Aldursgreining blóðtappa

 Í júníhefti Journal of Nuclear Medicine birtist athyglisverð grein um aldursgreiningu blóðtappa í djúpa bláæðakerfinu með Technetium 99m og rt-PA (recombinant tissue plasminogen activator).

Skiptir máli fyrir meðferð
Um er að ræða aðferð til að greina hvort blóðtappar eru nýir eða eldri sem, samkvæmt því sem segir í greininni, skiptir miklu máli þegar meðferð er ákveðin, ekki síst þegar um er að ræða endurtekin einkenni eftir að einni meðferð er lokið.

Enn á rannsóknastigi?
Mjög óformleg og nokkuð takmörkuð athugun mín og Eysteins Péturssonar, röntgenlæknis, leiddi ekki í ljós neina leið til að fá rt-PA sem “kit” til að blanda við Tc-99m. Ef til vill er notkun þess enn á rannsóknastigi en það er vel þess virði að fylgjast með framvindu mála hvað þetta varðar.

Eldri aðferðir þekktar
Að sögn Eysteins voru á tímabili gerðar rannsóknir á ísótópastofu LSH þar sem notað var plasmín tengt Tc-99m og safnaðist það í nýlega blóðtappa. Fáanlegt var “kit” frá Danmörku og sagði Eysteinn að þessar rannsóknir hefðu gengið vel en framleiðslu “kitsins” síðan verið hætt. Hann vissi ekki ástæðuna og sagðist ekki hafa heyrt af neinum aukaverkunum sem hefðu getað orðið til þess.

Aðgangur að greininni
Eins og fyrr segir má lesa þessa grein í: Journal of Nuclear Medicine Vol. 48 No. 6 873-878 og þeir sem eru áskrifendur geta lesið alla greinina í rafrænu útgáfunni en þeir sem ekki eru áskrifendur geta lesið abstract. Einnig er hægt að kaupa sólahrings aðgang að rafrænu útgáfunni, fyrir lága upphæð.


Forvitnilegt að fylgjast með
Að mínu mati er þarna um mjög athyglisverðar niðurstöður að ræða og ég hvet allt myndgreiningarfólk til að hafa augun opin fyrir fleiri fréttum af Tc-99m rt-PA.

 16.07.07 Edda G. Aradóttir, geislafræðingur. edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *