Ár apans

 
Eitt af verkefnum Rafarnarins tengist Kína og það er alltaf eitthvað heillandi við ríkið stóra í austri. Samkvæmt fornu tímatali Kínverja er ár apans um það bil að hefjast.

Reyndar fylgjast árin 2004 eftir Krist og ár apans undir trénu ekki nákvæmlega að. Ár apans hefst 22. janúar næstkomandi og því lýkur 8. febrúar 2005. Hlutur trésins í nafngiftinni kemur til af fjölbreytileika kínversku stjörnuspekinnar þar sem dýrahringurinn er grunnurinn en öfl vatns, trés, elds, jarðar og málms hafa einnig áhrif. Yin og yang, sem verulega einfaldað má segja að standi fyrir hið kvenlega og karllega, koma líka við sögu. Næsta ár er yang ráðandi þannig að segja má að apinn undir trénu sé karlkyns.

Hvernig verður ár apans?
Spá fyrir komandi ár gerir ráð fyrir að ýmislegt sem oft er tengt staðlaðri mynd karla verði yfirgnæfandi. Þetta verður ár átaka, herkænsku, framkvæmda og breytinga. Ár til að taka áhættu, ár til að sigra. Ár til að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og láta drauma sína rætast… jafnvel með því að nota blekkingar og bolabrögð. Þess vegna er líka nauðsynlegt að hafa varann á því ekki eru öll öfl jafn góð sem verða á sveimi. Fyrirtæki blómstra og viðskiptavitið nýtur sín ásamt hæfileikanum til að leysa af hendi krefjandi verkefni. Á næsta ári þrífast þeir best sem njóta lífsins í rammflæktum regnboga ótal lita þess óvænta en skelfing bíður þeirra sem vilja hafa allt svarthvítt, einfalt og fyrirsjáanlegt.
Síðast ríkti samspil apans, trésins og yang árið 1944… þarf að segja nokkuð fleira?

Fyrir hverja verður árið best?
Önnur merki hins kínverska dýrahrings eru hani, hundur, svín, rotta, uxi, tígur, kanína, dreki, snákur, hestur og geit. Samkvæmt stjörnuspekinni ráðast persónueinkenni fólks af því á ári hvaða dýrs það er fætt, svipað og oft er talið gilda um stjörnumerkin (bogmann, steingeit o.s.fr.) sem algengari eru hér á landi. Fyrir næsta ár er spáin best fyrir snákana, t.d. þá sem fæddir eru á árunum 1929, 1941, 1953, 1965, 1977, 1989 og 2001. Rottur og drekar eiga líka býsna gott ár í vændum en þar má nefna sem dæmi um fæðingarár 1924, 1928, 1936, 1940, 1948, 1952, 1960, 1964, 1972, 1976, 1984, 1988, 1996 og 2000.

Viltu eignast „apabarn“?
Sumir Kínverjar taka stjörnuspekina með í reikninginn þegar þeir taka ákvörðun um barneignir og ef til vill fæðast ekki jafn mörg börn í Kína á næsta ári og önnur ár. Það þarf nefnilega býsna kjarkaða foreldra til að óska sér „apabarns“. Fólk fætt á ári apans er að vísu yfirleitt mjög greint og hefur sérstaklega gott minni. Þetta eru heillandi athafnamanneskjur sem vilja helst aldrei vera kyrrar og þola illa dauðan tíma. Apar eru mestu nautnaseggir og geta lent í vandræðum vegna offitu, taumleysis í samskiptum við hitt kynið, óhóflegrar áfengisnotkunar eða eiturlyfjaneyslu. Apafólk varðveitir leyndarmál mjög vel þó það tali öll lifandis ósköp. Þessi óskapa kjaftavaðall og endalausar útskýringar getur farið í taugarnar á öðrum og það er ekki auðvelt að umgangast apana. Þeir eiga það til að setja sig á háan hest yfir þeim sem ekki hafa til að bera sömu yfirburðagreindina og tölvuminnið og þeir sjálfir, og einnig eru flestir apar athyglissjúkir og þurfa allsstaðar að vera miðpunkturinn í öllu. Apamanneskja er alltaf lífið og sálin í hverjum hóp og engir kunna betur að skemmta sér en þeir sem fæddir eru á ári apans. Afleiðingarnar geta orðið slæmar, allt frá herfilegum timburmönnum að hálsbroti, og þá er það yfirleitt háls einhvers annars en apans sem brotnar. Þeir geta líka verið skeinuhættir í ástamálum, reyndar dásamlegir elskhugar en þeim mun verri eiginmenn eða eiginkonur. Apar þurfa að læra að taka tillit til annarra og gera sér grein fyrir að veröldin snýst ekki eingöngu um dynti og vellíðan þeirra sjálfra.
Sem dæmi um fæðingarár apafólks má nefna 1932, 1944, 1956, 1968 og 1992.

Hver vill vita meira?
Þeir sem vilja vita meira um ár apans geta til dæmis litið á vefsíður chinesefortunecalendar og Shelly Wu.
Góða skemmtun!

29.12.03 Edda Aradóttir.


     

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *