Þegar ég las grein í Mbl í vikunni um úttekt landlæknis á LSH eftir sameiningu sá ég
#img 1 #að margir töldu sig búa við þær aðstæður að geta ekki gagnrýnt sitt starfsumhverfi.
Þessi bleika hönd er máttur sem verður til í flestum stórfyrirtækjum og nánast öllum opinberum rekstri. Séð frá starfsmönnum þá er af mikilli nákvæmni komið í veg fyrir að menn hafi teljandi áhrif á sitt næsta starfsumhverfi, en það er einmitt undirstaða þess að geta verið stoltur í starfi. Í opinberum rekstri eins og heilbrigðisstofnunum gildir þetta oft um alla starfsmenn og þá ekki síður stjórnendur sem litlu fá ráðið.
Hamingusamasta fólkið í þessu umhverfi er það sem á sér tómstundagaman sem gefur því útrás fyrir sinn metnað. Óhamingjusamastir eru oft þeir sem hafa mestan faglegan metnað, því þeir ganga allsstaðar á veggi þegar þeir vilja svala sínum metnaði.
Þegar ég spurði fyrrverandi landlækni um ástæður þess að mörgum metnaðarfullum einstaklingum farnaðist illa innan háskólasjúkrahússins sagði hann ”Þetta er í veggjunum hjá þeim“.
Þessi bleika krumla sem kemur í veg fyrir nauðsynlega frjálsa tjáningu innan LSH á sér rætur í gjörúreltu rekstrarformi. Heilbrigðisrekstur sem rekinn er í rassvasanum á fjármálaráðuneytinu sem jafnframt er heilbrigðistryggingarfélag okkar allra getur ekki keppt við nútíma rekstur.
#img 2 #
Eftirminnilegustu og þekktustu lýsingar allra tíma á þessu fyrirbrigði voru í bresku sjónvarpsþáttunum Já ráðherra, þar sem sýnt var hvernig vilji bleiku handarinnar varð til í samspili stjórnmálamanna, embættismanna, fjölmiðla og gamalla hefða.
Framfarir í læknavísindum og aukin auðlegð í okkar heimshluta valda því að sífellt stærri hluti heilbrigðisrekstrar fer úr gamaldags spítalaumhverfi í nútíma þjónustuumhverfi þar sem fókusinn er á markvissri þjónustu við viðskiptavininn og markvissri umhyggju fyrir metnaði starfsmanna.
Eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu eykst hratt þessi árin og ekki útlit fyrir breytingu á því. Heilbrigðisreksturinn er því einn dýrmætasti atvinnuvegur okkar þjóðar, ekki bara vegna þess að hann hjálpar sjúkum heldur vegna þess að hann er stór og vaxandi þáttur í hagkerfinu. Ef heilbrigðisgeirinn fengi eðlilegt frelsi til athafna og þann sess sem honum ber yrði hann mikil auðsuppspretta fyrir land og þjóð.