CT og svínaflensa.

Þessa dagana birtist talsvert af efni á netinu þar sem röntgenlæknar vara við hættu á ofnotkun tölvusneiðmyndatöku (CT) af lungum vegna svínaflensu (H1N1). Tilefnið er að margir hafa hvatt til CT rannsókna á þeim sem eru í áhættuhópum og hefur hver greinin rekið aðra þar sem því er lýst hversu vel CT rannsóknir sýni útbreiðslu og eðli sjúkdómsins.

Þarna er þó full ástæða til að viðhafa gætni.

Gæta verður sérstaklega að ungum sjúklingum.
Börn og unglingar eru einmitt einn helsti áhættuhópurinn varðandi svínaflensu en geislaálag af CT rannsóknum gerir þær mun óæskilegri rannsóknaraðferð en hefðbundna röntgenmyndatöku af lungum, sérstaklega fyrir unga sjúklinga.
Veftímaritið Diagnostic Imaging hefur eftir Donald P. Frush, yfirlækni barnaröntgendeildar Duke University, að einungis ætti að nota CT rannsóknir sem viðbótarrannsókn hjá alvarlega veikum sjúklingum en alls ekki til leitar að sjúkdómnum.

CT á aldrei að vera fyrsta rannsókn vegna H1N1.
Fleiri þekktir röntgenlæknar taka í sama streng í Diagnostic Imaging, t.d. David J. Brenner prófessor við Columbia University, og undirstrika að aldrei eigi að nota CT sem fyrstu rannsókn þegar grunur er um svínaflensu, þó um sé að ræða fólk sem komið er af barnsaldri. Einnig er undirstrikað að ekki hafi verið sýnt fram á að svínaflensa auki hættu á blóðtappa í lunga og því sé engin ástæða til að gera blóðtappaleit með CT nema um afgerandi einkenni sé að ræða.

Vel að málum staðið hérlendis.
Íslenskir röntgenlæknar standa kollegum sínum erlendis fyllilega á sporði og ég er þess fullviss að þeir vega af kostgæfni beiðnir um CT lungnarannsóknir vegna svínaflensu.

28.10.09 Edda Aradóttir ea@ro.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *