Google er göldrótt en öll galdratól hafa sínar takmarkanir, það vita tæknimenn og tölvugúrúar. Þess vegna þarf að beita ýmsum gerðum af leitartólum, allt eftir því að hverju leitað er. Google leitar í því sem kallað er sýnilegi vefurinn en til er annar hluti veraldarvefsins, ósýnilegi vefurinn eða djúpvefurinn. Hann er víst um 500 sinnum stærri.
Í grein á vefsíðunni OEDb (Online Education Database) segir að Google leiti í um 8 milljörðum vefsíðna en nái ekki til annars efnis, fyrst og fremst þess sem er geymt í ýmsum gagnabönkum, sem sé um 500 sinnum meira að vöxtum. Þarna er að mestu um fræðilegt efni að ræða og miðað við það ætti djúpvefurinn að innihalda margt sem myndgreiningarfólk vill finna. Þeir sem hafa stundað rannsóknavinnu að einhverju marki, í námi eða innan sinnar sérgreinar, kannast fljótt við ýmislegt af því sem telst tilheyra djúpvefnum.
Það fyrsta sem ég mundi vilja gera er að finna leitarvél(ar) sem ná til djúpvefsins:
Clusty er „metasearch“ leitarvél sem tekur saman niðurstöður nokkurra vel metinna leitarvéla.
Intute er gagnabanki sem hægt er að leita í, t.d. eftir efnisflokkum. Þarna er hægt að finna heilmikið af vönduðum greinum en þarf að vanda sig dálítið við að búa til leitarforsendur, þ.e. prófa hin ýmsu leitarorð, velja og/eða undanskilja efnisflokka o.s.fr.
Librarians´ Internet Index er líka gagnabanki með svipuðum leitarmöguleikum og Intute en hefur þá sérstöðu að þar er einungis efni sem bókasafnsfræðingar hafa valið. Hugmyndafræðin er sú að það ljái efninu meiri trúverðugleika.
Þeir sem stunda rannsóknir lenda fljótt á djúpvefnum:
Gagnabankar á heilbrigðissviði teljast til djúpvefsins, þeir sem best hafa nýst myndgreiningarfólki eru á tenglasíðu raforninn.is:
The National Archives hefur þann kost að þar er ágætis leiðsögn fyrir byrjendur í þróaðri netleit.
HighWire Press veitir aðgang að mjög vönduðu efni.
The Internet Public Library er nákvæmlega það sem nafnið gefur til kynna, almenningsbókasafn á vefnum.
Encyclopeadia Brittanica, í vefútgáfu, er hluti af djúpvefnum. Hún stendur alltaf fyrir sínu.
Mér finnst frábært að geta fundið bækur sem hægt er að lesa á netinu:
The National Academies Press býður upp á bandarískt efni um tækni og vísindi, til dæmis gæðamál í heilbrigðiskerfinu.
The Online Books Page finnur fjöldan allan af bókum en mér hefur ekki gengið alveg nógu vel að finna fræðilegt efni. Hvernig öðrum gengur fer að sjálfsögðu eftir áhugasviði.
Project Gutenberg er líka mjög flott en með sömu takmarkanir varðandi fræðilegt efni á mínu áhugasviði.
Þeir sem vilja lesa fyrrnefnda grein á OEDb finna þar tengla við fleira djúpvefs-efni sem getur verið áhugavert, allt eftir áhugasviði hvers og eins.
28.09.09 Edda Aradóttir ea@ro.is