum á vinnustaðnum.  Það var ekki fyrr en á mánudegi að við leyfðum okkur að líta aðeins á borgina í dagsbirtu, þá vildi líka svo vel til að sólin braust fram úr skýjunum og í fyrsta skipti varð hlýrra í Vín en heima á Klakanum.


 


Formaður FG með fulltrúa úr alþjóðanefnd félagsins sér við hlið gat ekki látið hjá líða að sinna félagstörfum og var laugardagurinn helgaður þeim, en þá sóttum við fund ECRRT (European Committee of Radiographers and Radiologic Technologists).  Þetta var í fyrsta sinn sem þessi hópur heldur fund á ECR, en fundurinn er liður í því að gera starfið meira áberandi og markvissara.  Stefnt er að því að halda slíka aukafundi samhliða ECR á hverju ári. Fundurinn var vel sóttur og þar voru m.a. kynntar niðurstöður nýrra samantekta, annars vegar um menntun geislafræðinga í Evrópu og hins vegar um hvaða áhrif ný tilskipun Evrópusambandsins um geislavarnir hefur haft.  Einnig var sagt frá HENRE, nýju verkefni sem er í burðarliðnum og snýr að því
#img 1 #að koma á ,,geislafræði-menntunarneti” í Evrópu.   Margt fleira var líka rætt á þessum fimm klukktíma langa fundi sem ekki verður talið hér.  Um kvöldið fór hópurinn saman út að borða á ekta austurrískan stað þar sem fæstir skildu nokkuð í matseðlinum og flestir urðu hissa þegar þeir sáu hvað var á diskinum sem þeir fengu.  Mesta ,,lukku” vakti náhvít pylsa borin fram í skál, í soðinu, og einn lítill brauðbiti með!Ekki var allri fundasetu lokið því í hádeginu næsta dag var stuttur NSR fundur (Nordic Society of Radiographers).  Tveir röntgenlæknar frá félagi röntgenlækna á Norðurlöndum, voru gestir fundarins í tilefni nýs samstarfssamnings, en frá og með árinu 2005 verða norrænar ráðstefnur geislafræðinga og röntgenlækna sameiginlegar.  Því miður var lítið að frétta af næstu norrænu ráðstefnu sem er í Svíþjóð í haust, en aðeins hefur verið send út fyrsta auglýsing.  Meiri upplýsinga um hana ku vera að vænta í lok mars.  Hins vegar eru norðmenn komnir vel í gang með undirbúning ráðstefnu 2005.


 #img 3 #Á heildina litið tókst ferðin vel í alla staði, ráðstefnan gerði betur en að standa undir væntingum og Vín er borg sem alveg er þess virði að heimsækja.  Það er betra að vera vel klæddur, en þá er líka hægt að njóta þess að ganga um borgina og horfa í kringum sig, glæsilegar byggingar eru þar hver af annarri.  Hótelið okkar var í miðbænum og umhverfis það veitingastaðir af öllum gerðum á hverju strái; ítalskir, kínverskir, austurrískir, fínir, hversdagslegir eða sjálfsafgreiðslustaðir, kaffihús og ísstaðir.


Það er óhætt að mæla með ferð á ECR, þó ekki sé beint flug til Vínar er þetta tiltölulega stutt ferð, ráðstefnugjald fyrir geislafræðinga er lágt og einróma álit þeirra sem til þekkja að ráðstefnan eflist með hverju ári.


 


Jónína Guðjónsdóttir og Guðrún Friðriksdóttir,
geislafræðingar, Domus Medica.
 


    

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *