Bréf frá Osló

 
Ég heiti Bára Oddsdóttir og vinn sem geislafræðingur á Rikshospitalet i Oslo. Ég flutti hingað með sambýlismanni mínum í janúar 2003 og var ætlunin að vera hér í eitt ár og sjá svo til með framhaldið. Okkur fannst mjög fínt að búa hér, sérstaklega þegar við vorum búin að ná tökum á málinu og eignast vini sem tók nokkra mánuði. Við eignuðumst svo dóttur í janúar 2005, keyptum okkur íbúð og ákváðum að vera hér í nokkur ár í viðót.

Sérhæfing
Við röntgendeildina á Riksinum vinna um 60 geislafræðingar. Deildinni er skipt i þrennt: CT/MR, Angio og Almennt. Ég vinn við almennt, sem skiptist i lungu, gegnumlýsingu, skelett og barnaröntgen og ég vinn eiginlega bara við skelett og líkar það vel. Við erum með fjórar rtg.stofur bara fyrir skelett, enda veitir ekki af þar sem það er stór bæklunardeild á sjúkrahúsinu sem heldur okkur við efnið.

Fjölbreyttar rannsóknir
Dæmi um þær rannsóknir sem við gerum eru:
Skoliosur (hryggskekkja). Fjöldi er allt frá 2 og upp undir 20 sjúklingar á dag og oft eru sjúklingarnir með mjög mikla skekkju og eru að fara í aðgerð eða koma úr aðgerð. Dæmigerð viðbótarrannsókn fyrir aðgerðir er það sem við köllum „traksjon og press“ þar sem við togum í hendur og fætur sjúklings og þrýstum á hrygginn og reynum að rétta sem mest úr honum um leið og við tökum mynd.
Vinkilmyndir og lengdarmælingar af fótleggjum gerum við einnig og er orsök lengdarmuns og/eða skekkju á fótleggjum (valgus/varius) ýmist meðfædd eða eftir slys eða aðgerð. Ef sjúklingur er með mikinn lengdarmun á fótleggjum fer hann oft í lengingu, þar sem ýmist lærbeinið eða beinin í leggnum eru söguð í sundur og settur einskonar rammi utan um og svo er strekkt á með reglulegu millibili í ákveðin tíma meðan beinið grær. Af þessu tökum við svo myndir til að fylgjast með að lengingin verði rétt og að beinið grói rétt saman.
Einnig er mikið um mjaðmaprótesur og eitthvað af hnéprotesum.
Við fáum ekki inn mikið af slysum þ.e. beinbrotum nema þegar um er að ræða slys á höndum þar sem fingur hafa brotnað eða farið af.
Þetta eru nokkur dæmi um okkar sérhæfingu á skelett hluta röntgendeildarinnar en við tökum einnig mikið af barnamjöðmum (á skelett ekki barnartg.), gigtarrannsóknum (hendur, fætur o.fl.) og ýmsu fleira. 

Filmulaust og pappírslaust
Röntgendeildin varð filmulaus rétt áður enn ég byrjaði að vinna í janúar 2003 og núna erum við pappírslaus að því leiti að röntgenbeiðnarnar eru skannaðar inn í PACS/RIS (höfum gert það í eitt ár) en PACS og RIS er nú frá sama aðila (Sectra) og er samtengt þannig að ef við veljum sjúkling frá RIS lista, koma fyrri rannsóknir hans upp í PACS. Í vor á næsta ári verða svo allar röntgenbeiðnar rafrænar, sem beðið er eftir með eftirvæntingu, loksins getur maður lesið allt sem stendur á beiðnunum.

Sameining sjúkrahúsa
Fyrir nokkru voru Rikshospitalet og Radiumhospitalet sameinaðir og okkar sameiginlega röntgendeild fékk nafnið Bilde- og intervensjons klinikken (BIK). Það varð nú ekki mikil breyting fyrir okkur á Riksinum þar sem við héldum okkar stjórnendum (sem eru núna yfir á báðum stöðum) og það hefur heldur aldrei verið til umræðu að við myndum vera beðin um að vinna á hinu sjúkrahúsinu. Okkur var reyndar boðið að koma í skoðunarferð og taka nokkrar lungnamyndir, en það er eitt af því fáa sem við gerum líkt á sjúkrahúsunum. Við erum aðalega sérhæfð í líffærafluttningum og bæklun eins og fram hefur komið, en Radiumhospitalet er sérhæft krabbameinslækningum. Ekki er búið að finna almennilegt nafn á þessa nýju stofnun sem núna heitir Rikshospitalet-Radiumhospitalet HF (HF: Helse Foretak) en það þykir frekar langt…

Kveðja
Bára Oddsdóttir
bos@chello.no
31.10.06

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *