Beinþynning

Nýlega var starfsfólki FSA kynnt það nýjasta sem General Electric hefur upp á að bjóða varðandi beinþéttnimælingar. Það leiðir hugann að beinþynningu almennt, orsökum, greiningu og meðferð.

Beinþynning er algengur sjúkdómur en fæstir vita að þeir eru með hann. Framvinda hans er sú að hin harða ytri skurn beinanna þynnist og eins gisnar frauðbeinið fyrir innan. Að lokum eru beinin orðin svo stökk og viðkvæm að þau brotna við lítinn áverka. Þetta þekkir allt myndgreiningarfólk og hefur tekið ótal myndir af slíkum brotum.

Grunnupplýsingar
Að öðrum ólöstuðum hefur dr. Gunnar Sigurðsson verið í fararbroddi þeirra sem rannsaka beinþynningu og má finna góðar grunnupplýsingar um flest sem að sjúkdómnum snýr í grein eftir hann í Læknablaðinu frá 2001.

DEXA beinþéttnimæling mikilvæg

#img 1 #Vegna þess að sjúkdómurinn er einkennalaus þar til brotastigi er náð leikur beinþéttnimæling stærsta hlutverkið í að greina hann áður en í óefni er komið. Ekki er hægt að greina sjúkdóminn með blóðrannsókn, en hún er hins vegar nauðsynleg þegar verið er að leita að orsökum sjúkdómsins. Á venjulegri röntgenmynd greinist beinþynning ekki nema hún sé á háu stigi.
Hægt er að gera beinþéttnimælingar með tölvusneiðmyndatækjum og í grein eftir dr. Björn Guðbjörnsson, dósent, á vef Beinverndar, segir hann þá aðferð e.t.v. allra nákvæmasta, sérstaklega til að meta neikvæð áhrif lyfja á beinbúskapinn. Íslenskir vísindamenn hafa rannsakað beinþéttni í hrygg með tölvusneiðmyndatækni og reiknað út viðmiðunargildi fyurir íslenskar konur. Hugbúnaður sem byggir á þessum niðurstðum er í notkun í Röntgen Domus. Rannsóknir Hjartaverndar sem eru hluti af AGES verkefninu eru gerðar með tölvusneiðmyndatæki og DXA hælmælitæki.
Hælmælitækin, sem margir kannast við, eru litlar og hraðvirkar ómsjár sem eru ódýrar og henta vel til að mæla margt fólk á stuttum tíma. Á vef Beinverndar segir að ef þessir mælar gefi þá niðurstöðu að einstaklingur sé með góða beinþéttni sé engin ástæða til að gera nákvæmari mælingu að svo stöddu. Ef hælmælingin gefur hinsvegar til kynna lélega beinþéttni er mælt með því að einstaklingurinn fari í nákvæma mælingu, annað hvort á LSH í Fossvogi eða Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

Fjöldi rannsókna
Undanfarin ár hafa um 2000 einstaklingar komið í almenna beinþéttnimælingu hjá LSH í Fossvogi en 300 – 500 á FSA. Ekki er vitað hvað margir hafa komið í Röntgen Domus. Auk þessa eru á LSH og FSA gerðar mælingar vegna vísindarannsókna. Sem dæmi um það má benda á greinina “Linkage of Osteoporosis to Chromosome 20p12 and Association to BMP2” en þar eru birtar niðurstöður rannsóknaverkefnis í samstarfi LSH, Íslenskrar erfðagreiningar og Center for Clinical and Basic Research A/S, í Danmörku.

Nákvæm tækni í stöðugri þróun
Bæði hjá LSH og FSA eru notuð DEXA (Dual Energy X-ray Absorbtiometry) mælitæki sem mæla dofnun röntgengeisla með hárri og lágri fótónuorku, þegar þeir fara í gegnum líkamsvefi. Tveir misorkuríkir geislar eru sendir hvor á eftir öðrum og borið saman hversu mikið þeir dofna á leið sinni í gegnum einstaklinginn. Því minna geislamagn sem fer í
#img 3 #gegnum beinið því meira er steinefnamagnið. Það er gefið upp í einingunni g/cm2 og endurspeglar venjulega beinþéttnina.
Eins og í öðrum flokkum myndgreiningar er þróunin í gerð beinþéttnimæla hröð og í kynningu sinni á FSA vakti Seppo Kahlos, frá GE, sérstaka athygli á hversu notendaviðmót er orðið einfalt og þægilegt á nýjustu beinþéttnimælunum. GE hefur líka þróað  mikilvægar nýjungar eins og CAD Computer-Assisted Densitometry og endurbætt mælitækni við mat á mjöðmum með því að bæta stærðarmælingum við beinþéttnimælingarnar.
Geislaálag er einnig minna en af eldri mælum, og var það þó sáralítið fyrir, ásamt því að víðtækari niðurstöður fást á álíka löngum rannsóknatíma. Upplýsingar um þetta er að finna á vefsíðu General Electric og einnig má benda á rannsóknaniðurstöður í skjali frá Guðmundi Hreiðarssyni, deildarstjóra hjá Heklu/GEM.

Allir þurfa að vera á verði

#img 2 #Óhætt er að segja að beinþéttnimæling sé einföld og þægileg aðferð til að fylgjast með ástandi beina og full ástæða fyrir alla að íhuga hvort þeir þurfi á slíkri mælingu að halda. Yfirlit um helstu orsakir og áhættuþætti er til dæmis að finna á vef Beinverndar en ástæða er til að benda karlmönnunum sérstaklega á að beinþynning er ekki bundin við konur. Þeir ættu skilyrðislaust að lesa greinina “Beinþynning og karlar” og einnig „Brothættir karlar„.

Klínískar leiðbeiningar
Landlæknisembættið hefur gefið út klínískar leiðbeiningar “Beinþynning (greining og meðferð)” og einnig “Beinþynning af völdum sykurstera”. Þar eru mjög vandaðar
#img 4 #upplýsingar fyrir fagfólk og ætti myndgreiningarfólk að finna þar notadrjúg svör við eigin spurningum og annarra. Fólk sem kemur í myndgreiningarrannsóknir, sérstaklega vegna beinbrota, er oft að velta fyrir sér ýmsu varðandi ástand beina og þá er mikilvægt að geta gefið greinagóð svör og bent á leiðir til frekari rannsókna. Vekja má athygli á að ekki er lengur mælt með notkun tíðahvarfahormóna og má einnig finna upplýsingar um það á vef Lyfjastofnunar.

Við eldumst öll
Ýmsir þættir geta valdið beinþynningu en áhættan eykst með hækkandi aldri. Eitt af því
#img 5 #sem ég rakst á við efnisöflun í þessa grein er risavaxin skýrsla frá heilbrigðisráðuneytinu um stefnumótun í málefnum aldraðra, til 2015. Þetta er gríðarlegt lesefni en margt áhugavert að finna um forvarnir og heilsufar, þar sem beinþynning kemur við sögu, en einnig er athyglisvert að skoða til dæmis kaflann um atvinnumál og efnahag. Við eldumst nefnilega öll…

15.11.04 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *