Barnaröntgen

Mig langar að segja stuttlega frá því sem ég hef tileinkað mér síðustu 10 árin. Þetta er ekki byggt á rannsóknum eða fræðum og ég hef ekki aflað mér sérmenntunar á sviði barnaröntgen, ég er bara svona mikið barn í mér og það sem ég segi hér er bara mín skoðun og reynsla. Barnaröntgen, er það eitthvað öðruvísi en annað röntgen? Ég verð að segja já, því að þegar verið er að mynda börn þá þarf að hafa þolinmæði, mikla þolinmæði og stundum meira en þú heldur að þú eigir af henni.
Mér finnst óskaplega gaman að mynda börn því þau eru svo skemmtileg og vinnan skemmtileg. En eins og í öllu þá fylgja því stundum erfiðleikar.

Barnaröntgenstofan á nýjan stað
Í desember 2003 var Barnaröntgenstofa LSH flutt á nýjan stað og er hún á sama gangi og bráðamótaka barna á Barnaspítala Hringsins. Það er mjög ánægjulegt að vera í svona nýju húsnæði og geta gert stofuna skrautlega og barnvæna. Við erum einnig í mikið meiri tengslum við starfsfólk barnaspítalans og er það að mínu mati bara til bóta. Upplýsingar um sjúklinga skila sér betur til okkar og er oft mun auðveldara fyrir okkur að taka tillit til sérþarfa barnanna. Tölvutæknin hefur einnig komið sér vel, breyttar aðstæður við myndvinnslu auðveldar okkur samskipti við röntgendeildina og röntgenlæknana og án Inpaz kerfisins væri þetta ekki hægt.

Hvað er öðruvísi við börnin?
Nú ætla ég bara að tala um samskipti við börnin ekki rannsóknir eða á hvaða hátt þær eru frábrugðnar.
Það sem rétt er að hafa í huga er að barn er ekki bara lítill sjúklingur, hann er sjúklingur með foreldrum sem einnig þarf að taka tillit til. Hann hefur oft ekki aldur til að skilja hvað á að gera og sjaldnast vill hann vera hjá okkur. Hann skilur ekki af hverju hann hefur ekki val.

Undirbúningur er mikilvægur
Þegar börnin koma til okkar þá eru þau oftast ekki slösuð þau eru bara veik, eða hafa verið veik.
Ég útskýri fyrir foreldrunum að það er kostur að börnin gráti þegar verið er að taka af þeim lungnamyndir ( þegar börnin eru það ung að þau kunna ekki að draga að sé andann), því þá er líklegra að við náum mynd af þeim í innöndun, þetta finnst þeim oftast merkilegt og þau verða rólegri þó að þau gráti.
Það sem ég reyni alltaf að hafa í huga þegar ég tek á móti barni í röntgen er að ná sambandi við barnið. Ég beygi mig niður til þeirra fer niður á hné ef með þarf og heilsa þeim og reyni að vera í augnhæð við þau. Oftast byrja ég á því að heilsa barninu af því það er númer eitt síðan heilsa ég foreldrum. Því næst útskýri ég fyrir barninu og foreldrunum hvað á að gera. Það liggur í hlutarins eðli að það er misjafnt hvað rannsóknir taka langan tíma og hvað þarf mikið að útskýra hvernig þær fara fram.
Ég verð að viðurkenna að það er ekki alltaf sem ég segi barninu allan sannleikan um það hvernig rannsóknin fer fram því sumt er betra að láta ósagt.
Það er þó rétt að reyna að undirbúa barnið eins vel og hægt er útskýra fyrir því hvað er ætlast til af því. Við reynum að hafa dót og annað tiltækt fyrir börnin til að dreifa huganum. Útskýra fyrir þeim ljósið, hávaðann í tækinu og þó að við séum að nota geisla þá er ekkert sem kemur við þau, ekkert sem þau finna fyrir og ekkert til að vera hrædd við. Þetta geri ég til að minni hætta sé á að þeim bregði við þegar myndatakan hefst.

Hvað er hægt að tala um?
Þó svo að við séum með dót til að dreifa huganum hjá börnum, þá er einnig gott að hafa eitthvað að tala um við þau og er þá ýmislegt sem hægt er að ræða um.
Gott er að reyna að taka eftir hvort börnin eru í fötum merkt ákveðnu fótboltaliði íslensku eða erlendu þá er oft hægt að ræða um fótbolta við þau. Einnig er hægt að tala um annað sem fötin eru merkt til dæmis Barby, Bratz, Baby Born, Bubbi byggir, Solla stirða og Íþróttaálfurinn. Bangsímon og vinir hans eru í sérstöku uppáhaldi hjá okkur og nýjustu teiknimyndapersónunum er gott að kunna skil á og svona væri lengi hægt að telja áfram.
Það má segja að maður þarf að vera svolítið vakandi fyrir því sem er vinsælast hjá börnunum hverju sinni, og hafa umræðuna við hæfi aldurs barnanna.
Á sumrin er hægt að ræða um sólina, sumarið, sumarfríið. Á veturna er hægt að ræða leikskólann, skólann, snjóinn, eða hvað sem er. Í seinnihluta nóvember og fram í janúar er hægt að ræða um jólin, jólasveinana og allt sem viðkemur jólunum hvað þau vilja í jólagjöf, hvað þau fengu í jólagjöf og þannig er hægt að halda áfram endalaust. Þessi tími er yfirleitt sá auðveldasti að finna umræðuefni.
Eldri börnin eru oft spennt að fá að sjá röntgenmyndirnar að sér.

A ð hleypa barninu í sjálfum sér út
Það hefur hjálpað mér mikið að geta rætt við börnin svolítið á þeirra plani. Það sem ég geri er að hleypa barninu í mér út, það er að vera ekki feimin við að vera svolítið barnaleg í mér án þess að ganga of langt. Það er örugglega oft sem foreldrar ( og starfsfólkið líka) halda að maður sé léttruglaður þegar ég er að tala við börnin því ég er óhrædd við að vera barnaleg við þau yngstu.
Að vera foreldri er það stórkostlegasta í heimi og ekkert barn er sætara eða betra en þitt eigið barn. Þetta verðum við að hafa í huga þegar foreldrar koma með börnin sín í myndatöku að hrósa barninu við foreldrana láta þau finna að þetta barn, barnið þeirra er það flottasta og besta. Einnig er nauðsynlegt að hrósa barninu óspart segja því að það sé þægasta og duglegasta barnið í dag, jafnvel þó að þetta sé nú ekki alveg rétt, það þýðir nú ekki að vera með einhverja smámunasemi í þessu máli.

Ég hef óskaplega gaman af vinnunni og hún gefur mér mikið.
Öll börn eru frábær en þau eru bara misjafnlega frábær.
Ég held að ég láti hér staðar numið að þessu sinni.

Anna Dóra Pálsdóttir. Yfirgeislafræðingur á barnaröntgenstofu LSH.
06.06.06

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *