Bréf frá formanni FG


Ég vil láta geislafræðinga vita af því helsta sem er á döfinni þessa dagana og hvetja þá til að taka virkan þátt í starfi fagfélag síns. Félag er því aðeins sterkt að hinn almenni félagsmaður fylgist vel með og standi að baki þeim sem valdir hafa verið til forystu. Við þurfum öll að vinna saman að hagsmunamálum okkar.

Skólamál og auka félagsfundur FG

Fyrst er að nefna skólamálin. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum standa yfir viðræður milli Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands um sameiningu þessara tveggja háskóla. Þessi sameiningaráform hafa vakið upp ýmsar spurningar hjá okkur sem fagfélagi og þá helst hvaða áhrif þetta hefur á nám og menntun geislafræðinga. Við höfum boðað til félagsfundar þar sem geislafræðingum verður kynnt staða mála eins og þau horfa við okkur nú.
Mikilvægt er að sem allra flestir félagsmenn mæti á fundinn til að fylgjast með þessu miklvæga máli. Þarna skiptir engu máli hvort fólk vinnur hjá ríkinu eða í einkageiranum, á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess, menntun og nýliðun í stéttinni er okkur öllum jafn mikilvæg.
 
Kjarasamningar ríkisstarfsmanna
Annað mál er svo kjarasamningar ríkisstarfsmanna. Þann 30 nóvember 2004 eru samnningar við ríkið lausir.
Af því er helst að frétta að Bandalag Háskólamanna hefur ákveðið að fara í samflot um ákveðin atrið kjarasamnings. Er um að ræða ýmis atriði sem geta verið sameiginleg fyrir öll félögin sem að samflotinu standa en þau eru 25. Samflotið er tímabundið og sé ekkert sérstakt að gerast í þeim efnum rennur það út 30. nóvember 2004. Með þessu vonast menn til að gengið verði fyrr að samningaborðinu en ella. Búið er að skrifa undir viðræðuáætlun af hálfu félaganna og eru því viðræður næsta skref. 

Komið skoðunum ykkar á framfæri!
Kjarasamningar eru flókið mál og mikilvægt að heyra í ríkisstarfsmönnum í félaginu, um land allt. Sendið endilega inn spurningar og innlegg í viðræðurnar sem framundan eru.
Netfangið er geislar@sigl.is eða katrinsig@hotmail.com.

Vinnustaðaheimsóknir
Að síðustu má nefna vinnustaðaheimsóknirnar sem eru á döfinni og minnst var á í frétt Arnartíðinda 21. júní á þessu ári. Nú er farið að hausta og tökum við Alda til óspilltra málanna hvað varðar þessar skipulögðu heimsóknir. Við hlökkum til að sjá ykkur öll!

Bestu kveðjur.
Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags Geislafræðinga. 

Unnið 20.09.04 Edda Aradóttir.
    

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *