Alþingiskosningar 2003

Við hjá Raferninum teljum áhugavert að vita hver afstaða stjórnmálaflokkanna er til þróunar og stöðu læknisfræðilegrar myndgreiningar.
Við lögðum spurningar fyrir fulltrúa flokkanna. Aðeins VG svöruðu þeim.  Einn flokkur var óánægður með spurningarnar, hinir svöruðu engu.
Í samtölum við suma fulltrúa flokkanan kom fram að þeim þótti málefnið helst til sértækt til að ætlast mætti til að þeir hefðu þekkingu á því.
Myndgreiningargeirinn hefur því verk að vinna ef koma á myndgreiningunni á kortið hjá stjórnmálafólki landsins.
 • Þann 19. apríl síðastliðinn var eftirfarandi erindi sent til fulltrúa stjórnmálaflokkanna:

Ágæta stjórnmálafólk

Raförninn er fyrirtæki stofnað 1984. Á vegum fyrirtækisins starfa 10 til 15 manns. Við sinnum ráðgjöf og tækniþjónustu við læknisfræðilega myndgreiningu (læknisfræðileg myndgreining er samheiti yfir þær myndgreiningaraðferðir sem notaðar eru við sjúkdómsgreiningu) fyrir opinberra aðila, sjálfseignarstofnanir og einkafyrirtæki.

Dæmi um okkar viðskiptavini eru: Landspítalinn – Háskólasjúkrahús,  Læknisfræðileg Myndgreining, Hjartavernd, Krabbameinsfélag Íslands, Íslensk Myndgreining, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri  o.s.frv.

Læknisfræðileg myndgreining er undirstöðugrein nútíma læknisfræði. Hraðar tækniframfarir og aukin sérþekking hafa skapað um 5% árlegan meðalvöxt í greininni á vesturlöndum. Í dag er um 1/3 af rannsóknum sem gerðar eru með læknisfræðilegri myndgreiningu á Íslandi unnar af einkaaðilum. Opinberir rekstraraðilar sjá ennþá um 2/3 af rannsóknunum en hlutur þeirra fer minnkandi. Mest af vísindavinnu á þessu sviði er unnið af Hjartavernd sem er sjálfseignarstofnun.

Raförninn rekur vefsetur, raforninn.is. Þar er fjallað um málefni myndgreiningarinnar og þeirra sem við hana starfa. Heimsóknir eru að meðaltali um 45 til 65 á dag og síðuflettingar frá 10 til 20 þúsund á mánuði. Notendur síðunnar eru aðallega starfsmenn okkar viðskiptavina.

Okkur langar að forvitnast um afstöðu flokkanna til nokkurra atriða sem lúta að myndgreingargeiranum og höfðum því samband við kosningaskrifstofurnar og báðum um nöfn þeirra sem svarað gætum spurningum af þessu tagi. Allir brugðust vel við því.
Spurningarnar og svörin ætlum við að birta sem hluta  fókusgreinar, helst í þriðjudags- eða miðvikudagsútgáfu okkar í næstu viku. Við reiknum með stuttum og  skýrum svörum.

Spurningar  til frambjóðenda stjórnmálaflokkanna:
  • Hver er skoðun þín og þíns flokks á verkaskiptingu opinberra- og einkaaðila á þessu sviði ? • Hvort rekstrarformið telur þú hagkvæmara fyrir ríkisjóð? • Á opinbera tryggingarkerfið að greiða hluta af rannsóknarkostnaði áháð því hver vinnur verkið? • Ert þú  sátt/sáttur við kostnaðarhlutdeild Tryggingarstofnunar í myndgreiningarannsóknum eins og hún er nú?  • Hvort myndir þú frekar fara í rannsókn á einkarekinni myndgreiningardeild eða deild sem rekin er af opinberum aðilum?


Þrátt fyrir að haft væri samband oftar en einu sinni og leitað eftir svörum voru undirtektir lélegar. Frambjóðendur virðast hafa afskaplega lítinn áhuga og þá væntalega engar skoðanir á málefnum myndgreiningargeirans. Það er í meira lagi undarlegt þegar svo mikilvægur þáttur heilbrigðisþjónustunnar á í hlut. Einungis Ögmundur Jónasson hjá VG sendi inn  svör við spurningunum og þökkum við honum fyrir.
Svörin fara hér á eftir:
 • Hver er skoðun þín og þíns flokks á verkaskiptingu opinberra- og einkaaðila á þessu sviði ? 

Svar:
 VG hefur þá meginstefnu að almenn grunnþjónusta heilbrigðiskerfisins  skuli vera á höndum hins opinbera. Heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga, eftir því sem við verður komið og eðlilegt má teljast. Sérfræðiþjónusta  einkaaðila er og verður hluti heilbrigðiskerfisins, spurningin er hversu mikil hún á að vera og hvernig sjúklingum eða verkefnum er beint til einkaaðila. Hvað þetta varðar er ekki hægt að alhæfa um alla heilbrigðisþjónustuna en þó er rétt að leggja áherslu á að VG telur mikilvægt að ekki verði gengið svo langt í að vísa verkefnum út úr hinni almennu opinberu heilbrigðisþjónustu að hún fari beinlínis að líða fyrir það.  • Hvort rekstrarformið telur þú hagkvæmara fyrir ríkisjóð? 
Svar: 
 Ríkissjóður ber kostnað af TR og þeirri heilbrigðisþjónustu sem er á fjárlögum. Það er sama hvorum megin kostnaðurinn liggur, sérfræðiþjónusta er í eðli sínu dýr þjónusta og því ber að byggja upp heilbrigðiskerfi sem nýtir þá þjónustu í framhaldi af almennri grunnþjónustu heilsugæslunnar. Það er ekki nóg að líta á kostnað ríkisins, kostnaður sjúklinganna eða þeirra sem nota þjónustu sérfræðinga í einkarekstri er meiri en í opinberri þjónustu. Kostnaður vex við  einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, bæði fyrir ríki og sjúklinga.  • Á opinbera tryggingarkerfið að greiða hluta af rannsóknarkostnaði óháð því hver vinnur verkið? 

Svar:
Já, en mismikið eftir því hvert sjúklingar leita í meðferð, þ.e. fara fyrst á heilsugæslustöð eða beint til sérfræðings og eins eftir hvaða leiðum sjúklingum er beint í viðkomandi rannsóknir.  • Ert þú  sátt/sáttur við kostnaðarhlutdeild Tryggingarstofnunar í myndgreiningarannsóknum eins og hún er nú? 

Svar: Nei, sérstaklega á það við um þátttöku sjúklinga sem leita til heilsugæslustöðva og fá þjónustu göngudeilda sjúkrahúsanna. Þátttaka sjúklinga í rannsóknarkostnaði  er orðin allt of mikil.  • Hvort myndir þú frekar fara í rannsókn á einkarekinni myndgreiningardeild eða deild sem rekin er af opinberum aðilum? 

Svar: Flestir sjúklingar velja lækni eða heilbrigðisþjónustu og treysta viðkomandi til að láta framkvæma nauðsynlegar rannsóknir og vinna úr þeim á öruggan hátt. Yfirleitt eru það læknarnir sem velja hvert þeir senda sjúkling í myndatöku eða myndir í myndgreiningu. Læknum ber þó að hafa í huga að þeir eru að taka fjármálalega ákvörðun ekki síður en læknisfræðilega þegar þeir ákveða hvert þeir vísa sjúklingum sínum. Vísi þeir sjúklingum sínum eingöngu til einkarekinna fyrirtækja eru þeir jafnframt að svelta sjúkrahúsin sem einnig sinna þessari þjónustu. 
  

Ögmundur Jónasson

Misjafnt er hversu vel gengur að finna upplýsingar á vefsetrum hinna flokkanna sem svarað gætu einhverju af ofangreindum spurningum. Hjá þeim stærstu er opinber stefna á þessum nótum:

Samfylkingin segist hafna einkarekstri í heilbrigðisþjónustu…

Framsóknarflokkurinn notar svipað orðalag.

Sjálfstæðisflokkurinn er á öndverðum meiði. 

Í framhaldi af þessu má til gamans benda á athyglisverða grein í Læknablaðinu þar sem fjallað er um afsláttarkort og komugjöld í heilbrigðisþjónustu eins og hún er undir stjórn þeirra sem nú hafa völdin. 

Nýtum kosningaréttinn!
05.05.03. Edda Aradóttir  /   Smári Kristinsson.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *