E-film á FSA – Halldór Benediktsson

Reynslan af eFilm á FSA

Í desember 2003 var sett upp PACS myndgeymslukerfi og tvær eFilm myndskoðunarstöðvar (eFilm Workstation) á Myndgreiningardeild FSA. Raförninn ehf. sá um uppsetningu kerfisins og við sama aðila var gerður þjónustusamningur um rekstur kerfisins. E-film kerfið byggir á ódýrum hugbúnaði sem sóttur er yfir internetið. E-film stöðvarnar sem fyrirtækið Merge (www.merge.com) í Bandaríkjunum markaðssetur eru útbreiddustu myndskoðunarstöðvar í Bandaríkjunum. FSA og Raförninn sáu í sameiningu. um innkaup á góðum vélbúnaði (hardware) sem þó er hilluvara (off the shelf).
Á ráðstefnu sem undirritaður sótti í Boston í haust á vegum Harvard háskólans kom fram að þessi aðferðarfræði við innkaup á PACS er notuð í vaxandi mæli og raunar litu margir fyrirlesaranna svo á að PACS sé fyrst og fremst hugbúnaðarlausn. Vélbúnaðinn er best að kaupa eða leigja af óháðum söluaðila. Einnig kom fram í fyrirlestrum að góð leið til að innleiða stafrænt ferli á myndgreiningardeild sé að byrja á því að tengja tölvusneiðmyndir, segulómun og ómskoðun enda alger tímaskekkja að reyna að stunda úrlestur og geymslu þessara myndfreku rannsóknaraðferða á filmuformi. Hin aðferðin er að gera allt stafrænt í einni atlögu og takast á við nokkurra mánaða erfitt tímabil sem leiðir fljótt til vinnuhagræðingar og lægri rekstrarkostnaðar. Sú aðferð að prenta út filmur í eitt ár eða svo samhliða innleiðingu PACS er úrelt enda alltof kostnaðarsöm aðferð.

Fjárfestingin
Fjárfestingin á bak við kerfið hér á FSA er aðeins brot af því sem hefðbundin PACS kerfi stóru framleiðandanna hafa kostað. Slík kerfi hafa hingað til verið boðin á tugi milljóna og jafnvel á annað hundrað milljónir. Fyrir litlar myngreiningardeildir er oft ómögulegt og reyndar óþarfi að leggja út í slíkan kostnað í upphafi PACS væðingar og mat undirritaðs er að uppsetning eFilm kerfisins hafi verið mikið happaskref fyrir FSA. eFilm kerfið þjónar öllum stafrænu tækjum deildarinnar nema ísótópamyndavélinni sem ekki er DICOM samhæfð, en DICOM staðallinn er staðlað og vottað samskiptamál myndgreiningartækja. Allar tölvusneiðmyndir, segulómskoðanir, ómskoðanir og rannsóknir frá stafræna skyggnitækinu (skuggaefnisrannsóknir, skyggningar og sumar beinarannsóknir) eru geymdar í kerfinu og allur úrlestur fer fram á vinnustöðvunum. Filmuútprentun var hætt þegar kerfið hafði verið um 3 vikur í rekstri. Sparnaðurinn samfara því að hætta filmuútprentun hefur nú þegar borgað upp grunnfjárfestinguna í kerfinu.

Rekstur og öryggisstaðlar
Rekstur kerfisins hefur verið nánast hnökralaus og eina alvöruvandamálið sem upp hefur komið var ofhitun á netþjóni. Því vandamáli var kippt í liðinn samdægurs og engin gögn töpuðust. Rekstraröryggi nálgast því 100% á þessum 15 mánuðum. Kerfið uppfyllir sömu staðla fyrir gagnaöryggi og öll önnur tölvukerfi spítalans. Vinnustöðvarnar eru CE merktar (Evrópustaðallinn) og samþykktar af Matvæla-og lyfjaeftirlitsstofnun Bandaríkjanna (FDA approved). Kerfið byggir á DICOM staðlinum og er því að fullu tengjanlegt öðrum PACS kerfum. Tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að senda rannsóknir til Landspítala Háskólasjúkrahúss eða til annara PACS kerfa.

Vinnuumhverfi
Vinnustöðvarnar eru hraðvirkar og auðveldar í notkun. Allir læknar deildarinnar voru fljótir að komast upp á lagið með að nota stöðvarnar. Með öðrum orðum þá eru vinnustöðvarnar notendavænar sem í dag er orðið lykilatriði við val á PACS kerfum.

Netaðgangur fyrir sjúkrahúslækna
Í vikunni var lokið uppsetningu á vefaðgangi fyrir eFilm kerfið á innra neti FSA sem þjóna mun læknum spítalans utan myndgreiningardeildarinnar og mun veita þeim möguleika á að skoða rannsóknir hvar sem er innan sjúkrahússins. Læknar eru þegar byrjaðir að prófa kerfið og líkar vel. Miklar vonir eru bundnar við að netaðgangurinn muni nýtast vel í klínískri vinnu enda er netaðgangur sem þessi óaðskiljanlegur hluti af nútíma PACS kerfi.

Framtíðin
Stefnt er að því að deildin verði alstafræn að ári. Í deiglunni eru umfangsmikil samstarfsverkefni um myndgreiningarþjónustu við heilbriðisstofnanir á norður- og austurlandi auk Ísafjarðar. Eftir því sem umfang verkefna okkar eykst þarf að huga að RIS-PACS samhæfðu kerfi sem býður upp á vinnuhagræðingu og aukin afköst. Röntgen Domus gerði á dögunum tímamótasamning við Kodak um heildar RIS-PACS lausn og verður forvitnilegt að fylgjast með framgangi þess kerfis. 

3. mars 2005
Halldór Benediktsson
Forstöðulæknir
Myndgreiningardeild FSA 
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *