Dýra – röntgen.

Sjáið þið dýralækna fyrir ykkur með úrelt spítala röntgentæki, filmuþynnukerfi og bakka
#img 2 #með framköllunarvökvum? Hugsið ykkur betur um! Nútíma myndgreining hefur haldið innreið sína í gæludýraheiminn.

Nær allar rannsóknaaðferðir notaðar
Ef við byrjum á hefðbundnum röntgenmyndum þá eru að sjálfsögðu til stafræn tæki fyrir dýraröntgen, bæði CR og DR. Flestir hafa sennilega búist við því en…

… höfðuð þið grun um allar þær CT rannsóknir sem verið er að gera á gæludýrum, gæðingum og glæsilegum íbúum dýragarða?


#img 1 #Sennilega er ekki algengt að gera MR rannsóknir á venjulegum Snata, Bröndu eða Jarpi en Gullinsniðs – Bernhardt, Leónóra Stjörnu-Besta og Skínandi von Wasserfall þurfa áreiðanlega ekki að vera lengi á biðlista. Tækjunum fylgja leiðbeiningar um framkvæmd rannsókna (prótókollar) og eðal gæðingar þurfa ekki að leggja sig til að fá myndir af sínum fögru fótum.

Það eru að sjálfsögðu líka gerðar ísótóparannsóknir af ferfættum, vængjuðum og allavega sköpuðum sjúklingum úr dýraríkinu. Sameindamyndgreining (PET og skyldar aðferðir) virðist ekki vera notuð fyrir þessa sjúklinga enn sem komið er en þess er örugglega ekki langt að bíða.

Tæknin nýtt til hins ýtrasta.
Sérhönnuð PACS kerfi fyrir dýraspítala er hægt að fá og líka bókanakerfi í ætt við RIS og
#img 3 #HIS. Dýralæknir þarf að sjálfsögðu að senda vandlega útfyllta beiðni til að fá rannsókn af sínum sjúklingi og ef sérmenntaður röntgenlæknir er ekki við hendina, eða “aðstandendur” vilja fá álit annars, er alltaf hægt að nota fjargreiningu.

Líffærafræðin á myndum af dýrum er dálítið frábrugðin því sem gerist á myndum af fólki en fyrir þá sem vilja æfa sig er boðið upp á skemmtileg próf á netinu.

28.04.08 Edda Aradóttir  edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *