Álagseinkenni við tölvuvinnu.

Sjúkraþjálfari, sem hefur reglulegar tekjur af að halda einum ágætum röntgenlækni líkamlega færum um að vinna, hefur verið að spyrja hvernig vinnuaðstöðu við úrlestur sé almennt háttað. Aðstaðan er líklega jafn misjöfn og vinnustaðirnir eru margir en hvaða kröfur þarf hún að uppfylla til að teljast góð?

Stoðkerfið
Í þessari grein ætla ég eingöngu að huga að vinnuaðstöðu, með tilliti til stoðkerfis þess sem vinnur við tölvu megnið úr vinnudeginum. Í hópi myndgreiningarfólks eru það fyrst og fremst röntgenlæknar og ritarar sem um er að ræða. Þegar vinnuaðstaða er hönnuð þarf að hafa margt fleira í huga en stoðkerfi manneskjunnar sem þar á að vinna en hugmyndin er að taka það fyrir í öðrum greinum. Ekki má heldur gleyma því að við berum sjálf ábyrgð á almennu líkamlegu ásigkomulagi okkar, líkamsbeitingu, hléum frá vinnu, léttum æfingum í vinnunnni o.s.fr.

Myndgreiningarfólk sem bundið er við tölvu er með álagseinkenni
Fyrir skömmu sagði Minna frænka frá niðurstöðum könnunar sem gerð var á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum. Þar fengu röntgenlæknar lista með spurningum varðandi vinnutengd óþægindi frá stoðkerfi og svör fengust frá 28 af þeim, fólki á aldrinum 36 – 50 ára og af báðum kynjum. Niðurstaðan var sú að einungis tveir höfðu EKKI fundið fyrir einkennum sem tengdust vinnunni.

Niðurstöður algerlega óvísindalegrar könnunar, sem ég gerði meðal ritara sem ég kannast við, bendir til þess að svipað sé uppi á teningnum hjá þeim. Ritararnir virðast þó meðvitaðri um nauðsyn góðrar vinnuaðstöðu og réttrar líkamsbeitingar en niðurstöður bandarísku könnunarinnar benda til að röntgenlæknarnir séu.

Athyglisvert efni í lokaverkefni sjúkraþjálfanema
Ég er þeirrar skoðunar að þó fyrrnefnd könnun í Bandaríkjunum hafi verið ákaflega lítil gefi hún nokkuð raunhæfa mynd af ástandinu. Það væri mjög áhugavert að gera svipaða könnun meðal íslenskra röntgenlækna og þegar ég hafði samband við Ástu Guðjónsdóttur, verkefnastjóra á námsbraut í sjúkraþjálfun hjá læknadeild HÍ, samþykkti hún þegar að benda útskriftarnemum næsta skólaárs á þetta sem hugmynd að lokaverkefni.

Hvernig skyldi nú aðstaðan eiga að vera til að minnka sem mest líkur á álagseinkennum? 


Reglur, leiðbeiningar og rannsóknir

Hjá Vinnueftirliti ríkisins hafa verið gefnar út reglur og leiðbeiningar varðandi vinnu við tölvu. Reglugerð um skjávinnu, nr. 498 frá árinu 1994, er í fullu gildi og flest sem fram kemur í bæklingnum „Vinna við tölvu“, sem gefinn var út 1999, á einnig við í dag. Þó tölvur og jaðartæki hafi breyst svo mikið að skýringamyndir í bæklingnum kalli fram bros hjá þeim sem les hann í dag er mannslíkaminn ekkert frábrugðinn því sem hann var fyrir rúmum áratug!

Nemendur í sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri verið duglegir að vinna verkefni um þessi mál. Þar má nefna verkefni sjúkraþjálfanemanna Guðríðar Ernu Guðmundsdóttur, Sigrúnar Kristínar Jónasdóttur og Þórsteinu Sigurbjörnsdóttur, frá árinu 2008, „Forvarnir gegn álagseinkennum“, og einnig verkefni iðjuþjálfanemans Guðrúnar Helgu Ólafsdóttur, frá sama ári, „Áhættuþættir í skrifstofurými“.

Einnig er gott efni að finna hjá bandaríska Vinnueftirlitinu, Occupational Safety & Health Administration. Ég er sérstaklega hrifin af tékklistunum þeirra sem hjálpa fólki að gera sér grein fyrir hvað er gott og hvað þarf að bæta í vinnuaðstöðu þess.

Hvernig er aðstaðan þín?
Nú þegar við erum komin með góða hugmynd um æskilegt fyrirkomulag á vinnuaðstöðu við tölvu legg ég til að allir fari yfir aðstöðuna sína og athugi hvað betur má fara. Ég óska eftir að sem flestir sendi Arnartíðindum smá upplýsingar um vinnuaðstöðuna, ekki síst röntgenlæknar og ritarar. Gaman væri að fá myndir, bæði af því sem er gott og því sem þarf að bæta. Sérstaklega væri áhugavert að fá „fyrir og eftir“ myndir, frá þeim sem gera, eða láta gera, breytingar hjá sér.

25.05.10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *