Andhverfa draumsins
Flest alla dreymir einhverntímann um betra líf en tengja það við nýjan bíl, stærra hús, hærri laun, langt og gæfuríkt líf og biðja því hljóðláta kvöldbæn um að vakna við betri aðstæður. Hvernig myndir þú bregðast við ef draumurinn mundi ekki rætast, heldur breytast í andstæðu sína? Hvað mundir þú gera ef þú vaknaðir einn daginn og heimurinn væri gjörbreyttur, allt öðruvísi en þú ættir von á?
Meðalaldurinn væri lækkaður niður í 30 ár, helmingur þjóðarinnar með eyðni, og hinn helmingurinn með berkla eða aðra sjúkdóma sem hefur verið útrýmt á Vesturlöndum fyrir löngu. Ríkisstjórnin rotin og hnuplandi skattpeningunum til eigin nota ásamt því að endurkjósa sjálfa sig með svindli og ólöglegum kosningum. Tryggingarfélög varla til og sjálfsagða þjónustu eins og skólagöngu og heilbrigðiskerfi þyrfti að borga alfarið úr eigin vasa. Jæja, það gætu nú verið nokkrir kostir líka, eins og stanslaus hiti, allt upp að 45 gráðum, og ódýrt að lifa, en þar sem meðallaunin hafa lækkað í u.þ.b. 3000kr./mánuði lifir meirihluti þjóðarinnar langt fyrir neðan fátæktarmörk.
Þetta hljómar nú ekki eins og draumaheimurinn sem óskað er í bæninni. Myndir þú þiggja fjárhagsaðstoð, ókeypis skólagöngu fyrir börnin þín undir ströngum skilyrðum, og t.d. þurfa að gerast múslimi. Myndir þú leggjast undir feld og hugsa málið? Auðvitað, fátæktinni fylgir oft mikil grimmd og flestir gera allt til þess að komast út úr henni, til þess að fá sér nýjan bíl, stærra hús, hærri laun…
Malaví og Sambía
#img 1 #Ég var fyrir stuttu í heimsókn í Malaví og Sambíu, í Afríku, þar sem margir lifa við þessar aðstæður. Þetta var fyrsta skiptið sem ég var í Afríku og var ég búinn að mála upp mynd í huga mér um volæði og eymd, úr litadýrð af staðreyndum sem ég vissi um Afríku (ég er verkfræðingur og get því ekki hugsað öðruvísi en í staðreyndum, skilgreiningum og sönnunum). Sumar staðreyndirnar voru kannski eitthvað í ólagi, eflaust má rekja það til þess að alast upp, eins og flestir Íslendingar, með Litla Svarta Sambó (http://www.sterlingtimes.co.uk/sambo.htm) sem helsta uppsláttarit um Afríku (ég skil ekki enn í dag hvernig tígrisdýrið breyttist í smjör! Einnig er fræðilegt að vita að sagan gerist á Indlandi en ekki í landi í Afríku).
Raunveruleikinn leit ekki út eins og málverkið mitt, heldur allt öðruvísi. Ég varð ekkert smá hissa. Staðreyndirnar voru allar réttar hjá mér (ekki þó um Sambó, en þær sem ég var búinn að lesa mig til um á netinu (http://www.odci.gov/cia/publications/factbook/print/mi.html,
http://www.odci.gov/cia/publications/factbook/print/za.html) og í bókum bókasafnanna). Fólkið hegðaði sér samt ekki eins og ég myndi gera við þessar aðstæður. Það hló og skemmti sér, var forvitið og vildi vita allt um mig, hrúgaðist að mér til þess að heilsa og spjalla. Þetta var ekki mín skilgreining á eymd og volæði. Hvar var litli strákurinn og stelpan, máttvana af hungri með stóran maga og flugur í augunum? Ég hef oft séð þau í fréttunum en finn þau hvergi hér, einungis skellihlæjandi börn, sum búin að búa sér til fótbolta úr plastpokum, önnur að passa litlu systkinin sín, síbrosandi, hvergi grátur eða vanlíðan. Ég var orðinn þreyttur í úlnliðnum á því að heilsa og veifa öllum. Það kom mér einnig á óvart hvað íbúarnir vissu mikið um Ísland, ég vissi sjálfur ekki að Malaví væri til fyrr en fyrir örfáum árum. Fólk var þyrst í upplýsingar og áhuginn mikill. Fólk átti ekki bágt, heldur var báglega statt.
Þróunarhjálp á nýjum nótum
Þróunarhjálp til Afríku hefur átt það til að leiðast á villigötur. Margir telja sig vera að aðstoða með því að troða efnishyggju og breyttum lífstíl upp á innfædda. Þetta hefur gert meiri skaða en hjálp og skilur einungis eftir sig meiri óánægju, meiri spillingu og ónothæfar byggingar og/eða tæki (vantar varahluti og íbúum ekki kennd notkunin).
Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) hefur fyrir löngu áttað sig á þessu og veitir aðstoð með því að kenna íbúum í Malaví, Namibíu, Úganda og Mósambík að nýta sér auðlindir sínar til eigin notkunar. Þetta er gert á þeim sviðum þar sem Íslendingar búa yfir sérstakri þekkingu og reynslu, fyrst og fremst í sjávarútvegi. Allmörg mismunandi verkefni eru nú í gangi á vegum ÞSSÍ.
Stærsta verkefni Þróunarsamvinnustofnunar er uppbygging spítala í Monkey Bay, Malaví (http://www.iceida.is/malawi.html). Þetta verkefni byrjaði sem uppbygging á lítilli heilsugæslustöð en hefur þróast út í 100 bedda spítala.
Verkefnið er unnið í samvinnu við innfædda, og reka þeir spítalann en íslendingar veita aðstoð og þekkingu við
#img 2 #uppbyggingu hans. Þetta verður fyrsti “community” spítalinn í Malaví sem verður rekinn af íbúum landsins og er liður í að byggja upp landið fyrir íbúana. Spítalinn er hugsaður sem aðalstöð fyrir 4 minni útibú í talstöðvasambandi, ásamt fleiri smærri stöðum lengra í burtu.
Nú þegar hafa verið byggðar legudeildir fyrir karla og konur, fæðingadeild, heilsugæsla í sér húsnæði, skrifstofur, bílskúr fyrir sjúkrabíl, líkhús, aðstaða fyrir aðstandendur, þvottahús, klósett, kamrar, og eigið vatnsból. Það sem vantar upp á til þess að spítalinn sé fullvirkur er skurðstofa og rannsóknastofa. Einnig vantar aðstöðu fyrir mæðra- og barnaeftirlit, smitsjúkdómadeild og barnadeild.
Ég varð fyrir þeirri óþægilegu reynslu að vera bitinn af fárveikum ketti í heimsókn minni en fékk fyrir vikið að heimsækja spítalann góða. Ætlaði mér hvort eð er að fara þangað því faðir minn hefur veitt sérfræðiaðstoð þar og séð að hluta til um uppbyggingu spítalans.
Byggingarnar eru vel afgirtar og á stóru svæði þar sem einnig er pláss fyrir þær byggingar sem á eftir að reisa. Eftir smá bið og stífkrampasprautu fór ég yfirlitsferð um allt svæðið. Þó að spítalinn væri ekki fullbyggður eða opinberlega opnaður (forsetinn búinn að hringja þangað óþreyjufullur tvisvar og athuga hvenær hann megi koma og opna stolt Malava) var mikil starfsemi í gangi. Mér var sagt að vanalega væri þó miklu meira að gera en þar sem það var sunnudagur þá voru flestir í kirkju, og rétt í því heyrði ég mikinn gleðisöng í fjarska.
Ég fékk að fara inn á mæðradeildina þar sem þrjár mæður voru nýbúnar að eiga, og búið var að koma fyrir hreinum lökum og flugnaneti yfir rúmin. Þvottahúsið var tiltölulega nýkomið í notkun og því ekki komin lök á barnarúmin fyrir eldri börnin, en mæðurnar komu með eigin lök með sér en hefðin er einnig að sitja mikið á gólfinu. Ég vildi ekkert vera að skoða líkhúsið, enda voru tveir gestir (gammar) sem svifu þar yfir og vildu frekar koma í heimsókn, þó óvelkomnir væru. Í upprunalega skipulaginu voru skurðdeild og smitsjúkdómadeild vitlaust staðsettar en þegar sérfræðiþekking var komin í verkefnið (pabbi minn!) var það leiðrétt. Allar byggingar voru hækkaðar og stigarnir á milli steyptir og einnig hækkaðir. Þetta var gert til þess að hindra flóðskemmdir sem gætu komið þegar regntíminn stendur sem hæst og einnig voru útbúin göt í múrinn sem umkringir spítalann, til þess að hleypa flóðinu út.
Fjármögnun stöðvuð
Tæki fyrir blóðprufur og rannsóknavinnu voru á leiðinni, ásamt notuðum röntgentækjum fyrir myndgreiningu. En hvernig var það, var nokkuð búið að byggja neina aðstöðu fyrir slíka starfsemi og af hverju ekki? Og hvar áttu starfsemin og tækin að vera? Mér var sýnd smá kompa á milli tveggja skrifstofa. Ég komst þá að því að það var búið að frysta alla starfsemi á vegum ÞSSÍ í bili. Legudeildirnar sem höfðu verið byggðar voru fyrir skurðdeildina og sjúklinga með sjúkdóma greinda á rannsóknastofunni. Deildirnar voru að sjálfsögðu ekki fullar þar sem það var ekki búið að ljúka við þessar byggingar og koma starfseminni í gang. En þar sem ekki er verið að nýta deildirnar að fullu er beðið með frekari fjárveitingar í verkefnið. Ég átti erfitt með að trúa þessu. Peningarnir voru ekki til staðar og það sem hefði verið til staðar flutt í önnur verkefni. Lyf voru á þrotum og stjórnleysi framundan. Ég hitti íbúa sem sagði mér að hún hefði komið með fárveikan mann á spítalann en enga aðstoð fengið bæði vegna læknaleysis og lyfjaleysis. Hún horfði upp á manninn deyja fyrir framan sig. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur ekki verið með starfsmann ráðinn við verkefnið í fjóra mánuði heldur eru núna vélstjóri og skrifstofukona sem stjórna starfseminni af takmarkaðri þekkingu. Þetta er stærsta verkefni þróunarsamvinnustofnunarinnar. En það sem ergði mig hvað mest var þessi yfirlýsing sem Malavarnir fengu um að fjármunirnir væru ekki til staðar. Ég var einungis tvær vikur í Malaví en hef ekki búið þar í fleiri ár eins og flestir í þróunarhjálpinni og horfði því einungis á umhverfið með gests augum, og það var margt sem mér líkaði ekki að sjá.
Hvert fara peningarnir?
Það er talið að 60% af almennri þróunaraðstoð í heiminum skili sér ekki til landsins sem verið er að aðstoða heldur þangað sem peningarnir koma upprunalega, fyrst og fremst í gegnum laun starfsmanna en einnig með ströngum og fáranlegum verslunarkröfum til landanna sem veita aðstoðina. Ég tel að megnið af íslenskri þróunarhjálp skili sér ekki aftur til Íslands, heldur til Danmerkur. Þeir Íslendingar sem vinna við þróunaraðstoð (og að sjálfsögðu fleiri þjóðir) versla af ákafa með skattfrjálsu laununum sínum hjá Peter Justesen (www.pj.dk) sem hefur sérhæft sig í virðisaukaskattfrjálsri verslun fyrir sendiráðsstarfsmenn (allir í þróunarsamvinnustofnun Íslands falla undir utanríkisráðuneytið). Ég er ekkert að fordæma efnishyggju (er sjálfur með mikla söfnunaráráttu) en þegar önnur þróunarsamtök (www.sida.org, www.afrikagrupperna.se, www.nrc.no) hvetja starfsmenn sína til að auka atvinnu í landinu með því að kaupa ódýr sérsmíðuð húsgögn af íbúum landanna sem þeir eru að vinna í kaupa Íslendingar sér leðursófasett, DVD spilara, tölvur, plasma sjónvörp og áfengi frá Danmörku.
En það þarf auðvitað að fylla 300 fermetra villurnar með einhverju og allir verðirnir og þjónustufólkið þurfa að hafa eitthvað að þrífa og dunda sér við. Ég myndi nú ekki endast lengi í slíkum heimi en fljótlega fá mikilmennskubrjálæði. Ekki misskilja mig. Flestir íslendingar sem eru í þróunarsamvinnustofnunni eru að gera dásamlega hluti og sinna sínu starfi til fyrirmyndar. En það virðast vera svartir sauðir inn á milli. Ég talaði við malavíska konu sem spurði mig: “Hvað eruð þið Íslendingar eiginlega að gera við peningana ykkar?”
Hún sagði mér frá því að það væri alvitað að íslenskur fulltrúi hefði ráðið Malava til þess að sinna vinnunni fyrir sig og borgaði honum 30 þúsund kr. á mánuði (verðir fá u.þ.b. 2.500 kr á mánuði!). Það var svo sem ekki eingöngu það sem mig hryllti við heldur það sem hún sagði mér næst. Þessi Malavi var víst alræmdur skúrkur og gerði sér lítið fyrir, keypti sér nótubók og falsaði nótur í tonnatali, sem íslenska ríkið greiddi síðan með gleði. Fyrir peninginn var kauði síðan búinn að stofna banka í Malaví! Fyrir mína peninga, sem ég greiði í skatt! Og síðan voru ekki til fjármunir til þess að ljúka við spítalann! Úff, ég skammaðist mín fyrir að vera Íslendingur, og það var ekki í eina skiptið í þessari Afríkuferð minni.
Sambía, safarí og hvalveiðar
#img 3 #Nokkrum dögum síðar fór ég til Sambíu í safaríferð. Það er nú ekki hægt að fara til Afríku án þess að fara í safaríferð og skoða dýralífið. Þetta var alveg dásamlegur tími og yfirþyrmandi mikið af dýrum allstaðar: Flóðhestar, krókódílar, fílar, ljón, apar, hlébarðar, ofl ofl. Ég var þrjá dásamlega (og aftur dásamlega!) daga í Sambíu og fór fjórum sinnum í safaríferð, þrisvar sinnum í jeppa og einu sinni gangandi. Já, ég sá ljón í öll skiptin, og já, ég varð smeykur, sérstaklega þegar ég var fótgangandi. Smá öryggi var í því að það fylgdi okkur vörður með riffil, en mér sýndist riffillinn vera það gamall að hann hefði örugglega sprungið ef hann hefði reynt að skjóta ljónið sem urraði á okkur.
Það sem verður mér eftirminnilegast úr þessari ferð er ekki allt dýralífið eða flottheitin í þjóðgarðinum (skálinn var með sundlaug og þegar ég lá þar röltu fílar framhjá!) Ekki eru það heldur öll þjóðráðin sem ég fékk eins og það að borða hlébarðakúk til þess að fá betri sjón, eða brugga töfradrykk af ávöxtum pulsutrjánna (sausage tree) til þess að lengja á mér tippið. Nei, það sem verður eftirminnilegast er samtal sem ég átti við innfæddan Zambíubúa.
Ég hef ferðast víða (Afríka er fimmta heimsálfan sem ég hef farið til) og alltaf fengið jákvætt viðmót sem Íslendingur. Íslendingar eru mjög vel liðnir í flestum löndum, og ætið heyrir maður: “Ohh, mig hefur alltaf langað til þess að heimsækja Ísland”. Svíarnir halda mikið upp á kvikmyndir Hrafns Gunnlaugssonar og þegar þeir komast að því að maður sé frá íslandi segja þeir ætið: „Thúúnkur knífvur“.
Það var ekki fyrir en nú sem ég hef skammast mín fyrir að vera Íslendingur, og það í svörtustu Afríku. Þegar þessi innfæddi starfsmaður þjóðgarðsins komst að því að ég væri Íslendingur spurði hann mig hvort að við værum byrjaðir að stunda hvalveiðar. Ég játaði því, og þá kom fullyrðingin sem ég átti erfitt með að kyngja: “Þú veist að aukinn veiðiþjófnaður á fílum í Afríku er bein afleiðing af íslenskri hvalveiði!”. Ég verð að viðurkenna að ég átti erfitt með að sjá samhengið þar á milli en fékk það svo útskýrt nánar. Eftir að Íslendingar brussuðust úr hvalveiðiráðinu 1992 og ætluðust til að aðrar þjóðir fylgdu á eftir hafa þeir reynt að fá aðgang aftur og hefja hvalveiðar á ný. Eins og margir vita er fyrirhugað að stunda vísindahvalveiðar fram að árinu 2006 og hefja viðskiptaveiðar á ný, með Japan sem stærsta kúnnann. Þar sem vísindaveiðarnar veita meira kjöt en mettar íslenskan markað er áætlað að flytja út “vísinda” hvalkjöt til Japans á næstunni (http://www.wdcs.org/dan/publishing.nsf/c525f7df6cbf01ef802569d600573108/b2460680bc28d8f480256d4a0040d97b/$FILE/Iceland-report-english.pdf) En tengsl hvalsins við fílinn fólust í því hvernig Íslendingar komust aftur inn í hvalveiðiráðið. (http://www.iwcoffice.org/Final%20Press%20Release%202002SM.htm) .
Árið 1997 byrjuðu Íslendingar að berjast fyrir því að aflétta banni á fílaveiðum í Afríku og leyfa 3 þjóðum að stunda takmarkaðar veiðar aftur, fyrir útflutning til Japans (http://wildnetafrica.co.za/cites/info/pre_037_news.html). Alheimsbann á fílaveiðar var sett árið 1989 og höfðu veiðarnar og veiðiþjófnaður minnkað gífurlega við bannið og eftirspurnin farið minnkandi. (http://earthtrends.wri.org/text/BIO/features/BIO_fea_endangered.htm).
Ákvörðunartaka um veiðar og sölu á dýrum í nálgun við útrýmingarhættu er tekin af CITES (www.cites.org). Íslendingar gerðust meðlimir þar í janúar árið 2000 og fengu þá kosningarétt og ákvörðunarrétt um fílaveiðar og gátu barist með Norðmönnum og öðrum þjóðum um að leyfa flutning á fílabeinstönnum. Í nóvember 2002 (mánuði eftir að Íslendingar fengu inngöngu í hvalveiðiráðið á ný) voru veiðar á fílum teknar upp á ný í Simbabve, Botsvana, Sambíu, Suður Afríku og Namibíu (http://www.hsi.org.au/news_library_events/press_releases/N120.htm). Auðvitað studdi Suður-Afríka okkur við inngönguna í hvalveiðiráðið, einnig 9 aðrar þjóðir sem fá fjárhagslegt framlag frá Japönum í veiðar. (http://www.scoop.co.nz/mason/stories/PO0210/S00094.htm, http://www.hsi.org.au/news_library_events/press_releases/N116.htm).
En það eina sem ég man eftir í þessum blessuðu kosningum er að vesalings Svíarnir misstu allt niður um sig og Íslendingar komust inn með eins atkvæðis mun.
Það er gífurleg eftirspurn eftir fílabeini í Asíu, aðallega í Japan, Kína og Hong Kong. Við aukna eftirspurn eykst einnig veiðiþjófnaðurinn. Veiðimaður í Sambíu getur fengið 2-3 dollara fyrir kílóið af fílabeinstönnum hjá ólöglegum endursala í Malaví, sá hinn sami getur selt kílóið á 20-30 dollara til Hong Kong þar sem götuverðið á svartamarkaðnum er 400-600 dollara. Starfsmaður þjóðgarðsins fræddi mig einnig um það að veiðiþjófnaður væri farinn að aukast gífurlega í Sambíu (nashyrningarnir voru löngu útdauðir og nú voru fílarnir enn á ný komnir í áhættuhópinn).
Oh, ó já, ég skammaðist mín. Þegar ég fór í háttinn voru það ekki lætin í ljónunum, öpunum og flóðhestunum fyrir utan sem héldu mér andvaka, heldur Íslendingurinn í mér.
22.09.03 Hjörleifur Halldórsson.