Bendiforrit – CADe.

#img 1 #Í síðustu viku spurði ungur geislafræðingur mig út í bendiforrit, Computer Aided Detection – CADe. Síðasta grein sem ég skrifaði um slík forrit birtist fyrir tveim árum og í raun hafa ekki orðið stórar breytingar síðan þá. Ýmsar rannsóknaniðurstöður hafa þó birst nýlega og er full ástæða til að skoða einhverjar þeirra.

Bendiforrit og úrlestrarforrit.
Það fyrsta sem þarf að vara sig á þegar leitað er upplýsinga um CAD er að það getur táknað tvær mismunandi gerðir forrita: Bendiforrit (Computer Aided Detection) og úrlestrarforrit (Computer Aided Diagnosis). Bendiforritin eru stundum táknuð með CADe og úrlestrarforritin með CADx. Oft er þó aðeins hægt að ráða af samhenginu um hvora gerðina er verið að fjalla en mun meira hefur verið fjallað um bendiforrit og eru þau lengra komin á þróunarbrautinni.
Áðurnefndur ruglingur er nógu slæmur en við hann bætist að sumir kalla forritin Computer Assisted Detection/Diagnosis.
Hér verður eingöngu fjallað um bendiforrit og þau táknuð með skammstöfuninni CADe. Bendiforrit leita að grunsamlegum þéttleikamun í röntgenmyndum og merkja staðina til að benda röntgenlæknum á að þarna þurfi að skoða sérstaklega vel. Alfræðivefurinn Wikipedia býður upp á lýsingu á CADe eins og svo mörgu öðru.

#img 2 #
Mammó CADe.
Mest vinna hefur verið lögð í CADe forrit fyrir brjóstamyndir og í þeim flokki myndgreiningar hafa þau átt mestri velgengni að fagna. Erlendis eru þau nokkuð víða í notkun en ekki hjá Krabbameinsfélagi Íslands, a.m.k. ekki enn sem komið er.
Mikið hefur birst af rannsóknaniðurstöðum sem benda til þess að CADe skili aukinni næmni í leit að krabbameini í brjóstum en í mörgum tilvikum hækkar einnig hlutfall falsk-jákvæðra svara. Helstu not fyrir CADe eru að láta það koma í stað röntgenlæknis nr. 2 (second reader) við úrlestur og nýlega birtist vísindagrein um samanburðarrannsókn á læknum og CADe.


#img 3 #Lungu og ristill.

Í öðrum flokkum myndgreiningar hafa CADe forrit meðal annars skilað marktækum árangri í tölvusneiðmyndarannsóknum af lungum, bæði í leit að krabbameinum og blóðtöppum, og auk þess sýndar-ristilspeglun (virtual colonoscopy) sem einnig er gerð með tölvusneiðmyndatækni.
Hvað ristilrannsóknirnar varðar voru fyrstu CADe forritin gerð til þess að leita uppi sepa (polyps) í ristli, en flest ristilkrabbamein eiga upptök sín í sepum. Nú er í gangi þróun á CADe sem leita að “flötum” krabbameinum í
#img 4 #ristli og er þar unnið út frá árangrinum sem náðst hefur í CADe fyrir hópleitarmyndir af brjóstum.


#img 5 #Vinna í gangi í öðrum flokkum.

Talsvert hefur verið unnið með CADe forrit fyrir hefðbundnar lungnamyndir og þróunarvinna er í gangi fyrir ýmsa aðra flokka myndgreiningar, t.d. í ómskoðun og segulómun, MRI.

Lýsi eftir betri grein.
Fyrir tveim árum endaði ég greinina um CADe forrit með því að láta í ljósi þá von að einhver góður röntgenlæknir mundi skrifa lærðari grein um efnið en ég get gert. Mér varð ekki að ósk minni í það skiptið en ef til vill gengur betur núna.

26.05.08 Edda Aradóttir  edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *