Áramótahugleiðing

Um frelsið
Við lifum á tímum tækifæranna. Nánast ekkert er ómögulegt mannlegu atgervi ef frelsi andans er í heiðri haft.
Grundvöllurinn er það afl og sveigjanleiki sem frelsi hugans skapar þeim sem við það búa.
Aðeins á þessum grunni frelsis geta menn mætt áskorunum hvers dags með eftirvæntingu sigurbros á vör. Mannleg samskipti verða að vera greið, heiðarleg og traust því annars spírar óttinn og svikin sem eru óvinir allrar sköpunar og framfara.

Hin eilífa barátta
Okkar forfeður og mæður við upphaf Íslandsbyggðar voru ýmist að leita frelsis eða höfðu nýlega verið hneppt í þrældóm.
Frelsið var hátt skrifað af víkingum og þótti heiður að deyja í bardaga en aumt að missa sitt frelsi og halda lífi.
Þetta frelsisviðhorf hefur lengst af verið ríkjandi í okkar menningu. Það byggir ljóslega á allt öðrum og trúarlegri grunni en nytjafrelsi John Stuart Mill sem okkur er tamast í dag.
Í okkar „fögru veröld“ eru margir sem vilja stýra okkar hugsunum og þar með neyslu. Fátt er sem sýnist. Nútíma stjórnmálamönnum í vestrænum þjóðfélögum þar sem borgurunum hefur verið tryggt frelsi í stjórnarskrá eftir langa og erfiða baráttu, er býsna tamt að koma á undantekningarástandi, til að fá heimildir til að hefta einstaklingsfrelsið sem mest þeir mega. Möguleikum til persónunjósna og eftirlits með einkalífi fólks fjölgar líka stöðug án þess að almenningur fái rönd við reist.

Maðurinn er ætíð einn í helli sínum
Við verðum hvert og eitt alltaf að leitast við að breyta aðstæðum okkar í það horf sem við teljum best. Þetta þýðir að sjá sóknarfæri í hverri stöðu. Menn verða að forðast þröngsýni og eiginhagsmunahyggju, sem takmarkar stjóndeildarhringinn við eiginn rass. Í staðinn fyrir að fylgja blint annarra forskrift, þurfum við að skapa eigin veruleika alla daga.

Vinnan og fjölskyldulífið
Samþætting vinnu og fjölskyldulífs er eitt flóknasta viðfangsefni vorra tíma. Fjarskiptatæknin gefur okkur frelsi til að vinna mörg verk óháð stað og tíma.
Álagspunktar í einklífi og vinnu fara síðan stundum vel saman, en stundum illa. Þá reynir á sveigjanleika og hugmyndaauðgi á öllum vígstöðvum. Menn verða að læra að njóta þessara möguleika í botn og vinna að mörgum málum samtímis bæði á vettvangi einkalífs og atvinnu.
Okkar stefna hefur verið að veita starfsfólki fullt frelsi til að stjórna þessari samtvinnun, því enginn nema einstaklingurinn sjálfur getur metið forgangsþörf einstakra þátta í fjölskyldulífi og vinnu. Menn verða hvern dag að verja sitt og annarra frelsi bæði á vinnustaðnum og innan fjölskyldunnar því allir verða að forðast þrönga sérhagsmuni stjórnmála-, trúfélaga og ýmissa ofbeldishópa samtímans.

Hvaðan kemur velmegunin?
Krafa dagsins um svokallaða velmegun kallar á verðmætt seljanlegt vinnuframlag hvers einstaklings, sem þýðir að menn verða að hafa brennandi áhuga á vinnunni ásamt þekkingu og úthaldi til frjórrar sköpunar.
Þetta þýðir líka að vinna verður að vera uppspretta andlegrar velmegunar ekki síður en veraldlegrar.
Fyrirtækin verða að skapa öllum aðstæður til að geta verið stoltir af sínu starfi. Það eru ekki til góð eða slæm verkefni, bara vel eða illa unnin verk.
Á öllum vígstöðum þarf fólk að vera í góðu jafnvægi og geta tekið ákvarðanir sem leysa mál, fremur en flækja. Ákvörðunarhraðinn þarf að vera mikill, því fátt er verra andlegu frelsi en vera fastur í óreiðuflækju óleystra mála. Oft sækir að fólki spurningin um hvort menn eigi að berjast eða flýja. Samkvæmt okkar menningu gefur bardaginn að jafnaði miklu meira í aðra hönd en flóttinn, þótt freistandi sé.

Ofbeldi umboðsmanna guðanna
Opinber alþjóðleg umræða um trúmál hefur vaxið ótrúlega undanfarin ár. Stríðsátök kristinna og múslíma hafa orðið sífellt tilþrifameiri og ofbeldi gegn saklausu fólki umsvifameira.
Hér hafa fylgendur manngildishugsjóna, sem oft áður, orðið að endurskoða afstöðu sína til umboðsmanna hinna guðlegu afla, sem í flestum tilfellum eru einhverskonar ofbeldisstofnanir, þar sem fókusinn er á verndargjöldin og völdin rétt eins og hjá mafíunum. Viðtekin gildi þjóðfélaga sveiflast rétt eins og loftslagið og geta fyrr en varir skroppið í fortíðarfar þótt ótrúlegt megi virðast. Hér stöndum við Íslendingar á herðum þeirra andlegu stórmenna, sem lögtóku kristni án blóðsúthellinga þegar kristið illþýði hótaði að myrða syni nokkurra framámanna þjóðarinnar ef menn lögtækju ekki kristna trú. Þessum arfi þarf að miðla nýjum þegnum landsins.

Goðgár samtímans
Þá er fylgjendur Múhameðs ærðust vegna danskra skopteikninga í lok árs 2005, var grátbroslegt að muslimar í Danmörku gátu kært gerendur á grundvelli úreltra danskra laga um guðlast. Þetta og fleira hefur nú í lok þessa árs leitt til þess að Evrópuráðið hvetur til þess að lög um guðlast verði felld úr gildi í aðildarlöndunum, en tjáningarfrelsið verði haft að leiðarljósi. Það er nefnilega ótrúlega stutt síðan að kristna kirkjan var versta ógnin við frelsið og mennskuna í okkar heimshluta meðan hún réði því sem hún vildi um lagasetningu. Kikjan píndi og niðurlægði mannsandann sem mest hún mátti, rétt eins og gerist í múslimalöndum samtímans.

Þjóðkirkjan, frelsi og mannréttindi
Á heimavelli hefur verið magnað að sjá Alþingi gefa þjóðkirkjunni margra ára aðlögunartíma til að falla frá mannréttindabrotum gegn samkynhneigðum. Skrif hatramra kirkjuhöfðingja og opinber viðtöl við þá um þessi mál hafa síðan dregið fram andlit á ríkiskirkjunni sem flestir héldu að einungis væri til í sértrúarsöfnuðum sem ærðir menn og misyndisfólk af ýmsu tagi stendur að. Baráttan um börnin gæti orðið næsti þáttur í þessu leikriti.

Hvað er framundan á nýju ári?
Með aukinni velsæld þá vex áhugi fólks á heilsu og vellíðan. Kröfur til heilbrigðisþjónustunnar fjarlægjast hratt fornar nauðþurftarkröfur og nálgast þess í stað væntingar sem gerðar eru til þjónustu sem keypt er vegna þess að menn hafa áhuga eða trú á henni umfram annað sem í boði er, en ekki vegna þess að menn eigi ekki annarra kosta völ. Þessari eftirspurn þarf heilbrigðiskerfið að svara með skýrum hætti.
Miklar vonir eru bundnar við nýjan heilbrigðisráðherra. Hans yfirlýsingar gefa fyrirheit um aukið frelsi til framfara innan heilbrigðisgeirans. Við verðum að vona að rekstraraðilar bregðist hart við og gangi eftir efndum fyrirheitanna með tillögum að myndarlegum verkefnum.

Það má ekki seinna vera
Þetta gerist á ögurstundu, því aukið frelsi í heilbrigðisgeiranum er undirstaða þess að nauðsynlegar framfarir verði, þannig að greinin fái að taka eðlilegan þátt í athafnalífi landsins. Gerist það ekki er líklegast erlend fyrirtæki sjá okkur fyrir mikilvægum þáttum heilbrigðisþjónustu innan tveggja áratuga.
Margt bendir til að sátt um að menn greiði eftir getu og fái eftir þörfum sé besta módelið sem völ er á í heilbrigðistryggingum. Það er því mikilvægt að stjórnmálamenn snúi sér að þróun almannatrygginganna og réttindum sjúkra, en láti frjálsum aðilum eftir framleiðslurekstur innan heilbrigðiskerfisins.

Staða myndgreiningar
Myndgreingargeirinn á Íslandi er nokkuð vell búinn undir breytta tíma. Þar eru ýmiskonar rekstrarform og mikil gróska á mörgum sviðum eins og sést ef menn fletta Arnartíðindum.
Mikið er þó óunnið ekki síst á þeim sviðum sem snúa að sameiginlegum hagsmunum myndgreiningar í landinu.
Nútíma fyrirtæki þurfa að sjá allan heiminn sem markað. Við hjá Raferninum höfum á síðustu árum leitað eftir verkefnum og tengslum utan Íslands og orðið nokkuð ágengt. Við höfum lagt áherslu á þróun gæðamælingaþjónustu um vefinn og ráðgjöf við verkefni í þróunarlöndum. Við höfum fengið verkefni sem eru nægilega stór á okkar mælikvarða, en enn er óljóst hvað þetta getur gefið af sér til lengri tíma. Upphafskostnaður er mikill og samkeppnin hörð, en margt lærist af því að reyna fyrir sér á nýjum sviðum. Með þeirri tækni sem nú býðst getur íslensk myndgreining nýtt sóknarfæri víða um heim.

Spennandi verkefni framundan
Um áramót eru framundan nokkur mjög metnaðarfull íslensk verkefni í myndgreiningartækni, en þar eru verkefni Krabbameinsfélagsins lang stærst.
Af erlendum verkefnum vil ég sérstaklega nefna spennandi ný verkefni sem við erum að vinna að í Japan og Afríku.
Í Japan eru yfirmenn rannsóknar sem notar 30 segulómtæki til að gera umfangsmikla Alzheimer-rannsókn að meta hvort nota eigi hugbúnað frá Image Owl til reglubundinna mælinga á tækjunum. 
Í verkefni sem unnið er fyrir MCTA Í Ghana í Afríku er verið að leggja lokahönd á ráðgjöf vegna uppbyggingar á stafrænni myndgreiningu sem nota á við lokaprófanir á bóluefni gegn malariu, sem verður sennilega það fyrsta sem fer á almennan markað. Ráðgjafarverkefnið hefur staðið síðan í mars 2007 og nær til 10 staða í 7 löndum, en framkvæmdir í Afríku fara vonandi af stað á fyrri helmingi næsta árs.

Bestu þakkir
Ég þakka viðskiptavinum og starfsfólki fyrir ótrúlega lærdómsríkt og gefandi samstarf á liðnum árum og óska öllum farsældar á nýja árinu.

1. janúar 2007
Smári Kristinsson
  smari@raforninn.is      

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *