DR nemar, lausir og þráðlausir.


Alstafrænn röntgenbúnaður (DR) ryður sér sífellt meira til rúms, enda hefur hann marga kosti fram yfir plötukerfi (CR). Þessa dagana má sjá aukna umfjöllun á hinum ýmsu röntgensíðum veraldarvefsins um þráðlausa DR nema sem geta komið í stað CR plata, t.d. við það sem í daglegu tali eru kallaðar „bedside“ myndatökur.

DR nemarnir lausir við kaplana
Þegar taka þarf röntgenmynd af sjúklingi annarsstaðar en inni á röntgenstofu hefur fram undir þetta verið sjálfgefið að nota til þess færanlegt röntgentæki og CR plötu, jafnvel á stöðum sem nota DR tækni við allar aðrar röntgenrannsóknir. Plötuna þarf svo að setja í lesara sem kemur myndinni inn í kerfi viðkomandi myndgreiningarstaðar eða -deildar. Lausir DR nemar komu fram fyrir nokkrum árum en hafa fram undir þetta verið tengdir móðurtækinu með kapli. Nú eru DR nemarnir komnir á það þroskastig að klippt hefur verið á naflastrenginn, þeir eru orðnir bæði lausir og þráðlausir.

Rafhlaða og innbyggður sendir
Rafhlaða sér til þess að þeir eru óháðir öðrum um orku og þeir hafa innbyggðan sendi sem sér um að koma myndupplýsingum í kerfi viðkomandi myndgreiningarstaðar eða -deildar, þannig að myndin birtist samstundis á skjá. Það er hægt að nota þá eins og CR plötur, bæði í lungnastand og bucky borð og til að taka t.d. lungnamyndir í rúmi á gjörgæslu, axial myndir af mjaðmabrotum og ýmsar myndir með láréttri geislastefnu (horizontal myndir).

Margir kynntir til sögunnar um þessar mundir
Fyrsti þráðlausi DR neminn kom á markað árið 2008 (dimag.com) og að sögn framleiðandans eru um 1000 slíkir í notkun víða um heim. Greinilega hugsa fleiri framleiðendur sér gott til glóðarinnar að ná hluta af þessum markaði. Til dæmis kynnti Canon slíkan nema á þingi AHRA í ágúst sl. og af hinum ýmsu tilkynningum og auglýsingum má ráða að margir framleiðendur komi til með að leggja áherslu á þráðlausu-lausu nemana sína á RSNA 2010. Sem dæmi má nefna Konica-Minolta og Carestream Health.

Það verður áhugavert fyrir þá sem ætla að drífa sig til Chicago þetta árið að skoða þessa þægilegu nýjung sem gerir vinnuna okkar enn skemmtilegri.

25.10.10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *