Betra efni í svuntur?

Kynnt hefur verið nýtt efni sem ver gegn geislun. Það ætti meðal annars að henta í hlífðarfatnað áþekkan blýsvuntunum, sem allir myndgreiningarstarfsmenn kannast við, en með marga kosti fram yfir þær.

Fyrsta október á síðasta ári kynnti fyrirtækið Radiation Shield Technologies (RST) þetta nýja efni sem framleitt er undir vöruheitinu Demron. Fyrirtækið stefnir greinilega fyrst og fremst á hernaðarmarkaðinn í Bandaríkjunum og býður heilgalla sem eiga að verja gegn Alfa-, Beta-, Röntgen- og gammageislun. Lögð er áhersla á notagildi Demron fatnaðar í tengslum við kjarnorkuslys og hermdarverk en einnig er minnst á að efnið henti vel í hlífðarsvuntur fyrir myndgreiningarstarfsmenn.

Mikil þróunarvinna
Í apríl birtist grein í tímaritinu „Scientific American“ um Demron og manninn að baki efninu, Dr. Ronald F. DeMeo, sem er svæfingalæknir og gerir mikið af deyfingum vegna bakverkja og verkja í hálsi. Til staðsetningar við slíkar deyfingar þarf að nota röntgenmyndatöku eða skyggningu og Dr. DeMeo var víst orðinn verulega leiður á blýsvuntunum. Hann fékk því til liðs við sig efnafræðinga og sérfræðinga í framleiðslu efna í hlífðarfatnað sem fengu það verkefni að þróa léttara og sveigjanlegra efni sem hlíft gæti gegn geislun. Til að fjármagna og halda utan um þessa vinnu stofnaði Dr. DeMeo síðan RST.

Efni með marga góða eiginleika
Eftir þrotlausar rannsóknir varð til fjölliða úr polyurethan og polyvinilchloride með blöndu af kristöllum úr lífrænum og ólífrænum söltum með háa atómtölu. Efnið lítur út líkt og gúmmí og er svipað því viðkomu. Bæði er hægt að framleiða þunnan dúk og steypa það í mót en til notkunar í fatnað er Demron dúkur settur á milli tveggja laga af öðru efni, líkt og blý í blýsvuntu. Munurinn er þó sá að Demron á að vera mun sveigjanlegra, léttara og hleypa miklu betur út hita en efnið í blýsvuntunum. 

Rannsóknir og frekari þróun
Niðurstöður tveggja rannsókna á efninu benda til þess að þessar fullyrðingar geti staðist en ekki er búið að rannsaka hversu vel það þolir langtímanotkun í jónandi geislun. RST hefur nú tekið upp samstarf við fyrirtæki sem heitir Kappler og framleiðir efni í hverskyns hlífðarfatnað. Í sameiningu ætla þessi tvö fyrirtæki að halda áfram að þróa Demron og er aldrei að vita nema innan tíðar leysi laufléttar, svalar og þægilegar flíkur gömlu blýsvunturnar af hólmi. 

21.07.03 Edda Aradóttir. 
Uppfært 01.09.03 EGA.

          

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *