CAD – bendiforrit

CAD (Computer Aided Detection) forrit eru áhugaverður möguleiki í stafrænu umhverfi myndgreiningarfólks. Það er skortur á myndgreiningarlæknum (röntgenlæknum), vinnuálag á þá er mikið og það hljómar vel að hafa “vinnufélaga” sem aldrei verður þreyttur, stressaður eða veikur.


#img 1 #CAD er búið að vera lengi til umræðu í faginu og mikil vinna hefur verið lögð í þróun slíkra forrita. Helstu svið sem þau hafa náð fótfestu á eru brjóstamyndir, lungnamyndir og CT-lungnarannsóknir. Eins og um flest annað þá sýnist sitt hverjum og erfitt að slá föstu hvort þessi forrit eru einfaldlega frábær hjálp fyrir myndgreiningarlækna eða ólíkindatól sem þarf að fara mjög varlega gagnvart. 

Minna frænka fjallar um CAD
Á undanförnum þrem vikum hafa birst þrjár greinar um CAD hjá Minnu frænku (auntminnie.com), ein um CT-lungnarannsóknir, önnur um röntgen lungnamyndir og sú þriðja um brjóstamyndir. Fyrisagnir þeirra eru: “X-ray CAD aids in early lung cancer detection”, “Lung CAD may lead radiologists down the wrong path” og “CAD finds breast cancers that radiologists missed for years”.

Röntgen lungnamyndir

#img 2 #Sú fyrsta byggir á rannsóknarniðurstöðum hóps frá Kyushu University í Fukuoka, Japan; Mitsubishi Space Software í Amagasaki, Japan; og The University of Chicago í Illinois, USA, þar sem ákveðið CAD forrit fyrir röntgen lungnamyndir var reynt. Niðurstaðan er að: “…CAD detected lung cancer in 37 of the 50 (74%) patients, with a false-positive rate of 2.28 (114/50) false positives per case for normal cases.” Höfundarnir slá því föstu að: „This CAD system for digital chest radiographs is useful in assisting radiologists for detection of early resectable lung cancer.“

CT- lungnarannsóknir
Í annarri greininni er byggt á rannsóknarniðurstöðum dr. Geoffrey Rubin et al. frá Stanford
#img 3 #University í Stanford, CA. Þeir fylgjast með frammistöðu nokkurra myndgreiningarlækna sem lesa úr CT-lungnarannsóknum. Læknarnir skoða myndirnar fyrst, síðan er CAD beitt á þær og í framhaldi af þessu tvennu skila læknarnir svari. Niðurstaða rannsóknarinnar er: “ … radiologists given enough time will relax their standards when CAD is showing them lung nodules, and begin to accept false positives.“ Það er eftirtektarvert hversu fljótt allir myndgreiningarlæknarnir í rannsókninni virðast fara að vantreysta sjálfum sér gagnvart CAD forritinu.

Brjóstamyndir

#img 6 #Þriðja greinin byggir á rannsóknaniðurstöðum dr. Ansgar Malich, Ph.D., frá Friedrich-Schiller háskólasjúkrahúsinu Südharz-Krankenhaus í Nordhausen, Þýskalandi. Hann birti þær á European Congress of Radiology í mars síðastliðnum. Þar var athugað hversu vel CAD greindi breytingar sem myndgreiningarlæknar höfðu ekki greint á brjóstamyndum en sáu þegar myndirnar voru endurskoðaðar í framhaldi af því að konurnar greindust með brjóstakrabbamein. CAD stóð sig vel en dr. Malich sagði á ECR að: “…the systems’ limitations persist stubbornly, particularly the high false-positive rates.” Hann mælti þó með notkun CAD, ekki síst vegna þess að: „…there is a relevant number of structures not being detected by radiologists or not detectable by radiologists that are highlighted by CAD detecting cancer,“

CAD sem “annar læknir”
Þessar þrjár greinar henta ágætlega sem dæmi vegna þess að þær hafa birst með stuttu
#img 4 #millibili og fjalla um þau þrjú svið sem CAD hefur mest verið notað á. Ótal greinar hafa birst og ég hef lesið margar. Í mínum huga er niðurstaðan sú að CAD hafi ótvíræða kosti sem “annar læknir”, þ.e. notað á myndir eftir að myndgreiningarlæknir er búinn að skoða þær, til aðstoðar við lokagreiningu. Það sýnir sig að CAD tekur dægursveifluna af myndgreiningarlæknunum,  þ.e. frammistaða  þeirra er jafngóð hvenær vinnudagsins sem er. Það ætti bæði að geta aukið afköst og öryggi, auk þess að minnka streitu myndgreiningarlækna, a.m.k. ímynda ég mér að það sé þægilegt að hafa svona “vinnufélaga”. 

Hver verður fyrstur?
Mikilvægast virðist vera að læknarnir treysti áfram sem fastast á sjálfa sig og láti ekki CAD sveigja sig í átt að of mörgum falsk-jákvæðum niðurstöðum. Þar sem læknirinn og CAD eru ekki sammála er alltaf hægt að bera sig saman við starfsfélaga af holdi og blóði. Eftir því sem ég best veit er hvergi á Íslandi verið að nota CAD forrit, en er ekki kominn tími til?
CAD er greinilega gagnlegt fyrir brjóstamyndir og frá mínu sjónarhorni borðliggjandi að Krabbameinsfélag Íslands taki í notkun slíkt forrit um leið og starfsemi röntgendeildarinnar verður alstafræn.   
Nýlega er búið að opna vefsíðu undir yfirskriftinni „Nýtt háskólasjúkrahús við Hringbraut“  og LSH leggur mikla áherslu á hlutverk sitt sem háskóla- og hátæknisjúkrahús. Að mínu mati væri verðugt verkefni fyrir háskólashjúkrahúsið að fá myndgreiningarlækni til að kynna sér CAD til hins ítrasta og hefja í framhaldi af því  notkun slíks forrits, t.d. við CT-rannsóknir af lungum. 

Óska eftir viðhorfum annarra

Þar sem ég er geislafræðingur get ég aðeins byggt þessa grein á rannsóknaniðurstöum
#img 5 #og greinum sem birst hafa víða um heim. Vonandi er einhver fær myndgreiningarlæknir annað hvort nógu ósammála mér eða sammála til að skrifa hið snarasta grein í samræmi við það, frá sjónarhóli þeirrar stéttar sem málið snýst um. Best væri náttúrulega að fá fleiri en eina grein með mismunandi viðhorfum!

26.06.06. Edda Aradóttir edda@raforninn.is
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *